Nú byrja yfirboðin

Yfirboðin fyrir komandi kosningar eru þegar hafin og frjálslyndir eru auðvitað ekki fyrstir. En þegar flokkar byrja að lofa er þá ekki best að hugmyndirnar standist skoðun - látum þá liggja á milli hluta hvað það kostar skattgreiðendur að efna loforðin?

Samkvæmt lauslegum útreikningi mínum er augljóst að fólk sem er með tekjur rétt undir 250 þúsund krónum (og með 150 þúsund króna skattleysismörk), er betur sett með því að afþakka launahækkun þar sem skattleysismörkin lækka um 28 þúsund krónur.

Ef það er hugmynd frjálslyndra að skattleysismörk lækki (fyrir tekjur í heild) þegar 250 þúsund króna tekjum er náð, eru tillögurnar ótrúlega vitlausar - og ekki bara vitlausar heldur ósanngjarnar og ranglátar. Ef tillagan er hins vegar sú að skattleysismörk af tekjum umfram 250 þúsund, lækki er verið að búa til ótrúlega flókið kerfi. Og dýrt verður það.

Vonandi á Frjálslyndi flokkurinn eftir að skýra þessa skattatillögur betur út, en miðað við fréttir er ekki heil brún í þeim. Þannig verða ráðstöfunartekjur manns með 245 þúsund krónur á mánuði um sex þúsund krónum hærri en þess sem er með 250 þúsund.


mbl.is Frjálslyndir vilja 150 þúsund króna skattleysismörk fyrir lágtekjurfólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Nú þarf sko heldur betur að skoða gylliboðin. verður sjálfsagt nóg af þeim á næstunni, því miður kokgleypa margir og gleyma að skoða dæmið til loka. En við treystum á hinn gáfaða kjósenda sem veltir hlutunum vel fyrir sér. 

Ásdís Sigurðardóttir, 17.4.2007 kl. 14:41

2 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Sjálfstæðismenn virðast ekki mega heyra á það minnst að það eigi að lækka skatta á þá sem hafa lægstu launin enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn slegið öll met í aukinni skattlagningu.  Skattheimtan var liðlega 31 af þjóðarkökunni árið 1995 en eftir áratuga stjórn Sjálfstæðisflokksins er hún komin í 42,4 %.  Þetta nálgast örugglega heimsmet.

Sigurjón Þórðarson, 17.4.2007 kl. 15:44

3 Smámynd: Helga Sigrún Harðardóttir

Alltaf gaman að sjá Sigurjón velta fyrir sér tölum. Honum hefur vætanlega ekki dottið í hug að kakan gæti hafa stækkað á tímabilinu og að fleiri væru komnir með hærri laun sem skilar sér í stærri prósentuhluta af heildinni vegna þess að hér hafi tekist að byggja upp öflugt atvinnulíf og fyrirtæki sem borga vel?  Nei. Sigurjón heldur að kaka sé kaka hvernig sem á það er litið.

Helga Sigrún Harðardóttir, 17.4.2007 kl. 15:52

4 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Staðreyndin er sú að skattbyrðin í Stjórnartíð Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefur þyngst á öllum landsmönnum nema þess tekjuhóps sem hafa 10% hæstu tekjurnar. Þessar útskýringar hjá Helgu eru því hrein og klár vitleysa.

 Vel að merkja Skattbyrðin hefur þyngst allra mest á þá sem hafa lægstu tekjurnar.   

Sigurjón Þórðarson, 17.4.2007 kl. 16:10

5 Smámynd: Óli Björn Kárason

Nú kann að vera að ég verði að endurskoða þá stefnu mína að svara ekki athugasemdum við það sem ég skrifa. Mér hefur fundist að rétt sé að láta þær standa, enda hefur enginn (fram að þessu) verið með annað en málefnalegar aðfinnslur, þó ekki séu þær allar réttar.

Sigurjóns Þórðarson, þingmaður frjálslyndra, skilur greinilega ekki athugasemdir mínar við tillögur hans og frjálslyndra í skattamálum. Hugmyndir þeirra, eins og sagt hefur verið frá þeim, ganga ekki upp. Það hefur ekkert með Sjálfstæðisflokkinn og þróun skattheimtu að gera. Þegar þingmenn vilja láta taka sig alvarlega, er best fyrir þá að ræða efnisatriði en ekki fara um víðan völl.

Viðar Helgi bendir hins vegar réttilega á að hægt sé að nota línulega lækkun. Það var einmitt það sem ég var að benda á, en það aftur flækir skattkerfið ótrúlega mikið. Gaman væri hins vegar að Viðar Helgi skrifaði enn frekar um skattamál, þar sem hann virðist hafa góðan skilning á málum.

Sem sagt: Ég hef skipt um skoðun. Ég ætla að svara athugasemdum, eftir því sem mér finnst ástæða til.

Óli Björn Kárason, 17.4.2007 kl. 17:48

6 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Sigurjón, það er ekki bláköld staðreynd að benda bara á skattbyrðina, það sem er afgangs skiptir öllu, við hjónin (öryrkjar) höfum verið að bæta okkur hægt og sígandi frá ári til árs síðustu árin. Fullyrði þetta, því ég mæli á eigin skinni og hvað er nærtækara.

Ásdís Sigurðardóttir, 17.4.2007 kl. 18:41

7 Smámynd: Jón Þór Bjarnason

Kann vel við þessa stefnubreytingu hjá þér Óli, getur þetta ekki bara verið hluti af því að ræða sig fram til niðurstöðu? Kannski barasta nauðsynlegt, ef maður hefur ekki alltaf rétt fyrir sér... og svo getur það líka verið mjög gaman að ræða við "gesti og gangandi" í aðeins annarri mynd en vanalega :)

Jón Þór Bjarnason, 17.4.2007 kl. 18:43

8 Smámynd: Jón Magnússon

Það er mjög sérstakt Óli Björn hvernig Sjálfstæðismenn taka á hugmyndum um hækkun skattleysismarka. Mig langar til að benda þér á að ekki ómerkari maður en Milton Friedman hafði fullan skilning á því að nota bæri skattleysismörk í þeim tilgangi sem við Frjálslynd leggjum til.

Skattleysismörk eru til staðar í dag en hafa farið lækkandi miðað við launaþróun og þess vegna hefur skattþbyrðin bitnað harðast á þeim tekjullægstu. Hefðu skattleysismörkin  fylgt vísitöluþróun þá væru þau í dag það sem við Frjálslynd leggjum til sem hækkun strax.

Við gerum okkur grein fyrir að þetta kostar sérstaklega þegar það er reiknað á grundvelli fyrirliggjandi stærða og ekki tekið tillit til þess sem gerist í framhaldinu. Í fyrsta lagi þá lækkar tilkostnaður kerfisins verulega. Í öðru lagi þá verður til meira eyðslufé hjá þeim lægst launuðu sem skilar sér að ákveðnum hluta inn í ríkissjóð með óbeinum sköttum. Þá höfum við hægri menn trú á því að skattalækkun leysi úr læðingi öfl í efnahagslífinu eins og kom í ljós þegar skattar voru lækkaðir á fyrirtæki. Gildir ekki það sama um einstaklinga ég tel svo vera.

Við erum ekki að yfirbjóða og gætum okkar á því. En hvað kostar það sem Geir Haarde lofaði á síðasta Landsfundi?

Loks Óli Björn. Sjálfstæðísflokkurinn á met í skattahækkunum og útþenslu ríkisbáknsins er ekki kominn tími til að snúa þessu við. Báknið burt.

Jón Magnússon, 17.4.2007 kl. 23:37

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er aldrei gáfulegt að ræða mikið um heimskuna. Reyndar er heimskan afar mikið vanmetin í umræðunni, jafn mikilvæg eins og hún nú er þegar öllu er á botninn hvolft. En þetta innlegg er um það að ég er sjálfur svo heimskur að þegar ég fæ bréf frá opinberri stofnun þar sem efnið snýst um tölfræðilegt erindi þá er ég aldrei viss um hvort sendandinn er að gera at í mér eða hvort hann vinnur með forrit sem er svo gallað að það kemur boðunum aldrei til skila. Þegar hann Stebbi heitinn á Meyjarlandi sendi mér útsvarsseðilinn forðum var ég aldrei í vafa um neinar tölur. Sama var þegar hreppsnefndin sendi gangnaseðilinn. Fái ég gluggabréf í dag fer ég ævinlega með það til tengdasonar míns sem er viðskiptafræðingur og bið hann um að opna það fyrir mig. Þegar hann er búinn að "skýra" efni bréfsins fyrir mér er ég næstum ævinlega jafnnær, lít á hann með áhyggjusvip og spyr hvort hann hafi mælt sig í morgun? 

Árni Gunnarsson, 18.4.2007 kl. 00:13

10 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Það er greinilegt að ég hef komið við kauninn hjá Sjálfstæðismanninum.

Sigurjón Þórðarson, 18.4.2007 kl. 11:20

11 Smámynd: Óli Björn Kárason

Árni. Það er alltaf gott að fá tilskrif frá sönnum Skagfirðingi og háðið er beitt vopn sem þú kannt að fara vel með.Jón Magnússon: Sem frambjóðandi Frjálslynda flokksins, þá kemur mér á óvart að þú skulir gera athugasemd við skrif mín, án þess þó að svara þeim efnislegu athugasemdum sem ég geri. Þú sem hæstaréttarlögmaður veist að þegar mál eru sótt er ekki hægt að forðast efnisatriðin - dómarar láta ekki blekkjast af orðskrúði einu saman. Hið sama á við um kjósendur.

Óli Björn Kárason, 18.4.2007 kl. 11:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband