Hver er þessi vinur Jóns Ásgeirs - Tom Hunter?

Einn nánasti viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Baugs er skoski auðjöfurinn Tom Hunter, en hann heitir fullu nafni Sir Thomas Blane Hunter. Honum er lýst sem auðmanni, athafnamanni og mannvini, en hann leggur árlega mikla fjármuni í ýmis mannúðarmál og styrkir unga frumkvöðla.

Tom Hunter gæti blandast inn í valdabaráttu í Glitni banka, sem Morgunblaðið fullyrðir í dag að sé í gangi. Hunter hefur á undanförnum mánuðum fjárfest nokkuð í bankanum og kæmi ekki á óvart að það væri að undirlægi Jóns Ásgeirs. Hunter

Hunter útskrifaðist frá viðskiptadeild Háskólans við Strathclyde og hóf viðskiptaferilinn á því að selja íþróttaskó úr sendiferðabíl. Árið 1984 stofnaði hann Sports Division - íþróttavörubúð sem honum tókst að byggja upp sem keðju verslana. JJB Sports keypti verslanirnar af honum árið 1998 og mun Hunter hafa grætt yfir 250 milljónir Sterlingspunda á þeim viðskiptum.

Árið 2001 stofnaði Hunter, ásamt fleirum West Coast Capital, - fjárfestingafyrirtæki - og í gegnum það hefur hann fjárfest í ýmsum smásöluverslunum s.s. USC, Office, D2 og Qube. Hann er einnig hluthafi í BHS, en þar er aðaleigandinn Philip Green, sem Jón Ásgeir ætlaði í samstarf við með kaupum á Arcadia, eins og frægt er orðið. Green og Hunter eru sagðir ágætir vinir.

Ekki er langt síðan Hunter og Baugur tóku höndum saman við yfirtöku á blómaverslunum undir heitinu Blooms of Bressingham. Þá áttu Baugur og Tom Hunter í samstarfi við kaupin á House of Fraser.

The Sunday Times greindi frá því í mars síðastliðnum að Tom Hunter og Baugur hafi samþykkt að fjárfesta í fasteignafjárfestingarsjóði ásamt Halifax Bank of Scotland (HBOS) og fasteignafélaginu Catalyst Capital. Sjóðurinn mun fjárfesta í fasteignum á Indlandi.

Árið 2005 fékk Hunter aðalstign fyrir framlag sitt til mannúðarmála og atvinnumála. Sama ár var hann talinn annar auðugasti maður Skotlands og mat The Sunday Times ríkidæmi hans á 678 milljónir punda - yfir 87 milljarða króna. Árið eftir taldi blaðið hann auðugasta manninn með 780 milljónir punda í eignir eða yfir 100 milljarða króna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband