Davíð hælir bönkunum

Það er af það sem áður var, þegar Davíð Oddsson, í hlutverki forsætisráðherra var einn af gagnrýnendum bankanna. Raunar gekk hann svo langt að taka út 400 þúsund króna inneign á sparisjóðsbók í Kaupþingi.

Á ársfundi Seðlabanka Íslands í dag var tóninn töluvert annar. Davíð sagði að bankarnir hefðu staðist erfitt próf á liðnu ári þegar sérstætt umtal og á stundum illa grundaðar vangaveltu um bankana, hefði gert þeim erfitt fyrir og valdið áhyggjum. Seðlabankastjóri sagði að hvorki fum eða fát hefði einkennt vinnubrögð bankanna þegar á móti blés heldur festa og öryggi sem skilaði árangri.

Í ræðu sinni sagði Davíð meðal annars:

"Á þessum stað fyrir rúmu ári höfðum við öll þungar áhyggjur af sérstæðu umtali og stundum illa grunduðum vangaveltum um íslensku bankana, stöðu þeirra og styrk. Ekki er vafi á því að sú umræða og það sem henni fylgdi gerði bönkunum erfitt fyrir um hríð. Bankarnir brugðust hart við þeirri óþægilegu stöðu sem upp var komin. Mikið átak var gert til að útskýra uppbyggingu og skipulag íslensku bankanna. Þar var ekkert fum og fát, heldur miklu fremur festa og öryggi sem skilaði árangri. Bankarnir löguðu nokkra þætti í rekstri og rekstrarumhverfi sínu að málefnalegri gagnrýni sem birst hafði og eins kváðu þeir niður þætti sem ómálefnalegri voru með skýringum, greinargerðum og hreinskilnum upplýsingum, jafnt á stórum fundum sem smáum, og maður á mann, eftir því sem gafst best. Á sama tíma þurftu bankarnir um stund að leita á önnur lánamið en hefðbundin voru og er ekki vafi á að þessar aðstæður reyndu mjög á innviði og stjórnun þeirra. Ekki verður annað sagt en að þeir sem í hlut áttu hafi staðist hið erfiða próf. Fjármögnunar¬vandinn eins og hann blasti við okkur um þetta leyti fyrir ári er úr sögunni og kjör á eftirmarkaði komin í eðlilegra horf á ný og traust á markaði hefur verið endurvakið. Er þetta mikið þakkar- og fagnaðarefni. Hitt stendur þó auðvitað eftir að mönnum eru nú ljósari en áður þær hættur sem víða geta leynst í framtíðinni. Alþjóðleg skilyrði á markaði geta breyst snögglega. Lánsfjáraðgengi, sem á undanförnum misserum hefur verið með eindæmum hagfellt fyrir íslenska banka sem og aðra, kann að breytast skyndilega við óvæntar aðstæður. Mikilvægt er að vera við því búinn að slíkt geti gerst."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Sæll Óli Björn og þakka þér áhugavert blogg. Ef þú heldur áfram með þessari elju verður óþarfi að lesa Viðskiptablaðið.

Páll Vilhjálmsson, 30.3.2007 kl. 20:05

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Sæll Óli Björn og þakka þér áhugavert blogg. Ef þú heldur áfram með þessari elju verður óþarfi að lesa Viðskiptablaðið.

Páll Vilhjálmsson, 30.3.2007 kl. 20:06

3 identicon

Ég er ekki frá því að þetta sé rétt hjá Páli. Þeir góðu menn, sem gefa út Viðskiptablaðið, þurfa að minnsta kosti að fara að huga að vefnum sínum sem orðinn er grár og gugginn.

Annars er merkilegt Óli hve okkar gamli og góði kunningi, formaður bankastjórnar Seðlabankans, er oft nefndur í fjölmiðlum þessa dagana. Mest af því er störfum hans í bankanum óviðkomandi. Það er eins og ýmsir geti ekki sætt sig við að hann sé horfinn af vettvangi stjórnmálanna. Þetta er til dæmis áberandi í DV í dag. Kaffihúsaspekingar segja reyndar að blaðinu sé fyrst og fremst haldið úti til að halda persónu hans á lofti. Ekki trúi ég því nú...

Og talandi um DV með Pál Vilhjálmsson fjölmiðlavita hér fyrir ofan. Er vörumerkið hugsanlega of skaddað til að viðreisn blaðsins muni lánast? Sjálfum finnst mér þeir gera margt prýðilega þessa dagana. En ég hefði viljað sjá gamla heitið Vísir á þessu blaði - og bláan blaðhaus. Og það hefði gefið blaðinu vigt ef Hreinn Loftsson hefði sjálfur tekið að sér ritstjórnina. Fyrrnefndir kaffihúsamenn kalla hann að vísu yfirritstjóra eða hulduritstjóra, hvað sem þeir meina nákvæmlega með því, en af hverju ekki bara setjast í ritstjórastólinn og láta sme annast fréttirnar?

Guðmundur Magnússon (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 20:48

4 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Sniðug tilgáta, að DV sé haldið úti til að minna þjóðina á, og þó sérstaklega héraðsdómara, að Davíð enn almáttugur.

Það hefur læðst að mér sá grunur að Jón Ásgeir, vitandi að hann var með allt niðurum sig, hafi beinlínis ákveðið að gera Davíð að óvini sinum til að geta skellt skuldinni á hann. Fordæmið sem hann hafði fyrir sér voru viðbrögð Samfylkingarinnar við kosningaósigrinum 1999, þau kenndu Davíð um að tala Vinstri græna upp og Samfylkinguna niður.

Annars, með DV, þá sýnist mér lauslegt reiknisdæmi gefa það út að DV nær 30% lesningu eftir tíu ár, ef þeir bæta sig með sama hraða og undanfarið. En gamla DV, sem mun vera fyrirmyndin, hafði um 30%. En eftir tíu ár eru Baugsmál væntanlega fyrir bí og spurning hvort Jón Ásgeir nenni þessu áram.

Hvernig er það annars, er ekki rökrétt að Fréttablaðið fari í útgáfufyrirtækið sem heldur utanum DV? Varla er mikið vit í að hafa sjónvarpsstöð/útvarp undir sama hatti og blaðaútgáfu.

Páll Vilhjálmsson, 30.3.2007 kl. 21:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband