Kári Stefánsson gagnrýnir ríkisstjórnina harðlega

"Með vini eins og þessa ríkisstjórn þarf maður ekki á neinum óvinum að halda," segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í viðtali við Ólaf Teit Guðnason, blaðamann Viðskiptablaðsins. Óhætt er að fullyrða að fáir eiga von á því að Kári Stefánsson skipti sér í hóp gagnrýnenda ríkisstjórnarinnar.

Í sjálfu sér er ótrúlegt að lesa það sem Kári Stefánsson segir og er ljóst að honum er ekki gefið að líta í eigin barm. Viðtalið birtist í Viðskiptablaðinu í dag og ættu jafnt þeir sem hafa áhuga á viðskiptum sem stjórnmálum að verða sér út um eintak.

En um ríkisstjórnina segir Kári Stefánsson orðrétt:

„Ég get sagt þér það að okkar samskipti við stjórnvöld hafa verið okkur afskaplega dýr. Ef við tökum fyrst miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði, þá studdu líklega 90% fólks í þessu landi þá hugmynd en stjórnvöld báru ekki til þess gæfu að koma í gegn lögum sem hægt væri að hrinda í framkvæmd. Stjórnarflokkarnir töpuðu kjarkinum á síðustu metrunum og breyttu frumvarpinu á þann hátt að það hefur verið gjörsamlega óframkvæmanlegt. Þetta gerðu þeir eftir að við höfðum lagt í mjög mikla fjárfestingu til að undirbúa okkur undir að fara af stað með þetta verkefni. Þannig að þar kostuðu þeir okkur mikinn pening. Ríkisstjórnin lofaði okkur síðan og Alþingi

samþykkti lög sem heimiluðu henni að ábyrgjast breytanleg skuldabréf fyrir fyrirtækið. Við urðum að tilkynna það inn á markað en ríkisstjórnin efndi þetta ekki og olli okkur á þann hátt töluverðum skaða. Þetta dróst bara og dróst og dróst og endaði á því að við fórum og seldum okkar eigin breytanlegu skuldabréf án nokkurrar ríkisábyrgðar og það gekk mjög vel. En þarna var búið að búa til væntingar sem síðan var ekki hægt að standa undir og það olli okkur auðvitað tjóni. Þannig að þessi ríkisstjórn, sem á að hafa mulið undir þetta fyrirtæki, hún hefur valdið okkur erfiðustu áföllum sem fyrirtækið hefur orðið fyrir. Með vini eins og þessa ríkisstjórn þarf maður ekki á neinum óvinum að halda.

Þetta sýnir að það er erfitt og afskaplega óskynsamlegt af fyrirtækjum á Íslandi sem og annars staðar að reiða sig á stuðning hins opinbera. Stuðningur hins opinbera kemur alltaf með mjög háum prís. Og það er mjög erfitt að reiða sig á stjórnmálamenn vegna þess að stjórnmálamenn eru fyrst og fremst í því að ná endurkjöri og hlúa að sinni eigin stöðu í þessu samfélagi. Þannig er það. Við hverju býstu? Þessir menn fá bara fjögurra ára ráðningarsamninga."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Held nú að Kári ætti að leita að svörum við þessu veseni sínu annarsstaðar en hjá ríkisstjórninni. Það eru örugglega ekki margir sem botna í þessu fyrirtæki hans, sem tapar gríðarlegum upphæðum á hverju ári. Þetta hljómar eins og frekur krakki sem hefur ekki fengið það sem hann vill. Það að ætla að kenna stjórnvöldum um dæmir bara manninn sjálfan.

Ingólfur H Þorleifsson, 13.4.2007 kl. 08:20

2 Smámynd: Júlíus Valsson

Þær hugmyndir, sem uppi voru á sínum tíma um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði voru gjörsamlega óframkvæmanlegar, eins og þær voru settar fram. Þetta vissu menn, en voru aldrei spurðir. Hvað DeCode er að bralla núna veit enginn nema þeir sjálfir. Kári minnir mig alltaf á hinn fræga Garðar Hólm.   

Júlíus Valsson, 13.4.2007 kl. 09:28

3 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Kári minnir Júlíus Valsson á Garðar Hólm. Mig líka. Sá er samt munurinn, að Garðar Hólm vélaði ekki aleiguna út úr fólki ...

Hlynur Þór Magnússon, 13.4.2007 kl. 09:47

4 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Kári vélaði nú ekkert aleiguna út úr fólki, það sá um það sjálft.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 13.4.2007 kl. 12:10

5 Smámynd: Júlíus Valsson

Það voru hlutabréfasalar sem seldu hlutabréfin en ekki Kári og markaðurinn þ.e. framboð og eftirspurn (les: draumórar kaupenda), sem réði verðinu.

Júlíus Valsson, 13.4.2007 kl. 12:25

6 identicon

Decode átti alls ekki að markaðsetja til almennings heldur til stórra áhættufjárfesta. Margir, brenndu sig ílla og voru algjörlega blautir bak við eyrun varðandi hlutabréfakaup. Lögfræðingar sem nánast voru við það að missa réttindin vegna greiðsluþrots og einnig stjórnmálamenn sem tóku stór veðlán á húsin sín og keyptu mikið magn bréfa lágu í valnum í hópum, þegar væntingar og verð stórlækkaði.

Sem nýsköpunarfyrirtæki og í raun stórkostlegt á sínu sviði var ekki óraunhæft að hjálpa Kára með t.d. sérstökum tímabundum skattaívilnunum o.s.f.

Hinsvegar þessi hugmynd sem kom fram á sínum tíma með ríkisábyrgð á launum var gjörsamlega út í hött þ.s hún hún skapaði hættulegt fordæmi og þetta er heldur ekki  hlutverk ríkisvaldsins.

Kára hefði átt að geta sagt sér þetta sjálfur. Hann hefur því miður sterk rök fyrir því að hann var leiddur áfram af misvitrum og hættulegumk pólitíkusum.

birgir guðjónsson (IP-tala skráð) 14.4.2007 kl. 01:17

7 Smámynd: Birgir Guðjónsson

Decode átti alls ekki að markaðsetja til almennings heldur til stórra áhættufjárfesta. Margir, brenndu sig ílla og voru algjörlega blautir bak við eyrun varðandi hlutabréfakaup. Lögfræðingar sem nánast voru við það að missa réttindin vegna greiðsluþrots og einnig stjórnmálamenn sem tóku stór veðlán á húsin sín og keyptu mikið magn bréfa lágu í valnum í hópum, þegar væntingar og verð stórlækkaði.

Sem nýsköpunarfyrirtæki og í raun stórkostlegt á sínu sviði var ekki óraunhæft að hjálpa Kára með t.d. sérstökum tímabundum skattaívilnunum o.s.f.

Hinsvegar þessi hugmynd sem kom fram á sínum tíma með ríkisábyrgð á launum var gjörsamlega út í hött þ.s hún hún skapaði hættulegt fordæmi og þetta er heldur ekki  hlutverk ríkisvaldsins.

Kára hefði átt að geta sagt sér þetta sjálfur. Hann hefur því miður sterk rök fyrir því að hann var leiddur áfram af misvitrum og hættulegumk pólitíkusum.

Birgir Guðjónsson, 14.4.2007 kl. 01:18

8 Smámynd: óskilgreindur

Hvílíkt rugl að halda því fram að það hafi í raun verið Kára að kenna að einstaklingar ákváðu í stórum mæli að fjárfesta í fyrirtækinu og jafnvel þó að ráðgjafar bankana hafi sett upp söluhattinn, þá er það alltaf einstaklingurinn sem tekur lokaákvörðun. Að fjárfesta í áhættufyrirtæki krefst þess að einstaklingurinn sé fjársterkur og hafi "efni" á að tapa þeim fjármunum sem lagðir eru í fyrirtækið. Það voru nú flestir eingöngu að gambla og það kann aldrei góðri lukku að stýra.

óskilgreindur, 14.4.2007 kl. 23:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband