Landbúnaðarstefnan er vandi Sjálfstæðisflokksins

Allt frá því að Sjálfstæðisflokkurinn stóð að setningu mjólkurlaganna árið 1932 hefur flokkurinn átt erfitt með að færa meginstefnu sína um frjálst markaðshagkerfi yfir á landbúnaðinn. Drög að ályktun landsfundar flokksins um landbúnaðarmál sýnir að flokknum hefur ekki tekist að brjóta 75 ára gamla hlekki.

Í drögunum er aðeins ein setning sem gefur til kynna að um sé að ræða stjórnmálaflokk, sem aðhyllist frjáls viðskipti og þó er hún fremur undarlega orðuð: "Sjálfstæðisflokkurinn vill stefna að því að almenn markaðslögmál gildi í landbúnaði eins og í öðrum atvinnugreinum."

Ef minni mitt er ekki svikult þá er hálfur annar áratugur síðan ég sat síðast landsfund Sjálfstæðisflokksins. Þá tók ég sæti í neytendanefnd flokksins til að styðja félaga mína sem höfðu lagt til að sjálfstæðismenn stefnu að frjálsum viðskipum með landbúnaðarvörur. Tillögur okkar náðu fram að ganga í nefndinni en voru síðan "drepnar" af fulltrúum miðstjórnar og þingflokks. Drög að ályktun um landbúnaðarmál, eins og neytendanefnd landsfundar hafði samþykkt, var því aldrei borin upp til atkvæða á fundinum.

Miðað við þau drög um landbúnaðarmál sem liggja fyrir landsfundarfulltrúum, sem koma saman nú um helgina, er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn treystir sér ekki til að skera upp kerfið, þrátt fyrir að öll rök bendi til að það þjóni jafnt neytendum sem sjálfstæðum bændum.

Drögin um landbúnaðarmál hljóða svo í fullri lengd:

"Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að stundaður sé fjölbreyttur landbúnaður á grundvelli einkaframtaks og frelsis til athafna. Sjálfstæðisflokkurinn vill draga fram sameiginlega hagsmuni landshluta, dreifbýlis og þéttbýlis, bænda og neytenda til hagsældar og sáttar í landinu. Blómlegar sveitir eru mikilvægur hlekkur í því að á Íslandi verði áfram samfélag velsældar og menningar.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á sérstöðu íslensks landbúnaðar, sem felst m.a. í því að framleiða matvæli í ómengaðri náttúru, þar sem gerðar eru ýtrustu kröfur um heilbrigða framleiðsluhætti, hollustu og gæðaeftirlit. Sjálfstæðisflokkurinn vill stuðla að áframhaldandi þróun landbúnaðarins, sem byggir á frjálsari viðskiptum, hugviti, kjarki og framsýni einstaklinga um allt land.

Margvíslegar breytingar hafa orðið í landbúnaði frá því að Sjálfstæðisflokkurinn tók við stjórnarforystu 1991. Frjálsræði hefur aukist og mikil hagræðing átt sér stað. Búum hefur fækkað og þau stækkað að sama skapi og framleiðsla hefur aukist í flestum greinum. Sama á við um vinnslustöðvar landbúnaðarins, þar sem gæði, framboð og fjölbreytileiki afurða hefur aukist og verð lækkað.

Landbúnaðurinn stendur ávallt frammi fyrir kröfu um aukna hagræðingu og lægra verð, sem hann verður að mæta. Sjálfstæðisflokkurinn tekur undir þá kröfu og vill skapa þau skilyrði, að landbúnaðurinn geti mætt minnkandi tollvernd og lægri framleiðslustyrkjum á næstu árum. Sjálfstæðisflokkurinn vill stefna að því að almenn markaðslögmál gildi í landbúnaði eins og í öðrum atvinnugreinum.

Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um rétt hvers einstaklingsins til ábyrgðar og athafna þannig að hann fái notið hæfileika sinna í eigin þágu og annarra. Treysta þarf enn frekar frelsi einstaklinganna til athafna á búum sínum og frjálsari viðskipta. Einfalda skal stjórnsýslu landbúnaðarmála, ekki síst kostnaðarsaman eftirlitsiðnað og létta álögum af greininni. Afleggja ber fóðurtolla strax.

Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um sjálfstæði bænda á jörðum sínum, þar sem þinglýstar eignaheimildir beri að virða ásamt öllum þeim lögvörðu réttindum, sem jörðunum fylgja.

Til að mæta aukinni erlendri samkeppni, er nauðsynlegt að aðilar sem stunda landbúnað leiti tækifæra á erlendum mörkuðum fyrir afurðir sínar á grundvelli gæða og hreinleika. Veita þarf búgreinunum lagaheimild til stjórnunar á útflutningi og að útvegaður sé útflutningskvóti á jafnréttisgrundvelli við innflutning og útflutning. Rík áhersla skal lögð á öruggar upprunamerkingar innlendra sem innfluttra búvara.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á öflugt mennta- og rannsóknastarf og vill stuðla að auknum tækniframförum landbúnaðarins. Sjálfstæðisflokkurinn leggur sem fyrr áherslu á, að landbúnaðurinn sé rekinn í sátt við náttúruna, og öll landnýting miðist við að hver kynslóð skili landinu í betra ástandi en hún tók við því."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Hjartanlega sammála þér, þetta er eins og blindur blettur í auga flokksins. Furðulegt að landbúnaðurinn skuli alltaf vera stikk frí frá lögmálum sem jafnvel vinstrisinnar eru farnir að átta sig á. Þróunin er meira að segja öfug, nú er enn meiri samþjöppun í gangi í geiranum með sameiningu MS og annarra félaga. Til þess að þetta stangist ekki á við samkeppnislög eru sett ný lög þeim æðri. Sorglegt. Af þessum sökum kaupi ég ávallt einhverja af vörum Mjólku í hvert sinn sem ég geri stórinnkaup. 

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 12.4.2007 kl. 14:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband