Miðvikudagur, 28. mars 2007
Dagblöðin í vörn - en mbl.is sækir á
Merkilegt er að sjá hvernig dagblöðin þrjú; Morgunblaðið, Fréttablaðið og Blaðið, fjalla um niðurstöðu nýjustu fjölmiðlakönnunar á lestri dagblaðanna. Greinilegt er að könnunin er áfall fyrir öll blöðin, en mest fyrir Blaðið, þá fyrir Fréttablaðið og síst fyrir Moggann.
Ég fæ ekki betur séð en að Blaðið segi ekkert frá niðurstöðunum en Fréttablaðið birtir lítinn eindálk á bls. 4. Það er af það sem áður var þegar fréttir um lestur dagblaða fengu a.m.k. 3ja dálka frétt með grafík. Ástæðan gæti legið í því að lesturinn er að dragast saman aðra könnunina í röð. Þá virðist sem visir.is - fréttavefur 365 - nái engu flugi.
Morgunblaðið er með frétt á bls. 11 með fyrirsögn sem nær yfir fjóra dálka. Þar er megináherslan lögð á mbl.is og hefði ég sem ritstjóri einnig lagt upp með þeim hætti.
Vandinn er hins vegar sá að lestur Moggans hefur minnkað um 11,7%-stig frá því í maí á liðnu ári. Minnkandi lestur mun hafa áhrif á auglýsingatekjur blaðsins, sé allt eðlilegt. En á móti kemur hins vegar að útkoma mbl.is er glæsileg og vert að óska Moggamönnum til hamingju. Enginn netmiðill kemst með hælana þar sem mbl.is er. Og framtíðin er í vefmiðlun. Spurningin er aðeins hvort og þá hvernig stjórendnum í Hádegismóum tekst að samþætta vefmiðlun og pappírinn.
Samkeppnisforskot mbl.is á vísi.is er svo sláandi að erfitt er að sjá hvernig 365 ætla sér að standast samkeppnina. Fréttavefur Moggans er raunar þannig að hann er fyllilega samkeppnisfær við það besta sem verið er að gera í öðrum löndum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þessar nýju lestrartölur fjölmiðlanna eru áhugaverðar. Ég staldra við eitt atriði. Á sama tíma og Morgunblaðið er í mótbyr blómstrar mbl.is. Sérstaka athygli vekur að vefurinn er með mjög fínar heimsóknartölur frá yngra fólki, einmitt þeim aldurshópum sem taka ókeypis Fréttablaðið fram yfir að kaupa Morgunblaðið.
Eins og þú nefnir er mbl.is með mikið forskot á Vísi. Þegar maður skoðar þær tölur tekur maður eftir því að unga fólkið, sem les Fréttablaðið, er ekki að skila sér á vef blaðsins heldur fer það á mbl.is.
Nú er spurningin hvernig menn á þessum fjölmiðlum vinna úr þessum upplýsingum sínum miðlum til framdráttar.
Guðmundur Magnússon
Guðmundur Magnússon (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 16:26
Sæll Óli Björn!
Hátt hreykir heimskur sér. Má ekki frekar lesa úr þessu ákveðinn þroska Fréttablaðsins sem kom lang best út úr þessari könnun blaðanna þriggja að vera ekki að blasta frétt um það hinum til háðungar? En yfirburðirnir hafa aldrei verið meiri. Fréttablaðið lækkaði um prósent frá síðustu könnun, Mogginn um 2,5 og Blaðið 5 prósent í þessari könnun. Furðulegt er að draga þá ályktun að Mogginn hafi komið einna best út úr könnuninni og byggja þá skoðun á fréttaflutningi blaðanna af könnuninni en skoða ekki könnunina sjálfa. Er það ekki eitthvað sérkennilegt? Ekki síst í ljósi þess, sem þú reyndar bendir á, að fréttir miðlanna af könnunum sem snúa að þeim sjálfum hafa oft verið átakanlega kjánalegar.
Kveðja,
Jakob
Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 20:14
Það er reyndar ekki alveg rétt að MBL sé langt á undan Vísi, Samræmd Vefmæling Módernus er mun nákvæmari og stöðugri mæling á heimsóknatölum/lestrartölum vefmiðlanna og þar er ekki svo svakalegur munur á þessum tveimur risum íslenskra vefja.
Vantar tilfinnanlega almennilegan viðskiptavef, vb.is er afar óaðgengilegur.
daníel (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 00:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.