Miðvikudagur, 11. apríl 2007
Er Geir Haarde með pólitískan björgunarhring Ingibjargar Sólrúnar?
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir virðist eiga um þrjá kosti að velja, ef úrslit kosninga verða með þeim hætti sem skoðanakannanir benda til. Í fyrsta lagi að segja af sér sem formaður Samfylkingarinnar, í öðru lagi að hrekjast úr embætti eins og algengt hefur verið hjá formönnum Alþýðuflokksins (þegar skipsstjórinn fiskar ekki), eða ná ríkisstjórnarsamstarfi óháð kostnaði.
Formaður Samfylkingarinnar horfir fram á að fylgi Samfylkingarinnar verði svipað og fylgi Alþýðuflokksins var árið 1978 þegar flokkurinn vann glæstan kosningasigur og fékk 22% atkvæða. Sá sigur verður fyrst og fremst eignaður Vilmundi Gylfasyni. Það væri ótrúlegt áfall að ná ekki yfir 22%, eftir allt sem á undan er gengið.
Pólitísk framtíð Ingibjargar Sólrúnar veltur á því hvort henni tekst að tryggja flokkunum aðild að ríkisstjórn og að hún sjálf setjist í valdamikið ráðherraembætti. Hér verður því haldið fram að til þess að þetta gangi eftir sé Ingibjörg Sólrún tilbúin til að greiða nokkuð hátt verð.
Fyrir Ingibjörgu Sólrúnu og félaga hennar í Samfylkingunni verður hins vegar erfitt að fara inn í ríkisstjórn með vinstri grænum og nær útilokað er að meirihluti væntanlegra þingmanna Samfylkingar samþykki Steingrím J. sem forsætisráðherra. Vinstri grænir hafa gert vonir Samfylkingarinnar um að verða hinn stóri flokkur jafnaðarstefnunnar að engu og það eiga margir erfitt með að fyrirgefa, hvað þá að sætta sig hugsanlega við að Steingrímur J. mæti til þing með fjölmennara lið. Það væri líkt og strá salti í sárið ef Steingrímur J. yrði forsætisráðherra í samsteypustjórn vinstri flokkanna.
Þess utan er harla ólíklegt að Samfylking og vinstri grænir geti myndað tveggja flokka stjórn. Þriðja hjólið þarf undir vagninn, - framsókn eða frjálslynda (eða Ómar). Þriggja flokka stjórnir hafa ekki reynst okkur Íslendingum gæfuríkar. Þetta veit Ingibjörg Sólrún og því horfir hún til Sjálfstæðisflokksins í þeirri von að Geir Haarde kasti til hennar pólitískum björgunarhring.
Ekki er ólíklegt að Geir Haarde telji rétt að stefna að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hann veit sem er að hann getur náð miklu fram gagnvart samfylkingum. En afskaplega verður slíkt samstarf umdeilt meðal sjálfstæðismanna, enda eru 81% þeirra með neikvæt viðhorf til Ingibjargar Sólrúnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:44 | Facebook
Athugasemdir
Það væri kannski klókt fyrir ISG að leggjast í sæng með Geir, a.m.k. myndi það ugglaust bæta skorið hjá henni hvað viðhorf hins almenna kjósanda sjálfstæðisflokksins varðar. Sem sagt, þarna gæti verið um áhrifaríkan bjarghring fyrir hana, bæði til skamms og langs tíma.
Sigurður J. (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 11:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.