Heiftin og og gamall fræðimaður

Sigurður Líndal, prófessor í lögum, skrifar nöturlega grein í Fréttablaðið síðastliðinn þriðjudag. Þessi gamli grandvari fræðimaður er fullur vandlætingar vegna skipunar dómara í undirrétti og sparar ekki stóryrðin, sem einhverjir kalla fúkyrði. 

Ég hef verið í hópi þeirra fjölmögru sem hafa litið á Sigurð Líndal sem einn af okkar merkustu fræðimönnum sviði lögfræði. Skrif hans í Fréttablaðið eiga ekkert skylt við fræðimennsku. Heiftin hefur borið fræðimanninn ofurliði af ástæðum sem flestum eru huldar. Sigurður Líndal er að þjóna öðrum hagsmunum en hagsmunum fræðimennskunnar, sem hann með réttu hefur verið svo stoltur af. En glæsileg fortíð gleymist auðveldlega í ólgusjó samtímans og sagan dæmir menn ekki síst af þeirra síðustu verkum. 

Heiftin sem hefur mótað umræðuna um skipan Þorsteins Davíðssonar í embætti dómara við héraðsdóm Norðurlands eystra og Austurlands á sér vart líka á síðustu árum. Svo virðist sem hún hafi ekkert með hæfni Þorsteins til að sinna starfi dómara að gera, heldur aðeins þá einföldu staðreynd að hann er sonur föður síns. 

Ég ætla ekki að gera að umtalsefni hversu fráleitt það er að matsnefnd skuli reyna að taka völd af ráðherra, með því að raða niður umsækjendum í sérstaka röð. Ég ætla heldur ekki að benda á þá staðreynd að Þorsteinn Davíðsson hefur áður sótt um starf dómara, en ekki fengið. En mér finnst rétt að benda á hversu ósamkvæmir gamlir fræðimenn, og minni spámenn eins og Ástráður Haraldsson, eru sjálfum sér. 

Samkvæmt lögum ber hæstaréttardómurum að skila umsögn um þá sem óska eftir embætti dómara við Hæstarétt. Þetta var gert árið 2006 þegar Hjördís Björk Hákonardóttir var skipuð hæstaréttardómari.

Í umsögn Hæstaréttar um umsækjendurna, þau Hjördísi Björk Hákonardóttur dómstjóra, Pál Hreinsson prófessor og héraðsdómarana Sigríði Ingvarsdóttur og Þorgeir Inga Njálsson, sagði að öll væru þau hæf en Páll þeirra hæfastur.

Hjördís var skipuð án mikilla mótmæla. Allra síst af gömlum fræðimönnum, eftir því sem ég fæ best séð. Þorsteinn Davíðsson var einnig talinn hæfur af umsagnarnefnd Péturs Hafsteins, en ekki hæfastur. Pétur Hafstein, fyrrum dómari við Hæstarétt, hefur síðan farið mikinn eftir skipun Þorsteins, en þagði þunnu hljóði þegar vinkona hans var skipuð hæstaréttardómari þrátt fyrir að annar væri talinn hæfastur. (Páll var síðan skipaður dómari við Hæstarétt á liðnu ári). 

Afhverju skyldi það nú vera að menn bregðast ólíkt við. Þó er embætti hæstaréttardómara án nokkurs vafa mikilvægara og áhrifameira en dómari við undirrétt. Ég get ekki komist að annarri niðurstöðu en aðrar ástæður en efnislegar liggi þar að baki. 

Einar Kárason rithöfundur verður ekki sakaður um að vera í hópi stuðningsmanna Davíðs Oddssonar. Þvert á móti hefur hann skipað sér á bekk með þeim sem hvað harðast hafa deilt á fyrrum forsætisráðherra. En Einari er misboðið í umræðunni um skipan Þorsteins Davíðssonar. Í stuttri grein í Morgunblaðið skrifaði rithöfundurinn: 

“Síðasta aldarfjórðung hefur Davíð Oddsson verið valdamesti maður landsins og ráðskast með flest svið þjóðlífsins. Það er eðlilegt að orð slíks manns og gerðir sæti gagnrýni og raunar inngróið í það lýðræðiskerfi sem við aðhyllumst að um menn í hans stöðu geisi stormar.

En það vekur æ meiri efasemdir að Þorsteinn Davíðsson megi hvergi sjást eða heyrast án þess að því sé hnýtt við, til þess að gera hann tortryggilegan, að hann sé sonur föður síns. Mér finnst það í rauninni jafn lítilmannlegt og hallærislegt og þegar Hannes Hólmsteinn var ítrekað að reyna að gera þýðingarstörf Hjörleifs Sveinbjörnssonar tortryggileg vegna þess að hann væri eiginmaður Ingibjargar Sólrúnar.

Það er sjálfsagt að skamma ráðherra fyrir orð þeirra og gerðir og auðvitað á að gagnrýna embættisveitingar með málefnalegum hætti. En getum við ekki gert með okkur þjóðarsátt um að sýna dálitla tillitssemi fjölskyldum þeirra sem í eldlínunni standa?”

Svo mörg eru þau orð.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Sæll Óli Björn,

Íslendingar hafa lengst af látið yfir sig ganga hverskyns óréttlæti með viðbrögðum, sem sjaldnast magnast yfir kaffistofutuldur eða eldhústuð. Ýmsir hafa gengið á lagið vegna þessa. Þar má nefna samsærisstjóra, sem maka krókinn með skipulögu verðsamráði, og stjórnmálamenn sem hygla sér og sínum með stöðuveitingum, úthlutun verkefna, sporslum eða hlutdeild í þjóðarauðlindum.

Við Íslendingar látum iðulega gott heita, kyngjum því sem í okkur er hent og borgum hvað sem upp er sett, á meðan fólk í öðrum löndum stöðvar umferð til að mótmæla lítilsháttar hækkun á eldsneyti.

Ég fagna því öllu aðhaldi sem ríkisvaldið fær frá kjósendum og fjölmiðlum þegar vafasöm vinnubrögð eiga í hlut.

Tilfellið er að Árni Mathiesen hefur ekki rekið traustar stoðir undir stöðuveitingu sína til héraðsdómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra. Að auki hefur hann í sannfæringarstríði sínu leyft sér að grafa undan dómnefnd þeirri, sem lögum samkvæmt á að meta hæfni umsækjenda og raða þeim upp eftir hæfni ef svo ber undir.

Það ku hafa borið upp á einn og sama daginn að umsækjendum var tilkynnt kl. 11:30 að morgni að Björn Bjarnason hafi vikið sæti vegna skipunar héraðsdómara þar sem hann hafi veitt einum umsækjenda meðmæli og að Árni Mathiesen væri settur dómsmálaráðherra í hans stað, síðan kl. 14:30 um eftirmiðdaginn þá var Árni Mathiesen búinn að fara yfir umsóknir fimm umsækjenda, meta þær, bera þær saman við niðurstöðu dómnefndar, greina ágallana í þeirri niðurstöðu, ákvarða hver væri hæfastur og tilkynna það umsækjendum. Við höfum ekki séð svona snaggaraleg vinnubrögð síðan erlend kærasta framsóknarráðherrasonar þurfti íslenskan ríkisborgararétt til að komast til náms í Bretlandi.

Valdi ráðherra til einhliða ákvarðanatöku fylgir mikil ábyrgð. Það er skylda kjósenda og fjölmiðla að sjá til þess að þeir umgangist valdið af virðingu við ábyrgðina.

kk,

Sigurður Ingi Jónsson, 16.1.2008 kl. 14:56

2 Smámynd: Calvín

Góður pistill Óli Björn. Ég vara hins vegar við að verja þessa umdeildu gjörð fjármálaráðherra með sömu rökum þ.e.a.s. að ekki megi gagnrýna hana vegna þessa að þá sé verið að ráðast á Davíð Oddsson, þann merka stjórnmálaskörung. Auðvitað kemur hann ekkert málinu við en ég veit að það er allt of stór hópur í þjóðfélaginu sem æsist bara upp þegar nafn Davíðs er nefnt. Og þar með eru öll rök fokin út í veður og vind. "Davíð er bakvið þetta og hitt. Davíð stjórnar þessu bakvið tjöldin. Árni er bara að taka við skipunum úr Seðlabankanum...o.s.frv.".

Og þeir sem verja Davíð eða verja skipun Þorsteins í embætti eru "non-grata" - blindaðir af ofstæki í vörnum fyrir Davíðsklíkuna.

Nei. Þetta er ekki svona svar og hvítt - Davíð og ekki Davíð.

Calvín, 16.1.2008 kl. 20:19

3 identicon

„Ég ætla ekki að gera að umtalsefni hversu fráleitt það er að matsnefnd skuli reyna að taka völd af ráðherra, með því að raða niður umsækjendum í sérstaka röð.“

Endilega útskýrðu fyrir okkur hvað er svona fráleitt við þessi vinnubrögð. Til fróðleiks þá segir í 5. gr. reglnanna sem nefndin vinnur eftir:

Dómnefndin skal skila skriflegri umsögn um umsækjendur þar sem fram kemur:

a.       rökstutt álit á hæfni hvers umsækjanda,

b.      rökstutt álit á því hvern eða hverja nefndin telur hæfastan og eftir atvikum samanburður og röðun á umsækjendum eftir hæfni.

Reglurnar er að finna hér http://www.domsmalaraduneyti.is/raduneyti/starfssvid/domstolar/upplysingar/nr/495

 

Taldwyn (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 21:21

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Alveg rétt hjá þér Óli að Þorsteinn er vænsti maður um það er ekki deilt.  Það er bókstaflega aumlegt að spila þá plötu að það þurfi að vorkenna honum.  Sem betur fer þarf hann ekki á slíku að halda. Önnur rök eru ekki til í málinu og því grípur þú ti l þeirra eins og aðrir sem þurfa að verja þetta af skyldurækni. En finnst þér virkilega eitthvað sniðugt að allir dómarar landsins séu fortakslaust valdir úr sömu klíkunni? 

Sigurður Þórðarson, 16.1.2008 kl. 21:49

5 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Takk fyrir góðan pistil Óli!

Hjörtur J. Guðmundsson, 16.1.2008 kl. 22:20

6 identicon

Það er furðulegt hvað þið íhaldsmenn reynið að réttlæta þennan gjörning. Málið er afar einfalt:

Í von um að efla sjálfstæði voru sett lög um að matsnefnd þartilkvaddra (hæfustu) manna leggði mat á umsækjendur. Hún skilaði sínum niðurstöðum. Þær voru að samkvæmt (lögskipuðu) mati  þeirra voru þrír í flokki A, og síðan var einn í flokki C. sá sem ráðherra skipaði.

 Ekkert flóknara!

 Og nú vælið þið um skerðingar á valdi ráðherra, eins og þessi gjörningur sýni nokkuð annað en óheft vald hans! Og talið um að "menn eigi ekki að gjalda þess hver son þeir eru!"

Svo!

 Máttu allir þeir, sem voru í flokki A, ekki gjalda þess að þeir voru ekki synir synir "réttra manna"? 

 Og þú, enn ein eltitíkin, leyfir þér að hnjóða í Sigurð Líndal, þann mæta mann...

 Ertu að bíða eftir sporslu?

Jóhann (IP-tala skráð) 17.1.2008 kl. 02:09

7 identicon

...sjálfstæði dómstóla, átti þetta að vera...

Jóhann (IP-tala skráð) 17.1.2008 kl. 02:14

8 identicon

Spurningin sem þyrfti að svara er þessi. Ef nefndin er einungis umsagnaraðili á meðan ráðherra hefur óheft skipunarvald, getur hann þá sett dómara í embætti sem nefndin hefur metið óhæfan?

Arnþór Jónsson (IP-tala skráð) 17.1.2008 kl. 08:50

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Sigurður Líndal skýtur sig sannarlega í fótinn þegar hann líkir því sem nú er að gerast við stjórnarhætti nasista í Þýskalandi upp úr 1930. Og það einkennilega er að það er eins og margir komi bara ekki auga á það dómgreindarleysi.   

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.1.2008 kl. 10:55

10 Smámynd: Grímur Kjartansson

Mér hefur nú alltaf fundist Sigurður vera sæmilega málefnalegur en þessi grein hans er bara skítkast. Maður veltir fyrir sér hvort sveitaloftið á kaffistofunni á Bifröst sé svona mengað?  Það er allavega staðreynd að metangaseitrun getur valdið heilaskemdum.

Grímur Kjartansson, 17.1.2008 kl. 11:45

11 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Það er ástæða til að minna á það að það var ekki Sigurður Líndal sem skipaði - - í Héraðsdóm NorðurogAusturAmtsins og missti dómgreindina.   Það er ekki Líndal sem gengur gegn meginsjónarmiðum stjórnskipunarinnar um þrígreiningu ríkisvaldsins - - það gerði Árni Matt.     Undirbúningur ráðherrans var efnislega afar klénn eins og fyrir liggur - - og það er bara útúrsnúningur að vorkenna Þorsteini - hann er leikari í þessu leikriti með því að sækja um og njóta þess að vera sonur valdamannsins sem Árni Matt hefur vanið sig á að taka við bendingum frá (jafnvel þó valdsmaðurinn væri ekki sýnilegur á vettvangi til að handstýra - eðli valdsins og hygling valdsvina gengur ekki þannig að öllu sé stýrt beint).    Allt umtal um að Hjördísi Hákonardóttur hafi verið hyglað - af vinum valdsins -  eru ótrúlega lélegar dylgjur.

Benedikt Sigurðarson, 17.1.2008 kl. 22:09

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

"Ég ætla ekki að gera að umtalsefni hversu fráleitt það er að matsnefnd skuli reyna að taka völd af ráðherra, með því að raða niður umsækjendum í sérstaka röð," segirðu hér í grein þinni, Óli Björn. Það mætti halda, að þú trúir þessu sjálfur, þ.e.a.s. að nefndinni leyfist ekki að flokka menn niður í gæðaflokka, jafnvel  "í sérstaka röð"! En þetta er einmitt það, sem nefndinni er bæði heimilt og skylt, þ.e. að gæðaflokka umsækjendur og jafnvel, eftir atvikum, númera menn eins og nefndin telur ástæðu til að mæla með þeim. Í þetta sinn gerði hún ekki þetta síðastnefnda (að númera menn í efsta flokki), og ráðherrann þurfti ekki að kvarta yfir skorti á góðum mönnum í efsta gæðaflokki, því að þeir voru þrír. Í staðinn tók hann umsækjanda tveimur flokkum neðar og lýsti þann mann hæfastan eftir smá-skoðun á málinu! Rökstuðningur hans fyrir því var sorglega klénn, eins og margir hafa talað um. 

En um staðfestingu þess, sem ég sagði hér á undan, um að dómnefndin var einungis að sinna embættisskyldu sinni með því að gæðaflokka menn eftir hæfni þeirra, þá get ég vitnað til orða Sigríðar Ingvarsdóttur dómara í grein hennar í Tímariti lögfræðinga, 4. tbl. 2004–2005 (bls. 487, leturbr. jvj), þar sem fjallað er um dómnefnd þessa:

  • "Um störf dómnefndarinnar gilda reglur nr. 693/1999 um störf nefndar samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998. 1. mgr. 5. gr. reglnanna segir að nefndin skuli skila skriflegri umsögn um umsækjendur þar sem fram komi rökstutt álit á hæfni hvers þeirra og rökstutt álit á því hvern eða hverja nefndin telur hæfasta og eftir atvikum samanburður og röðun á umsækjendum eftir hæfni."

Jón Valur Jensson, 19.1.2008 kl. 02:29

13 Smámynd: Atli Hermannsson.

"Svo virðist sem hún (umræðan) hafi ekkert með hæfni Þorsteins til að sinna starfi dómara að gera, heldur aðeins þá einföldu staðreynd að hann er sonur föður síns."

Umræðan hefur þvert á móti nær eingöngu snúist um "hæfni" Þorsteins... þ.e.a.s.  minni hæfni hans til að sinna starfinu saman borið við a.m.k. þrjá aðra umsækjendur. Og að sjálfsögðu þá einföldu staðreynd að hann hefði aldrei átt möguleika að fá starfið nema vegna þess að hann er sonur föður síns. 

Atli Hermannsson., 19.1.2008 kl. 23:23

14 identicon

Hvers eiga aðrir umsækjendur að gjalda að vera ekki synir Davíðs Oddsonar?

Erfitt að verja þetta, sama þó menn vitni í Einar Kárason.

Daði (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 12:15

15 Smámynd: Jón Valur Jensson

Atli, það á ekki að skipa vanhæfari mann í slíkt embætti. Það vantar viðhlítandi rök af ráðherrans hálfu fyrir þeirri ákvörðun hans að skipa Þ.D. í embættið – sbr. lokaorð ályktunar Dómarafélags Íslands, sem birt var í gær. Hættið nú að flekka ykkur á því, sem er óverjandi. Og tillaga Sigríðar Andersen í gær að "færa þetta algerlega inn í [dómsmála]ráðuneytið" er einfaldlega hneyksli.

Jón Valur Jensson, 24.1.2008 kl. 10:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband