Föstudagur, 30. mars 2007
Hver er þessi vinur Jóns Ásgeirs - Tom Hunter?
Tom Hunter gæti blandast inn í valdabaráttu í Glitni banka, sem Morgunblaðið fullyrðir í dag að sé í gangi. Hunter hefur á undanförnum mánuðum fjárfest nokkuð í bankanum og kæmi ekki á óvart að það væri að undirlægi Jóns Ásgeirs.
Hunter útskrifaðist frá viðskiptadeild Háskólans við Strathclyde og hóf viðskiptaferilinn á því að selja íþróttaskó úr sendiferðabíl. Árið 1984 stofnaði hann Sports Division - íþróttavörubúð sem honum tókst að byggja upp sem keðju verslana. JJB Sports keypti verslanirnar af honum árið 1998 og mun Hunter hafa grætt yfir 250 milljónir Sterlingspunda á þeim viðskiptum.
Árið 2001 stofnaði Hunter, ásamt fleirum West Coast Capital, - fjárfestingafyrirtæki - og í gegnum það hefur hann fjárfest í ýmsum smásöluverslunum s.s. USC, Office, D2 og Qube. Hann er einnig hluthafi í BHS, en þar er aðaleigandinn Philip Green, sem Jón Ásgeir ætlaði í samstarf við með kaupum á Arcadia, eins og frægt er orðið. Green og Hunter eru sagðir ágætir vinir.
Ekki er langt síðan Hunter og Baugur tóku höndum saman við yfirtöku á blómaverslunum undir heitinu Blooms of Bressingham. Þá áttu Baugur og Tom Hunter í samstarfi við kaupin á House of Fraser.
The Sunday Times greindi frá því í mars síðastliðnum að Tom Hunter og Baugur hafi samþykkt að fjárfesta í fasteignafjárfestingarsjóði ásamt Halifax Bank of Scotland (HBOS) og fasteignafélaginu Catalyst Capital. Sjóðurinn mun fjárfesta í fasteignum á Indlandi.
Árið 2005 fékk Hunter aðalstign fyrir framlag sitt til mannúðarmála og atvinnumála. Sama ár var hann talinn annar auðugasti maður Skotlands og mat The Sunday Times ríkidæmi hans á 678 milljónir punda - yfir 87 milljarða króna. Árið eftir taldi blaðið hann auðugasta manninn með 780 milljónir punda í eignir eða yfir 100 milljarða króna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.