Framsókn slátrar öllum krónprinsum

Ef þú ætlar í stjórnmál og ert framsóknarmaður, þá er hér heilræði: Láttu aldrei kalla þig krónprins flokksins og alls ekki gefa til kynna að þú gerir tilkall til slíks titils. Það er líklegra að þér verði slátrað en að þú komist til æðstu metorða innan Framsóknarflokksins.   fframsókn

Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, ætlar að láta af starfi borgarfulltrúa í dag. Þetta kemur fram á heimasíðu borgarfulltrúans.

Framsóknarmenn hafa bundið miklar vonir við Björn Inga og hefur hann á stundum verið kallaður krónprins flokksins, ekki síst eftir að Árni Magnússon ákvað að draga sig í hlé til að hefja vinnu hjá Glitni banka.

Brotthvarf Björns Inga er gríðarlegt áfall fyrir framsóknarmenn um allt land þó auðvitað kætist einhverjir andstæðingar hans innan og utan Framsóknarflokksins. Varla mátti flokkurinn við slíku, en á nokkrum mánuðum hafa framsóknarmenn þurft að sætta sig hvert áfallið á fætur öðru: Niðurlægjandi úrslit í þingkosningum, brotthvarf Jóns Sigurðsson úr formannsstóli, útskúfun úr ríkisstjórn og til að kóróna allt þá hefur flokkurinn hrökklast í minnihluta í borginni.

Merkilegt er að velta því fyrir sér hvernig framsóknarmenn fara með unga stjórnmálamenn sem þeir binda einhverjar vonir við. Að minnsta kosti þrír "krónprinsar" flokksins hafa ákveðið að freista gæfunnar á öðrum vettvangi en í pólitíkinni.

Finnur Ingólfsson fór í Seðlabankann og þaðan í VÍS og stundar nú fjárfestingar. Hann var búinn að fá nóg af innri baráttu og deilum í Framsóknarflokknum. Brotthvarf Finns var persónulegt áfall fyrir Halldór Ásgrímsson, þáverandi formann. Nú hefur Finnur hins vegar efnast vel og sér sjálfsagt ekki eftir því að hafa yfirgefið vígvöll stjórnmálanna.

Árni Magnússon, fyrrum ráðherra Framsóknarflokksins, gafst einnig upp en á hann var litið sem framtíðarleiðtoga flokksins. Álag á fjölskyldu og deilur innan flokksins réðu þessari ákvörðun.

Og nú hefur Björn Ingi tekið sömu ákvörðun og Finnur og Árni. Ekki veit ég hvað hann ætlar að taka sér fyrir hendur en ég óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Ástæða þess að Björn Ingi ætlar að víkja til hliðar, nú þegar ný meirihluti tekur við völdum, segir hann vera hatrammar deilur og árásir á sig persónulegar sem séu farnar að skaða fjölskyldu hans og Framsóknarflokkinn:

"Almenningur hefur orðið vitni að óvenjulega rætnum og persónulegum árásum gegn mér síðustu daga. Hreint og beint hatur í minn garð frá fyrrverandi þingmanni flokksins og gömlum samherja hefur vakið þjóðarathygli og halda skeytasendingar hans áfram...

Á slíkum tímamótum er rétt að staldra við. Vitaskuld eru fjármál stjórnmálaflokka ekki á könnu eða ábyrgð einstakra frambjóðenda, en þegar slíkur trúnaðarbrestur í félagsstarfi er kominn upp og er knúinn áfram af heift í minn garð, hlýtur að vera orðin áleitin spurning hvort persónuleg óvild tiltekinna einstaklinga gegn mér sé farin að bitna á fjölskyldu minni, almennt á Framsóknarflokknum og fólki innan hans í Reykjavík og um land allt."

En heilræðin standa.


mbl.is Björn Ingi hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Framsóknarflokkurinn er svo sannarlega að fremja pólitískt sjálfsmorð innan frá og það er hið besta mál fyrir íslensku þjóðina.

Stefán (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 09:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband