Sjálfstæðisflokkur í vanda

Skoðanakönnunin staðfestir þann vanda sem Sjálfstæðisflokkurinn á við að glíma vegna vandræðagangsins í Reykjavík. Því miður virðist mér sem að margir í forystusveit flokksins átti sig ekki á þeirri einföldu staðreynd að staðan í Reykjavík hefur haft áhrif á fylgi flokksins um allt land. Sumir eru tilbúnir til að berja hausnum frekar við stein en að horfast í augum við staðreyndir.

Ógöngur borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna undir forystu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar er ekki einkamál kjörinna fulltrúa í borgarstjórn. Allir sjálfstæðismenn um allt land þurfa að glíma við vandann í Reykjavík líkt og skoðanakönnunin leiðir í ljós, en hún var raunar tekin nokkru áður en síðustu atburðir áttu sér stað. Líklegt má telja að niðurstaða væri enn verri ef könnun yrði gerð í þessari viku.

Hvernig stjórnmálamaður mætir andbyr og bregst við erfiðleikum segir meira um viðkomandi en flest annað. Sumir standa sterkari á eftir en aðrir hrekjast undan vindi og rísa ekki undir því trausti sem kjósendur hafa sýnt þeim. Hvort, hvernig og með hvaða hætti stjórnmálamaður tekst á við mistök er mælistika á það hvernig stjórnmálamaður hann er. Þá kemur í ljós hvort viðkomandi býr yfir forystuhæfileikum.

Það blæs hressilega á móti Sjálfstæðisflokknum þessar vikurnar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur siglt lygnan sjó og raunar verið meðbyr í seglin frá því að Geir H. Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tóku við forystunni árið 2005. Nú reynir hins vegar fyrst verulega á hæfileika þeirra til forystu.

Formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins verða að taka á málum af festu og þá dugar ekki að benda aðeins á Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og REI-málið. Þá er nauðsynlegt að líta til upphafsins, en ekki síður fara yfir hvernig staðið hefur verið að verki hjá starfsmönnum flokksins síðustu daga og vikur.


mbl.is Samfylkingin stærst allra flokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hjálpum Villa að ákveða sig.

Hvetjum hann til að hætta.

http://www.petitiononline.com/villbles

Siggi (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 16:27

2 identicon

Ég verð nú að viðurkenna að það hlakkar í manni að heyra það að Sjálfstæðisflokkurinn sé að tapa fylgi á landsvísu, allt vegna klúðursins í borginni.  En það er alveg á hreinu að þeir ná ekki að vinna það til baka fram að næstu borgarstjórnarkosningum.  Ég skil nú ekkert í forystunni að taka ekki af skarið og stoppa þetta rugl.  Vilhjálmi er að takast það sem maður hélt alltaf að væri ómögulegt.  Ef hann myndi vakna af þessum Þyrnirósarsvefni sínum þá myndi hann kannski loks átta sig á því sem hefur verið að gerast, maður spyr sig hvort valdsýkin hafi yfirtekið alla skynsemi hjá kallinum :)

Sandra (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 22:08

3 identicon

Ég er nú ekkert vel inni í málum hvað varðar starfsmenn flokksins þannig að ég er ekki viss um hverja þú átt við. ??? 

Aftur á móti vil ég gagnrýna framgöngu fjölmiðla í þessu máli. Sömu spurningarnar dynja á borgarfulltrúum sjálfstæðisflokksins þó að fyrirfram sé vitað að svörin varpa engu ljósi á mál:

Styður þú Vilhjálm? Ertu sátt/ur við að hann taki við borgarstjórastólnum eftir ár? Hvað finnst þér að hann eigi að fá að hugsa sig um í langan tíma?

Mér finnst alltof margir blaðamenn bara alls ekki vera að vinna neina heimavinnu, þeir virðast ekki hafa tíma eða nennu til að horfa yfir allan völlinn, heldur einblína á einhverja vita gagnslausa vinkla.

En það er örugglega rétt hjá þér að sjálfstæðisflokkurinn þarf að fara í naflaskoðun.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 15.2.2008 kl. 00:31

4 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Ég tek undir þetta, allir geta stjórnað í meðbyr, mótlæti er hinsvegar prófraun sem skilur að góðan stjórnanda. Vilhjálmur er indæliskarl með gott hjartalag að því er virðist en hann hefur ekki staðið undir ágjöf síðasta misseris.

Marta B Helgadóttir, 18.2.2008 kl. 09:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband