Þriðjudagur, 17. apríl 2007
Merkingarlaus könnun
Skoðanakönnun Gallups um hvort landsmenn séu hlynntir eða andvígir hertum reglum um heimildir útlendinga til að setjast hér að, er merkingarlaus í besta falli. Túlkun fjölmiðla á niðurstöðum könnunarinnar er jafnframt villandi.
Gallup spurði eftirfarandi: "Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) að settar verði strangari reglur um heimildir útlendinga til að setjast að á Íslandi?"
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru 56,2% landsmanna hlynnt því að reglur verði hertar. Hvað felst í því að herða reglur er hins vegar með öllu óljóst. Könnunin upplýsir ekki hvort meirihluti landsmanna er á því að herða reglur til að takmarka straum erlendra borgara til landsins eða hvort rétt sé að setja kvaðir á útlendinga er varðar t.d. lágmarksþekkingu um land og þjóð, til að auðvelda þeim að aðlagast og taka fullan þátt í þjóðfélaginu.
Könnunin leiðir heldur ekki í ljós hvort landsmenn eru á því að setja skorður við búsetu allra útlendinga. Eitthvað segir mér að ef spurt hefði verið: Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) því að setja strangari reglur um heimildir annarra Norðurlandabúa til að setjast að á Íslandi?, - þá hefði niðurstaðan orðið allt önnur. Hið sama á við ef spurt hefði verið um íbúa á Evrópska efnahagssvæðinu.
Niðurstaða könnunarinnar hefði einnig orðið önnur ef spurt hefði verið: Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) að settar verði strangari reglur um heimildir útlendinga til að setjast á á Íslandi, óháð því hvort slíkar reglur kunni að hafa áhrif á möguleika Íslendinga til búsetu í öðrum löndum?
Morgunblaðið segir í fyrirsögn í gær að mestur stuðningur við hertar reglur sé meðal framsóknarmanna. Hér er í besta falli verið að draga ályktun sem ekki er hægt að draga. Ríkisútvarpið féll í sömu gryfju.
Viðhorf kjósenda er aðeins sundurgreint eftir fjórum stjórnmálaflokkum. Gallup taldi ekki rétt að greina stuðningsmenn Frjálslyndaflokksins sérstaklega, enda úrtakið of lítið til þess. Þess í stað eru kjósendur frjálslyndra, Íslandshreyfingarinnar og Baráttusamtakanna, settir saman í eitt. Þar var stuðningur við hertar reglur alls 68,6%. Eitthvað segir mér að stuðningur við hertar reglur sé mun minni innan Íslandshreyfingarinnar og því sé hlutfallið mun hærra meðal kjósenda Frjálslyndra. Líkur eru því á að fyrirsögn Morgunblaðsins og ályktun Ríkisútvarpsins, séu hreinlega rangar.
Blaðið birtir síðan könnun í dag, þar sem spurt var um hvort viðkomandi telji að innflytjendur séu vandamál. Niðurstaðan er afgerandi. Yfir 53% segja að vandamálið sé ekkert, liðlega 10% að það sé mjög lítið og tæp 13% að vandinn sé lítill. Með öðrum orðum 76,2% landsmanna segja að innflytjendur séu lítið eða ekkert vandamál hér á landi.
Svarhlutfall í könnun Blaðsins var óvenjulega hátt eða 97,8%.
Ætli niðurstaða könnunar Gallup hefði ekki orðið önnur ef fyrst hefði verið spurt á þeim nótum sem Blaðið gerir og síðan athugað hvort viðkomandi vildi strangari reglur um búsetu erlendra ríkisborgara.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þessi könnun Gallup er afar undarleg og nokkrar spurningar vakna. Þekkir fólk almennt reglurnar sem það vill herða - veit það nógu mikið um þær til að geta tekið upplýsta ákvörðun um hvort eigi að herða þær? Gerir fólk sér grein fyrir að ef við herðum okkar reglur, eru allar líkur til að okkur verði gert erfiðara að komast til annarra landa?
Björgvin Valur (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 10:32
Hvað varðar könnun Blaðsins, þá finnst mér vanta samhliða hinni spurningunni, framhaldsspurningu og hún er "Verða innflytjendur vandamál" og þá gæti verið að fleiri hefðu svarað því játandi.
Það er barnaskapur að halda það að við Íslendingar komum til með að sleppa við þau vandamál sem skapast hafa í nágrannalöndum okkar og rakin eru til innflytjenda. Spurningin er hinsvegar þessi: Fengum við það einhverntímann uppáskrifað að okkur sé ætlað að sleppa við það? Held ekki. Þá má spyrja næst hvað getum við lært af "mistökum" nágrannalandanna.
Fyrir forvitnissakir gaman að sjá stóra könnun þar sem fyrst væri spurt hvort svarandi hefði ferðast/búið erlendis, talar þú ensku, og svo framvegis. Svona rétt til þess að greina betur hvaða forsendur/fordómar búa að baki svörum.
Það er nú einu sinni þannig að fordómar stafa fyrst og síðast af vanþekkingu, og ég hef að undanförnu heyrt æ fleiri kvarta yfir útlendingum vegna þess eins að þeir "lentu" á erl. þjóni eða afreiðslustúlku á veitingastað eða í verslun og viðkomandi var ekki fullkomlega talandi á ylhýra. Fyrir örfáum árum síðan dáðumst við að öllum þeim erlendu aðilum sem hér vóru og reyndu að tala íslensku. Nú virðist meira í tísku að hæðast að þeim. Heimur versnandi fer.
Þorsteinn Gunnarsson, 17.4.2007 kl. 11:52
Björgvin, ég er sammála þér og hefði raunar átt að taka þetta fram sjálfur. Annars hef ég haft þá reglu að vera ekki að svara athugasemdum hér á blogginu, fremur að lofa þeim að standa, enda málefnalegar, líkt og hjá nafnleysingjanum Frjáls.
Óli Björn Kárason, 17.4.2007 kl. 14:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.