Óbreyttir vextir í raun vaxtahækkun

Seðlabankinn hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 13,75% enn um sinn að minnsta kosti. Ákvörðun bankans þýðir að í raun hefur aðhald í peningamálum verið aukið og vextir hækkaðir hlutfallslega.

Seðlabankar helstu viðskiptalanda okkar hafa á undanförnum vikum lækkað stýrivexti og sumir verulega eins og sá bandaríski. Þetta þýðir einfaldlega að vaxtamunur milli Íslands og annarra landa hefur aukist og því er í raun um vaxtahækkun að ræða.

Ákvörðun bankans eru vonbrigði því flestum má vera ljóst að verulega er að hægjast á efnahagslífinu og þó enn sé undirliggjandi þrýstingur á verðlag voru rök fyrir því að lækka vexti strax. Ég hef raunar haldið því fram að hinir háu stýrivextir hér á landi séu hættir að virka og að í raun ýti þeir fremur undir verðbólgu en hitt.

Tvennt kann að skýra hvers vegna Seðlabankinn er tregur til að lækka vexti. Annars vegar óvissa vegna kjarasamninga og hins vegar vantrú bankans á fjármálastjórnun opinberra aðila. Flest bendir til að kjarasamningar náist á skynsamlegum nótum. Þá stendur eftir fjármálastjórnun ríkissjóðs og sveitarfélaga. Af þeim vettvangi er hins vegar fátt til að hughreysta mennina við Kalkofnsveg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er skömm að því, að eitt af markmiðum Seðlabankans með þessu er að halda gengi krónunnar allt of háu og halda sem lengst í aðstreymi erlendra skuldabréfagamblara.

Jón Valur Jensson, 15.2.2008 kl. 09:18

2 identicon

Vextir seðlabankans eru löngu hættir að virka, það eru jöklabréfin sem ráða ferðinni, ef Seðlabankinn lækkar vextina fellur krónan og verðbólga eykst.  Með þessari "vaxtahækkun" núna er vandanum enn slegið á frest.  Einkennilegt að í skýringum Seðlabankans komi aldrei fram þessi augljósa staðreynd. 

Hörður Bragason (IP-tala skráð) 15.2.2008 kl. 17:28

3 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Hörður segir hið augljósa. Seðlabankinn hækkaði vexti síðast  í nóvember og hefðu þeir lækkað vexti núna aðeins þremur mánuðum síðar þá hefðu þeir verið að stíga á bensíngjöfina jafnframt því að bremsa, möo að viðurkenna eigin vanmátt og hringlanda. Þannig að núna eru þeir raunverulega að tilkynna að þeir muni byrja að lækka vexti á næstu mánuðum og gjaldeyrismarkaðurinn mun að sjálfsögðu hegða sér samkvæmt því. Við teflum sem sagt hálfvitum fram í þessu pókerspili, sem sýna andstæðingunum spilin.

Baldur Fjölnisson, 15.2.2008 kl. 21:00

4 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Þið getið farið á bókasafnið og skoðað bleika viðskiptapóstinn sl. sumar þegar markaðurinn var á toppnum. Og þið getið skoðað annan ruslpóst (sem eitt sinn kallaðist fjölmiðlar) jafnframt. Það var ekkert nema sólskin framundan. Þetta eru skjalfestir hlutir. Það er ekki hægt að komast framhjá því.

Baldur Fjölnisson, 15.2.2008 kl. 21:50

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Dharma þessi, bankamaður sennilega, sem þorir ekki að skrifa undir nafni, ýfist út í mig fyrir að benda á staðreyndir sem fram komu í fréttum. Hann virðist telja það eina hlutverk Seðlabankans að halda niðri verðbólgu, en maður hefði haldið, að hann ætti að þjóna þjóðfélaginu og efnahagslífinu, þ.m.t. ferðamanna- og útflutningsatvinnuvegunum, í stað þess að stuðla að of háu gengi árum saman, kaupæði á innfluttar vörur og bullandi viðskiptahalla ár eftir ár. Að reyna svo að réttlæta íslenzka okurvexti er auðvitað í sama dúr hjá Dharma þessum. Vonandi fær hann prik fyrir viðleitnina í bankanum.

Jón Valur Jensson, 16.2.2008 kl. 01:57

6 identicon

Afstætt séð þýðir þetta að sjálfsögðu vaxtahækkun, sem er megin punkturinn hér.   Fjármálastjórn opinbera aðila er síðan eitt helsta vandamál íslensku þjóðarinnar, eitthvað sem allir átta sig á sem hafa gluggað í þjóðhagfræði 101.   Sem sagt í meginatriðum er ég sammála þér Óli Björn. 

Dharma fer hins vegar dálítið út af sporinu í aðdáun og trú sinni á Seðlabanka Íslands.   Ég get verið sammála honum um að Íslendingar almennt kunna ekki að fara með peninga og þyrfti e.t.v. að efla "forvarnir" og almenningsfræðslu hvað þetta varðar - eitthvað sem seðlabankar í mörgum löndum telja vera sitt hlutverk, t.d. þess bandaríska, en ekki hér á Íslandi.   

Það er mjög lélegt hjá Dharma að reyna að telja okkur trú um að blýantsnagararnir við Kalkofnsveg séu fremri kollegum sínum í Ameríku hvað sjálfstæði varðar.   Það vita það allir sem hafa fylgst með og á það sérstaklega við um tíð Alan Greenspan, að ef eitthvað að þá hefur The Federal Reserve yfirskyggt vald og áhrif stjórnvalda á efnahagssviðinu.   Að halda því fram að FRS hafi verið leiksoppur stjórnvalda er kjánalegt, en verið getur hins vegar að samstarfið hafi verið miklu betra heldur en tíðkast hér á landi.

Ef árangurinn af starfi og stefnu Seðlabanka Íslands er skoðaður blasir ekki neitt fallegt við.  Of langt mál væri að fara að kryfja ástæðurnar hér, en svo virðist sem bankinn sé ekki að hitta í mark og sé því áhrifalaus í aðgerðum sínum og eins og Óli bendir á að þær hafi jafnvel öfug áhrif m.v. það sem stefnt er að.  Þarna virðast vera þvermóðskufullir náungar, sem horfa á dauðar tölur í hagfræðimódelum, sem þeir ná ekki að tengja við hinn lifandi veruleika.   

Annars er þeim svo sem vorkunn, því meira að segja Alan Greenspan hélt því fram fyrir nokkrum árum síðan að áhrif FRS og seðlabanka almennt færu dvínandi, því kerfi langtíma alþjóðlegra verðbréfa væri orðið svo stórt, skipti hundruðum billjónum (e. trillions) USD.   Fyrst ameríski seðlabankinn er farinn að finna til vanmáttar, hvað má þá gera ráð fyrir varðandi hinn íslenska?

Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 16.2.2008 kl. 17:58

7 identicon

Það er hárrétt hjá Dharma, álverið fyrir austan á í raun nánast engan þátt í þenslunni, sem var fyrst og fremst staðbundin hér á suð-vestur horninu.  

Bankabólan sem nú er sprungin á þar langstærstan hlut, ásamt óráðsíunni í opinbera geiranum, þar sem stjórnmálamenn eru farnir að tala eins og þeir væru milljarða útrásarvíkingar og finnst varla taka því að hreyfa sig nema að það kosti milljarða – “iss 9 milljarðar í umframkostnað vegna Sundabrautar er pínöts” og “600 milljónir fyrir spýtnabrak á Laugaveginum algjört djók”; eru nýleg dæmi um veruleikafirringu þessa fólks.

Íslenskir neytendur eru svo kapítuli út af fyrir sig einsog Dharma gerir góð skil á  – hvað með forvarnir á þessu sviði eins og gegn áfengi, vímuefnum, umferðaröryggi o.s.frv?

Á næstunni eigum við eftir að sjá fjöldann allan af fyrrum ofurlaunuðum bankamönnum, sem veðsettir eru upp fyrir haus í fasteigna- og hlutabréfalánum, mæna göturnar í leit að vinnu; vinnu sem ekki verður auðfundin, því verkfræðistofur, hugbúnaðarfyrirtæki og önnur þekkingarfyrirtæki sem bankarnir hausaveiddu þetta fólk frá, hafa ekki lengur nein verkefni fyrir það – þökk sé hverjum?

Svo er það fasteignabólan, sem er við það að fara að springa (20-30% verðfall framundan), sem fyrst og fremst var sköpuð af bönkunum og þá verða öll 90-100% lánin sem ekki voru bara notuð í verðbólgnar fasteignir, heldur líka í alla lúxusbílana, komin í sama fræga “subprime” flokkinn og þau amerísku með tilheyrandi afleiðingum. Hvað segja dönsku blöðin þá?

Og til að bæta gráu ofan á svart blasir við gríðarleg rýrnun verðmætasköpunar í sjávarútveginum; kvótasamdráttur og engin loðna.    Gat ekki gerst á betri tíma eða hvað?

Á sama tíma þenst ríkisbáknið með óafturkræfan hætti enn frekar út; 15%-20% í viðbót við kosningafjárlögin fyrir síðasta ár og framundan hrina af stórum óarðbærum ríkisframkvæmdum, þar sem fjármunum almennings er kastað á glæ til hægri og vinstri.   Hlutfall ríkisumsvifa af landsframleiðslu nær nýjum óþekktum hæðum.

Helsti og nánast eini raunhæfi styrkleiki okkar til að snúa vörn í hraða sókn með alvöru verðmætasköpun, eru hinar umhverfisvænu orkuauðlindir okkar - þar er tækifærisglugginn ennþá opinn upp á gátt.  Vandamálin sem blasa við hvað nýtingu þeirra varðar felast fyrst og fremst í að annar stjórnarflokkurinn telur að það eigi að bíða með að nýta þær, í eins og 5 ár eða svo á meðan samræðustjórnmál fá að blómstra og milljarðarnir krauma undir fótum okkar og renna ónýttir til sjávar.    Þetta er krísa sem við verðum að treysta á að Geir Hilmar Haarde, hinn ofurrólegi diplómat, nái að leysa úr; hið fyrsta!

Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 18.2.2008 kl. 00:14

8 Smámynd: Landfari

Dharma, það þíðir nú ekkert að vera að svekkja sig á starfstilunum sem Jón Valur gefur mönnum hérna. Hann gerð mig að ljósmyndara hér um daginn. Var að vonast eftir að fá frá honum pappír upp á það en það ætlar að verða einhver bið á því.

Er annars mikið sammála um að það er furðulegt hvað landinn er tregur til að nýta sér það "sparnaðartækifæri" sem er í gangi núna á ofur vöxtum. Eiginlega bara stór furðulegt. Held að metingurinn sé bara alveg að gera útaf við okkur hér á skerinu.

Landfari, 18.2.2008 kl. 18:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband