Uppdráttarsýki Ingibjargar Sólrúnar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, átti erfitt með að skýra út eigin óvinsældir í fyrstu kappræðunum fyrir kosningarnar í Kastljósi í gær. Kenndi hún sjálfstæðismönnum um en samkvæmt könnun Gallup hafa 81% kjósenda Sjálfstæðisflokksins neikvætt viðhorf til hennar. Ingibjörg Sólrún telur að sjálfstæðismenn eigi erfitt með að fyrirgefa henni að hafa lagt þá þrisvar að velli í borgarstjórn.

Skýring Ingibjargar Sólrúnar er ekki trúverðug en lýsir þeirri uppdráttarsýki sem hrjáir hana og flokk hennar. Ekki getur hún notast við þessa skýringu þegar hún horfist í augu við að 62% framsóknarmanna eru henni neikvæð. Framsóknarflokkurinn var samherji Ingibjargar Sólrúnar í R-listanum. Nær 36% vinstri grænna eru neikvæð út í foringja Samfylkingarinnar og tæp 57% annarra flokka (frjálslyndir, Íslandshreyfingin og aðrir).

Mun fleiri konur (41,6%) eru neikvæðar en jákvæðar (34,1%) í garð Ingibjargar Sólrúnar. Konur eru mun jákvæðari í garð Geirs Haarde, Steingríms J. Sigfússonar og Ómars Ragnarssonar en Ingibjargar Sólrúnar. Skýringanna á því getur vart verið að leita í velgengni R-listans á sínum tíma.

Óvinsældir Ingibjargar Sólrúnar verða heldur ekki skýrðar út frá því að hún hafi gengið hart fram í gagnrýni sinni á ríkisstjórnina. Vinsældir Steingríms J. Sigfússonar afsanna slíkt. Steingrímur J. hefur verið mun harðari gagnrýnandi á ríkisstjórnina en Ingibjörg Sólrún og á stundum notað stóryrði.

Viku eftir viku sýna skoðanakannanir að Samfylkingin er undir 20%-fylgi. Þó erfitt sé að sjá að niðurstaða kosninga verði sú er ljóst að Ingibjörgu Sólrúnu verður vart sætt í stóli formanns lengi eftir kosningar. Það er ekki mikill árangur eftir stjórnarandstöðu að missa fylgi og það verulegt. Samfylkingin verður hugsanlega ekki mikið stærri en Alþýðuflokkurinn eftir mikinn kosningasigur árið 1978 - sigur sem rakinn verður fyrst og fremst til Vilmundar Gylfasonar.

Í síðustu kosningum fékk Samfylkingin 31% atkvæða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Skýring hennar á óvinsældunum var einmitt frábær.  Hún vann þrisvar sinnum sjálfstæðismenn í borgarstjórnarkosningum og það er rótin að óvinsældunum.  Er sárt að þurfa að viðurkenna það ?

Þórdís Bára Hannesdóttir, 10.4.2007 kl. 10:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband