Rangur staður og röng stund fyrir Völu Matt

Ég hef oftar, en góðu hófi gegnir, dottið í þann pytt að skrifa greinar sem voru í sjálfu sér ágætar en hvorki stund né staður var réttur. Sú ágæta sjónvarpskona, Vala Matt, ákvað að hoppa ofan í þennan pytt, sem ég þekki svo vel, með því að birta grein í Fréttablaðinu í dag.

Það skal viðurkennt að greinin fór framhjá mér í morgun - það var ekki fyrr en ágætur vinur minn benti mér á greinina og velti því fyrir sér hvernig í ósköpunum hægt væri að skrifa grein af þessu tagi, nú þegar málflutningur er búinn í Baugsmálinu og dómarar hafa tekið málið til úrskurðar.

Ég varð að viðurkenna að ég kunni ekki skýringar á slíku, nema þá að um gamla grein væri að ræða sem legið hefði lengi á ritstjórn Fréttablaðsins til birtingar. Grein af þessu tagi er ekki skrifuð eftir að mál hefur verið lagt í dóm og beðið er niðurstöðu. Að minnsta kosti mun ekki fleirum detta í hug að skrifa á þessum nótum, a.m.k. ekki fyrr en dómur hefur fallið.

Hitt er svo annað að ekki get ég tekið undir með þessari góðu sjónvarpskonu, þó ekki verði ég talinn hlutlaus enda einn af mínum bestu vinum að verjast saksókn.

 Vala skrifar undir fyrirsögninni: Ofsóknir og einelti

vala3

 

 

“Ég verð að viðurkenna að þessa dagana kemst ég ekki hjá því að verða niðurdregin. Það er orðið nokkuð ljóst að við búum við ótrúlega ófullkomið réttarkerfi – og við sem höfum alltaf staðið í þeirri meiningu að Ísland væri svo framarlega á öllum sviðum,ekki síst hvað dómskerfið varðar.

 Eins og flestir hef ég fylgst með fréttum af „Baugsmálinu“ og nú er tilfinningin sem ég hef haft gagnvart því máli að sannast, hér er um algjört einelti að ræða gagnvart aðilum sem einhverra

hluta vegna virðast ekki hafa fallið í kramið hjá ráðamönnum þjóðarinnar. Ég er greinilega ekki ein um þá skoðun því sumir hafa gengið svo langt að tala um nornaveiðar. Sú lýsing er ískyggilega rétt. Hvernig stendur á því að öll þessi viðamikla og langdregna rannsókn hefur ekki leitt neitt í ljós sem réttlætir svo harkalegar aðgerðir? Getur verið að hún hafi í raun verið tilhæfulaus?

 

Hvernig stendur svo á því að á sama tíma eru olíuforstjórarnir, eftir að hafa játað stórfelld samráð, lausir allra mála vegna galla í lögum? Og til að kóróna allt saman erum við, skattborgararnir, að borga brúsann, bæði í kolólöglegu samráði olíufélaganna og þeim óhemjukostnaði sem hleðst upp við lögsóknina gagnvart Baugsmönnum. Mér finnst þetta óhugnanlegt og er örugglega ekki ein um að vilja sjá skattfénu betur varið. Ég er líka hneyksluð á sjálfri mér og reyndar þjóðinni allri fyrir að láta ekki meira í okkur heyra þegar orðið var ljóst að hér var um hreinar ofsóknir að ræða.

 

Það er aðdáunarvert hvernig Baugsmenn og -konur hafa haldið virðingu sinni á þessari þrautagöngu gegnum íslenskt réttarkerfi og staðið af sér alls kyns árásir og skítkast af æðruleysi og þolinmæði. Þau verðskulda afsökunarbeiðni frá opinberum yfirvöldum. Okkur er misboðið fyrir þeirra hönd!

 Höfundur er sjónvarpskona.”

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í dómi Hæstaréttar í máli gegn 2 fyrrverandi og 1 núverandi forstjóra olíufélaganna er málinu vísað frá héraðsdómi með tílvísun til Mannréttindasáttmála Evrópu og Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.  Sjónvarpskonan kallar það " galla í lögum."  Þessi skrif gefa tilefni  til að ætla, að sérsvið sjónvarpskonunnar sé sætar " sjatteringar " og útlit sófasetta en síður almenn túlkun á dómum Hæstaréttar eða lögskýringar

kristinn björnsson (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 23:18

2 identicon

Í dómi Hæstaréttar í máli gegn 2 fyrrverandi og 1 núverandi forstjóra olíufélaganna er málinu vísað frá héraðsdómi með tílvísun til Mannréttindasáttmála Evrópu og Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.  Sjónvarpskonan kallar það " galla í lögum."  Þessi skrif gefa tilefni  til að ætla, að sérsvið sjónvarpskonunnar sé sætar " sjatteringar " og útlit sófasetta en síður almenn túlkun á dómum Hæstaréttar eða lögskýringar

kristinn björnsson (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 23:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband