Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Þriðjudagur, 10. apríl 2007
Eru lærifeður synir, bræður eða ...?
Tvo lærifeður átti ég í Menntaskólanum á Akureyri og hvorugur ber ábyrgð á mér, þó báðir hafi reynt til hins ítrasta að koma mér til manns. Svo nátengdir eru þeir mér að í mínum huga eru þeir á stundum einn og sami maðurinn.
Valdimar Gunnarsson sendi þessa athugasemd við færslu mína fyrr í dag. Er ég þá búinn að gera Sverri Pál að syni Valdimars, sem er líffræðilega útilokað, jafnvel þó Siglfirðingurinn Sverri Páll, sonur Erlends, eigi hlut að máli og líti út fyrir að vera yngri en hann er í raun.
Annars eiga allir sem hafa áhuga á góðu íslensku máli, þar sem menn sem kunna að halda um penna, að lesa bloggin hjá þessum mögnuðu skólamönnum (sem útskrifuðu mig tvisvar úr Menntaskólanum á Akureyri, þar sem fyrri tilraun var ekki marktæk enda undir stjórn þess mæta mannsTryggva Gíslasonar).
Fáir ef nokkrir hafa haft meiri áhrif á mig, skoðanir mínar og hugmyndir en þeir félagar Valdimar Gunnarsson og Sverrir Páll Erlendsson, nema þá Guðmundur Heiðar Frímannsson. Og þó erum við yfirleitt ósammála um allt.
Þriðjudagur, 10. apríl 2007
Ekki vilja allir vera með Ómari
Íslandshreyfing Ómars og Margrétar vinnur nú að því að finna frambjóðendur í öllum kjördæmum landsins og gengur misvel.
Jakob Frímann Magnússon er sagður hafa farið víða og talað við marga og boðið sæti á framboðslistum en fengið misjafnar undirtektir. Ekki síst áttu viðmælendur hans á föstudaginn langa erfitt með að ræða um framboð á vegum Íslandshreyfingarinnar - mun raunar einn þeirra hafa talið krossfestingu á dagskrá fremur en framboð.
Birgir Guðmundsson, lektor við Háskólann á Akureyri, er fyrir löngu orðinn landskunnur jafnt sem blaðamaður og fræðimaður. Fram til þessa hefur hann verið fremur talinn hallur undir framsókn en Íslandshreyfingin hefur haft augastað á honum sem leiðtoga í Norðausturkjördæmi. Mínar heimildir herma (eftir að hafa dvalist í rúma viku í kjördæminu) að gengið hafi verið mjög á eftir Birgi og honum boðið nær allt, bara ef hann tæki sæti á framboðslista Íslandshreyfingarinnar. Birgir, af kunnri hógværð, afþakkaði - hefur ekki áhuga á að taka þátt í starfi Íslandshreyfingarinnar.
Hugur hans er að sinna sínu við Háskólann og gera út trilluna sem hann á.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 10. apríl 2007
Gamall lærifaðir segir RÚV til syndanna
Einn af merkustu og bestu kennurum í framhaldsskólum er Sverrir Páll Valdimarsson, Erlendsson, íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri. Ég er einn þeirra fjölmörgu sem hef notið þess að hafa Sverri Pál sem læriföður, innan kennslustofunnar en þó ekki síður utan hennar. Ekki verður við Sverri Pál sakast þó ekki hafi tekist betur til er raun ber vitni.
Á bloggi sínu í dag vekur Sverrir Páll athygli á framburði í ríkisútvarpinu og ætti nýr framkvæmdastjóri hins oh-effaða fjölmiðils að lesa vel pistil míns gamla læriföðurs.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.4.2007 kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 10. apríl 2007
Mogginn "jarðar" Fréttablaðið
Merkilegt er að bera saman Morgunblaðið og Fréttablaðið í dag. Ef hægt er að draga einhverjar ályktanir af útgáfu dagsins, er aðeins hægt að komast að einni niðurstöðu:
Morgunblaðið er hægt en örugglega að hafa betur í samkeppninni. Það vekur sérstaka athygli að fasteignablað Morgunblaðsins er 48 blaðsíður en fasteignablað Fréttablaðsins er aðeins átta síður. Mogginn er því sex sinnum stærri á markaði fasteignaauglýsinga en Fréttablaðið.
Fasteinaauglýsingar hafa verið gríðarlega mikilvæg mikilvæg tekjulind fyrir Moggann og ekki síst þess vegna hefur Fréttablaðið sótt hart inn á þann markað. Þótt hart hafi verið sótt hefur Morgunblaðsmönnum tekist að verja vígið og ef marka má útgáfuna í dag, verður ekki séð en þeim hafi ekki aðeins tekist að hrinda sókn Fréttablaðsins heldur gott betur. Mogginn er að "jarða" Fréttablaðið í fasteignaauglýsingum.
Að líkindum er ein ástæða þess að þeim í Hádegismóum hefur tekist að verja vígið í fasteignaauglýsingum sú staðreynd að mbl.is er með besta fasteignavef landsins - raunar þann eina sem virkar ef reynt er að leita og finna eitthvað.
Auðvitað er ekki hægt að draga of víðtækar ályktanir af fyrsta tölublaði eftir páska - og þó. Þegar litið er aftur til síðustu missera, kemur í ljós að Mogginn hefur haft betur á þessum markaði - munurinn hefur bara aldrei verið jafn mikill og í dag.
Ef Mogginn hefur náð vopnum sínum á sviði fasteigna, er ekki langt að bíða að hann nái einnig að brýna kutana á öðrum sviðum, þannig að keppinauturinn verði sár við það eitt og koma of nálægt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 10. apríl 2007
Afmælisveisla Björgólfs Thors vekur athygli
Björgólfur Thor Björgólfsson hélt veglega afmælisveislu fyrir vini og vandamenn fyrir skömmu.
Eins og gengur þá fylgdist Séð og heyrt með. En fleiri fjölmiðlar en þeir íslensku höfðu augum opin. The Jamaica Observer greinir frá veisluhöldunum sem eru sögð hafa vakið athygli eyjaskeggja.
Þar er því haldið fram að skipuleggjandi afmælisins hafi haft um 3 milljónir dollara (um 200 milljónir króna) til að gera allt sem best úr garði. Fifty Cent mun hafa verið með skemmtiatriði og orustuþotur eru sagðar hafa flogið yfir. Björgólfur Thor er síðan hafa dvalist um borð í eigin snekkju - The Parsifal, serm er hér á myndinni til hliðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 10. apríl 2007
Steingrímur J. boðar stefnubreytingu
Steingrímur J. Sigfússon lýsti því yfir í gærkvöldi að Vinstri grænir hefðu fallið frá hugmyndum um að hækka fjármagnstekjuskatt í 18%. Hann telur það ekki lengur skynsamlegt að hækka skattinn svo mikið, enda hætta á að fjármagnseigendur hreinlega fari úr landi. Þess í stað vilja vinstri grænir "aðeins" 14% fjármagnstekjuskatt.
Augljóst er að hækkun fjármagnstekjuskatts er ekki lengur mikið hjartansmál Steingríms J. og ekki úrslitaatriði í viðræðum um myndun ríkisstjórnar að loknum kosningum. Þar með hefur enn einni hindrun fyrir samstarfi Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna verið rutt úr vegi.
Þriðjudagur, 10. apríl 2007
Uppdráttarsýki Ingibjargar Sólrúnar
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, átti erfitt með að skýra út eigin óvinsældir í fyrstu kappræðunum fyrir kosningarnar í Kastljósi í gær. Kenndi hún sjálfstæðismönnum um en samkvæmt könnun Gallup hafa 81% kjósenda Sjálfstæðisflokksins neikvætt viðhorf til hennar. Ingibjörg Sólrún telur að sjálfstæðismenn eigi erfitt með að fyrirgefa henni að hafa lagt þá þrisvar að velli í borgarstjórn.
Skýring Ingibjargar Sólrúnar er ekki trúverðug en lýsir þeirri uppdráttarsýki sem hrjáir hana og flokk hennar. Ekki getur hún notast við þessa skýringu þegar hún horfist í augu við að 62% framsóknarmanna eru henni neikvæð. Framsóknarflokkurinn var samherji Ingibjargar Sólrúnar í R-listanum. Nær 36% vinstri grænna eru neikvæð út í foringja Samfylkingarinnar og tæp 57% annarra flokka (frjálslyndir, Íslandshreyfingin og aðrir).
Mun fleiri konur (41,6%) eru neikvæðar en jákvæðar (34,1%) í garð Ingibjargar Sólrúnar. Konur eru mun jákvæðari í garð Geirs Haarde, Steingríms J. Sigfússonar og Ómars Ragnarssonar en Ingibjargar Sólrúnar. Skýringanna á því getur vart verið að leita í velgengni R-listans á sínum tíma.
Óvinsældir Ingibjargar Sólrúnar verða heldur ekki skýrðar út frá því að hún hafi gengið hart fram í gagnrýni sinni á ríkisstjórnina. Vinsældir Steingríms J. Sigfússonar afsanna slíkt. Steingrímur J. hefur verið mun harðari gagnrýnandi á ríkisstjórnina en Ingibjörg Sólrún og á stundum notað stóryrði.
Viku eftir viku sýna skoðanakannanir að Samfylkingin er undir 20%-fylgi. Þó erfitt sé að sjá að niðurstaða kosninga verði sú er ljóst að Ingibjörgu Sólrúnu verður vart sætt í stóli formanns lengi eftir kosningar. Það er ekki mikill árangur eftir stjórnarandstöðu að missa fylgi og það verulegt. Samfylkingin verður hugsanlega ekki mikið stærri en Alþýðuflokkurinn eftir mikinn kosningasigur árið 1978 - sigur sem rakinn verður fyrst og fremst til Vilmundar Gylfasonar.
Í síðustu kosningum fékk Samfylkingin 31% atkvæða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 10. apríl 2007
Sjálfhverfni fjölmiðla
Ný hugmyndafræði virðist vera að fæðast í íslenskri blaðamennsku. Dagblöð eru farin að ræða við sig sjálf. Sjálfhverfni fjölmiðla er því að komast á nýtt stig, en viðtöl við samverkamenn hafa fram til þessa ekki verið mikið þekkt nema á öldum ljósvakans.
Á forsíðu Morgunblaðsins er viðtal við blaðamann blaðsins um ágæti tónleika Bjarkar í gærkvöldi: "Ég er verulega sáttur við frammistöðu Bjarkar," sagði Arnar Eggert Thoroddsen, sem er blaðamaður Morgunblaðsins og kynntur til leiksins sem slíkur.
Síðar er haft eftir honum að Björkin sé enn að vaxa og er þau orð notuð í fyrirsögn.
Er sá tími að renna upp í íslenskri fjölmiðlun að hætt verður að leita út fyrir veggi ritstjóra, þegar aflað er upplýsinga eða dregin fram álit á mönnum og málefnum? Í aðdraganda kosninga verður forvitnilegt að fylgjast með þessum nýju vinnubrögðum.
Laugardagur, 31. mars 2007
Kvennavandræði Sjálfstæðisflokksins
Sjálfstæðisflokkurinn getur kannski verið sæmilega sáttur við niðurstöðu nýjustu könnunar Gallups, sem Morgunblaðið segir frá í dag, með 36,7% fylgi, nokkru meira en í síðustu könnun. Og þó.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins meðal karla virðist vera traust en 42,6% þeirra segjast kjósa flokkinn ef gengið yrði til kosninga nú. Flokkurinn á hins vegar erfitt uppdráttar meðal kvenna. Innan við þrjár af hverjum tíu konum ætla að leggja sjálfstæðismönnum lið (29,5%). Ef konur hefðu einar atkvæðisrétt væru vinstri grænir stærsti flokkurinn en rúm 32% þeirra segjast kjósa flokkinn. Um 24% kvenna styðja Samfylkinguna.
Af niðurstöðum könnunar Gallups er augljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er í kvennavandræðum. Kosningabarátta flokksins hlýtur að taka mið af þessum staðreyndum.
Föstudagur, 30. mars 2007
Davíð hælir bönkunum
Á ársfundi Seðlabanka Íslands í dag var tóninn töluvert annar. Davíð sagði að bankarnir hefðu staðist erfitt próf á liðnu ári þegar sérstætt umtal og á stundum illa grundaðar vangaveltu um bankana, hefði gert þeim erfitt fyrir og valdið áhyggjum. Seðlabankastjóri sagði að hvorki fum eða fát hefði einkennt vinnubrögð bankanna þegar á móti blés heldur festa og öryggi sem skilaði árangri.
Í ræðu sinni sagði Davíð meðal annars:
"Á þessum stað fyrir rúmu ári höfðum við öll þungar áhyggjur af sérstæðu umtali og stundum illa grunduðum vangaveltum um íslensku bankana, stöðu þeirra og styrk. Ekki er vafi á því að sú umræða og það sem henni fylgdi gerði bönkunum erfitt fyrir um hríð. Bankarnir brugðust hart við þeirri óþægilegu stöðu sem upp var komin. Mikið átak var gert til að útskýra uppbyggingu og skipulag íslensku bankanna. Þar var ekkert fum og fát, heldur miklu fremur festa og öryggi sem skilaði árangri. Bankarnir löguðu nokkra þætti í rekstri og rekstrarumhverfi sínu að málefnalegri gagnrýni sem birst hafði og eins kváðu þeir niður þætti sem ómálefnalegri voru með skýringum, greinargerðum og hreinskilnum upplýsingum, jafnt á stórum fundum sem smáum, og maður á mann, eftir því sem gafst best. Á sama tíma þurftu bankarnir um stund að leita á önnur lánamið en hefðbundin voru og er ekki vafi á að þessar aðstæður reyndu mjög á innviði og stjórnun þeirra. Ekki verður annað sagt en að þeir sem í hlut áttu hafi staðist hið erfiða próf. Fjármögnunar¬vandinn eins og hann blasti við okkur um þetta leyti fyrir ári er úr sögunni og kjör á eftirmarkaði komin í eðlilegra horf á ný og traust á markaði hefur verið endurvakið. Er þetta mikið þakkar- og fagnaðarefni. Hitt stendur þó auðvitað eftir að mönnum eru nú ljósari en áður þær hættur sem víða geta leynst í framtíðinni. Alþjóðleg skilyrði á markaði geta breyst snögglega. Lánsfjáraðgengi, sem á undanförnum misserum hefur verið með eindæmum hagfellt fyrir íslenska banka sem og aðra, kann að breytast skyndilega við óvæntar aðstæður. Mikilvægt er að vera við því búinn að slíkt geti gerst."