Fimmtudagur, 12. apríl 2007
Konur þekkið ykkar takmörk!!
Fimmtudagur, 12. apríl 2007
Fjör í sjónvarpi
Þeir sem fylgjast með bandarísku sjónvarpsstöðinni FOX News ættu að þekkja Bill O'Reilly, þáttastjórnanda. Kallinn er harður í horn að taka og hlífir engum, jafnvel ekki samstarfsmönnum sínum á sjónvarpsstöðinni, eins og Geraldo, fréttamaður Fox fékk að kynnast.
Tilefnið var að ungur ólöglegur innflytjandi hafði keyrt bíl undir áhrifum (ekki í fyrsta skipti) og valdið dauða ungrar bandarískrar stúlku. Fjörið byrjar í seinni hluta myndbandsins.
Fimmtudagur, 12. apríl 2007
Björk á heiðursplötu Joni Mitchell
Sérstök heiðursplata með lögum Joni Mitchell mun koma út 24. apríl næstkomandi og er Björk meðal flytjenda. Hún flytur þar lagið Boho Dance, sem kom út árið 1975.
Björk með í góðum hópi flytjenda. Prince, Annie Lennox, Elvis Costello, James Taylor, Emmylou Harris og fleiri eru með lög á plötunni, (eða disknum, eins réttar væri að segja).
Margir gagnrýnendur hafa kallað Mitchell besta lagahöfund sinnar kynslóðar, en auk lagasmíða er húnþekkt ljóðskáld og myndlistarmaður.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 12. apríl 2007
Eignaupptaka
Svo segir í drögum að landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins um landbúnaðarmál.
Ég er því miður ekki menntaður í lögum og kannski er það þess vegna sem ég fæ þessa stefnu Sjálfstæðisflokksins ekki alveg til að ná samhljómi við tilraunir ríkisvaldsins til eignaupptöku á jörðum.
Bændur víða um land hafa þurft að verja eignarrétt sinn með kjafti og klóm enda hefur ríkisvaldið alltaf lagt fram ítrustu kröfur. Því miður hafa þeir ekki alltaf náð að verja sitt. Þegar lög um þjóðlendur voru sett er öruggt að enginn þingmaður ætlaði ríkisvaldinu að ganga fram að jafnmikilli hörku og raun hefur orðið. Sunnlenskir bændur hafa staðið í ströngu og nú hefur ríkisvaldið flutt sig norður yfir heiðar. Sveitungar mínir í Skagafirði eru nú að undirbúa varnarstríð.
Framganga ríkisvaldsins í þessu máli, allt frá upphafi, hefur verið með ólíkindum og sanngirni verið látin lönd og leið. Enn ótrúlegra er að hernaðurinn gegn eignarréttinum skuli vera undir herstjórn Sjálfstæðisflokksins, Geirs Haarde og nú Árna Mathíesen fjármálaráðherra.
Kannski að bændur sem eiga sæti á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem hefst í dag, ættu að sækja málið á fundinum. Það ætti að vera tiltölulega einfalt fyrir þá að fá aðra óbreytta sjálfstæðismenn til liðs við sig, - eignarrétturinn er enn í hávegum hafður meðal sjálfstæðismanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 12. apríl 2007
3,3 milljarðar vegna erlendra kvikmyndagerðarmanna
Meistari Clint Eastwood segir að þegar hann flaug yfir hina "svörtu sanda og hraun" Íslands hafi honum orðið það ljóst að landið bauð upp á hið hrjúfa og óvenjulega landslag sem hann var að leita að vegna töku á stórmyndinni Flags of Our Fathers.
Þetta kemur fram á vefsíðu Variety, sem löngum hefur þótt ein besta fréttaveita bandaríska skemmtiiðnaðarins.
Greinin er undir fyrirsögninni: Íslensk náttúra laðar að sér stóru nöfnin. Þar eru nefnd nokkur dæmi um kvikmyndir sem teknar hafa verið upp hér að hluta, en einnig fjallað um endurgreiðslu kostnaðar, sem erlendir kvikmyndagerðarmenn fá vegna starfa sinna hér á landi. Því er haldið fram að á síðustu fimm árum hafi erlendir kvikmyndagerðarmenn varið um 50 milljónum dollara (um 3,3 milljörðum króna) hér á landi en fengið endurgreitt, samkvæmt reglum, 9,8 milljónir dala (um 653 milljónir króna).
Grein Variety er mjög lögsamleg og gerir ekki annað en að styrkja enn frekar sókn Íslands inn á erlenda markaði sem úrvalstökustaður.
Miðvikudagur, 11. apríl 2007
Jón Ásgeir lætur finna fyrir sér
Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri og aðaleigandi Baugs, er farinn að láta finna fyrir sér og forstjórnar fyrirtækja sem Baugur hefur fjárfest í komast ekki hjá öðru en leggja við hlustir.
Breskir fjölmiðlar greina frá því í dag að Baugur sé farinn að herða tökin á Moss Bros - verslunarkeðjunni með fatnað fyrir karlmenn - eftir að ljóst var að hagnaður fyrirtækisins drógst verulega saman milli ára. Hið sama á við um Woolworths, en í viðtali við Financial Times í dag gagnrýnir Jón Ásgeir stjórnendur verslunarkeðjunnar.
Baugur stefnir að því að setja itvo stjórnarmenn í stjórn Moss Bros, en Baugur á 28,5% hlutfjár í keðjunni í gegnum Unity Investment. TimesOnline segir að eignarhlutur Baugs í Unity sé 37,5%, og að FL Group eigi jafnstóran hlut. Kevin Stanford, sem m.a. stofnaði Karen Millen (sem Baugur keypi) á 25% í Unity.
Hagnaður Moss Bros, á reikningsárinu sem endaði í janúar sl. lækkaði um 1,1 milljón punda á milli ára og nam alls 5,1 milljón. Þegar tekið hefur verið tillit til söluhagnaðar eigna nam hagnaðurinn hins vegar 3,4 milljónum.
Það virðist því augljóst að Jón Ásgeir er að þétta tökin á þeim fyrirtækjum sem hann hefur verið að fjárfesta í, enda ljóst að þar sem hann hefur tekið stjórnina hefur gengið vel, eins og arðgreiðslur frá Iceland-keðjunni sýna, en þar fær Baugur um 12 milljarða í arð sem er sexfalt kaupverðið, líkt og Markaðurinn upplýsir í dag.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 11. apríl 2007
Landbúnaðarstefnan er vandi Sjálfstæðisflokksins
Í drögunum er aðeins ein setning sem gefur til kynna að um sé að ræða stjórnmálaflokk, sem aðhyllist frjáls viðskipti og þó er hún fremur undarlega orðuð: "Sjálfstæðisflokkurinn vill stefna að því að almenn markaðslögmál gildi í landbúnaði eins og í öðrum atvinnugreinum."
Ef minni mitt er ekki svikult þá er hálfur annar áratugur síðan ég sat síðast landsfund Sjálfstæðisflokksins. Þá tók ég sæti í neytendanefnd flokksins til að styðja félaga mína sem höfðu lagt til að sjálfstæðismenn stefnu að frjálsum viðskipum með landbúnaðarvörur. Tillögur okkar náðu fram að ganga í nefndinni en voru síðan "drepnar" af fulltrúum miðstjórnar og þingflokks. Drög að ályktun um landbúnaðarmál, eins og neytendanefnd landsfundar hafði samþykkt, var því aldrei borin upp til atkvæða á fundinum.
Miðað við þau drög um landbúnaðarmál sem liggja fyrir landsfundarfulltrúum, sem koma saman nú um helgina, er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn treystir sér ekki til að skera upp kerfið, þrátt fyrir að öll rök bendi til að það þjóni jafnt neytendum sem sjálfstæðum bændum.
Drögin um landbúnaðarmál hljóða svo í fullri lengd:
"Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að stundaður sé fjölbreyttur landbúnaður á grundvelli einkaframtaks og frelsis til athafna. Sjálfstæðisflokkurinn vill draga fram sameiginlega hagsmuni landshluta, dreifbýlis og þéttbýlis, bænda og neytenda til hagsældar og sáttar í landinu. Blómlegar sveitir eru mikilvægur hlekkur í því að á Íslandi verði áfram samfélag velsældar og menningar.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á sérstöðu íslensks landbúnaðar, sem felst m.a. í því að framleiða matvæli í ómengaðri náttúru, þar sem gerðar eru ýtrustu kröfur um heilbrigða framleiðsluhætti, hollustu og gæðaeftirlit. Sjálfstæðisflokkurinn vill stuðla að áframhaldandi þróun landbúnaðarins, sem byggir á frjálsari viðskiptum, hugviti, kjarki og framsýni einstaklinga um allt land.
Margvíslegar breytingar hafa orðið í landbúnaði frá því að Sjálfstæðisflokkurinn tók við stjórnarforystu 1991. Frjálsræði hefur aukist og mikil hagræðing átt sér stað. Búum hefur fækkað og þau stækkað að sama skapi og framleiðsla hefur aukist í flestum greinum. Sama á við um vinnslustöðvar landbúnaðarins, þar sem gæði, framboð og fjölbreytileiki afurða hefur aukist og verð lækkað.
Landbúnaðurinn stendur ávallt frammi fyrir kröfu um aukna hagræðingu og lægra verð, sem hann verður að mæta. Sjálfstæðisflokkurinn tekur undir þá kröfu og vill skapa þau skilyrði, að landbúnaðurinn geti mætt minnkandi tollvernd og lægri framleiðslustyrkjum á næstu árum. Sjálfstæðisflokkurinn vill stefna að því að almenn markaðslögmál gildi í landbúnaði eins og í öðrum atvinnugreinum.
Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um rétt hvers einstaklingsins til ábyrgðar og athafna þannig að hann fái notið hæfileika sinna í eigin þágu og annarra. Treysta þarf enn frekar frelsi einstaklinganna til athafna á búum sínum og frjálsari viðskipta. Einfalda skal stjórnsýslu landbúnaðarmála, ekki síst kostnaðarsaman eftirlitsiðnað og létta álögum af greininni. Afleggja ber fóðurtolla strax.
Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um sjálfstæði bænda á jörðum sínum, þar sem þinglýstar eignaheimildir beri að virða ásamt öllum þeim lögvörðu réttindum, sem jörðunum fylgja.
Til að mæta aukinni erlendri samkeppni, er nauðsynlegt að aðilar sem stunda landbúnað leiti tækifæra á erlendum mörkuðum fyrir afurðir sínar á grundvelli gæða og hreinleika. Veita þarf búgreinunum lagaheimild til stjórnunar á útflutningi og að útvegaður sé útflutningskvóti á jafnréttisgrundvelli við innflutning og útflutning. Rík áhersla skal lögð á öruggar upprunamerkingar innlendra sem innfluttra búvara.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á öflugt mennta- og rannsóknastarf og vill stuðla að auknum tækniframförum landbúnaðarins. Sjálfstæðisflokkurinn leggur sem fyrr áherslu á, að landbúnaðurinn sé rekinn í sátt við náttúruna, og öll landnýting miðist við að hver kynslóð skili landinu í betra ástandi en hún tók við því."
Miðvikudagur, 11. apríl 2007
Hver er þessi Magnús Schram?
Viðbrögðin við netgrein Uwes E. Reinhardts, prófessors við Princeton-háskólann í Bandaríkjunum eru furðuleg eins og bent er á hér.
Ég hef að vísu ekki mikinn húmor fyrir þessum skrifum prófessorsins, en þar sem ég þekki aðeins til í bandarísku háskólalífi þá kippi ég mér ekki mikið upp við misheppnaðan húmor, hvað þá þegar vinstri sinnaðir háskólakennarar reyna að gagnrýna andstæðinga sína með undarlegum og furðulegum húmor. Reinhardt er hins vegar vinstri maður sem er tilbúinn til að gagnrýna´"sitt fólk" og þá harðar og óvægnara en hann gerir á stundum gagnvart andstæðingum. Slíka menn kann ég að meta. (Miðað við það litla sem ég hef lesið þá fær ég ekki betur séð en að Reinhardt væri í hópi þeirra sem sækja landsfund Sjálfstæðisflokksins, um komandi helgi, væri hann Íslendingur).
Þegar háskólamennari líkt og Reinhard, vill vera fyndinn, og ætlar sér heldur betur að slá í gegn með því að gagnrýna stríðið í Írak, með því að leggja til árás á Ísland, þá ættu góðir og siðprúðir Íslendingar að draga andann. Magnús Schram er ekki tilbúinn til þess og hreytir út úr sér: "You are a bloody motherfker," Magnus Schram wrote to Reinhardt last night. "It would please [me] if you would die in flames ... your ancestor was probably a poor Irishman who traveled across the sea in search for a better life."
Nú er bara spurningin: Hver er þessi Magnús Schram?
Miðvikudagur, 11. apríl 2007
Rangur staður og röng stund fyrir Völu Matt
Ég hef oftar, en góðu hófi gegnir, dottið í þann pytt að skrifa greinar sem voru í sjálfu sér ágætar en hvorki stund né staður var réttur. Sú ágæta sjónvarpskona, Vala Matt, ákvað að hoppa ofan í þennan pytt, sem ég þekki svo vel, með því að birta grein í Fréttablaðinu í dag.
Það skal viðurkennt að greinin fór framhjá mér í morgun - það var ekki fyrr en ágætur vinur minn benti mér á greinina og velti því fyrir sér hvernig í ósköpunum hægt væri að skrifa grein af þessu tagi, nú þegar málflutningur er búinn í Baugsmálinu og dómarar hafa tekið málið til úrskurðar.
Ég varð að viðurkenna að ég kunni ekki skýringar á slíku, nema þá að um gamla grein væri að ræða sem legið hefði lengi á ritstjórn Fréttablaðsins til birtingar. Grein af þessu tagi er ekki skrifuð eftir að mál hefur verið lagt í dóm og beðið er niðurstöðu. Að minnsta kosti mun ekki fleirum detta í hug að skrifa á þessum nótum, a.m.k. ekki fyrr en dómur hefur fallið.
Hitt er svo annað að ekki get ég tekið undir með þessari góðu sjónvarpskonu, þó ekki verði ég talinn hlutlaus enda einn af mínum bestu vinum að verjast saksókn.
Vala skrifar undir fyrirsögninni: Ofsóknir og einelti
Ég verð að viðurkenna að þessa dagana kemst ég ekki hjá því að verða niðurdregin. Það er orðið nokkuð ljóst að við búum við ótrúlega ófullkomið réttarkerfi og við sem höfum alltaf staðið í þeirri meiningu að Ísland væri svo framarlega á öllum sviðum,ekki síst hvað dómskerfið varðar.
Eins og flestir hef ég fylgst með fréttum af Baugsmálinu og nú er tilfinningin sem ég hef haft gagnvart því máli að sannast, hér er um algjört einelti að ræða gagnvart aðilum sem einhverrahluta vegna virðast ekki hafa fallið í kramið hjá ráðamönnum þjóðarinnar. Ég er greinilega ekki ein um þá skoðun því sumir hafa gengið svo langt að tala um nornaveiðar. Sú lýsing er ískyggilega rétt. Hvernig stendur á því að öll þessi viðamikla og langdregna rannsókn hefur ekki leitt neitt í ljós sem réttlætir svo harkalegar aðgerðir? Getur verið að hún hafi í raun verið tilhæfulaus?
Hvernig stendur svo á því að á sama tíma eru olíuforstjórarnir, eftir að hafa játað stórfelld samráð, lausir allra mála vegna galla í lögum? Og til að kóróna allt saman erum við, skattborgararnir, að borga brúsann, bæði í kolólöglegu samráði olíufélaganna og þeim óhemjukostnaði sem hleðst upp við lögsóknina gagnvart Baugsmönnum. Mér finnst þetta óhugnanlegt og er örugglega ekki ein um að vilja sjá skattfénu betur varið. Ég er líka hneyksluð á sjálfri mér og reyndar þjóðinni allri fyrir að láta ekki meira í okkur heyra þegar orðið var ljóst að hér var um hreinar ofsóknir að ræða.
Það er aðdáunarvert hvernig Baugsmenn og -konur hafa haldið virðingu sinni á þessari þrautagöngu gegnum íslenskt réttarkerfi og staðið af sér alls kyns árásir og skítkast af æðruleysi og þolinmæði. Þau verðskulda afsökunarbeiðni frá opinberum yfirvöldum. Okkur er misboðið fyrir þeirra hönd!
Höfundur er sjónvarpskona.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 11. apríl 2007
Er Geir Haarde með pólitískan björgunarhring Ingibjargar Sólrúnar?
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir virðist eiga um þrjá kosti að velja, ef úrslit kosninga verða með þeim hætti sem skoðanakannanir benda til. Í fyrsta lagi að segja af sér sem formaður Samfylkingarinnar, í öðru lagi að hrekjast úr embætti eins og algengt hefur verið hjá formönnum Alþýðuflokksins (þegar skipsstjórinn fiskar ekki), eða ná ríkisstjórnarsamstarfi óháð kostnaði.
Formaður Samfylkingarinnar horfir fram á að fylgi Samfylkingarinnar verði svipað og fylgi Alþýðuflokksins var árið 1978 þegar flokkurinn vann glæstan kosningasigur og fékk 22% atkvæða. Sá sigur verður fyrst og fremst eignaður Vilmundi Gylfasyni. Það væri ótrúlegt áfall að ná ekki yfir 22%, eftir allt sem á undan er gengið.
Pólitísk framtíð Ingibjargar Sólrúnar veltur á því hvort henni tekst að tryggja flokkunum aðild að ríkisstjórn og að hún sjálf setjist í valdamikið ráðherraembætti. Hér verður því haldið fram að til þess að þetta gangi eftir sé Ingibjörg Sólrún tilbúin til að greiða nokkuð hátt verð.
Fyrir Ingibjörgu Sólrúnu og félaga hennar í Samfylkingunni verður hins vegar erfitt að fara inn í ríkisstjórn með vinstri grænum og nær útilokað er að meirihluti væntanlegra þingmanna Samfylkingar samþykki Steingrím J. sem forsætisráðherra. Vinstri grænir hafa gert vonir Samfylkingarinnar um að verða hinn stóri flokkur jafnaðarstefnunnar að engu og það eiga margir erfitt með að fyrirgefa, hvað þá að sætta sig hugsanlega við að Steingrímur J. mæti til þing með fjölmennara lið. Það væri líkt og strá salti í sárið ef Steingrímur J. yrði forsætisráðherra í samsteypustjórn vinstri flokkanna.
Þess utan er harla ólíklegt að Samfylking og vinstri grænir geti myndað tveggja flokka stjórn. Þriðja hjólið þarf undir vagninn, - framsókn eða frjálslynda (eða Ómar). Þriggja flokka stjórnir hafa ekki reynst okkur Íslendingum gæfuríkar. Þetta veit Ingibjörg Sólrún og því horfir hún til Sjálfstæðisflokksins í þeirri von að Geir Haarde kasti til hennar pólitískum björgunarhring.
Ekki er ólíklegt að Geir Haarde telji rétt að stefna að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hann veit sem er að hann getur náð miklu fram gagnvart samfylkingum. En afskaplega verður slíkt samstarf umdeilt meðal sjálfstæðismanna, enda eru 81% þeirra með neikvæt viðhorf til Ingibjargar Sólrúnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)