Mánudagur, 30. apríl 2007
Mogginn, ritskoðun og þáttur Samfylkingar í eftirlaunalögunum
Björn Ingi Hrafnsson vekur athygli á niðurlagi Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins í gær, þar sem greint er frá að samfylkingarfólk hafi reynt að þrýsta á blaðamenn mbl.is að taka út frétt "um þær fátæklegu opnu umræður, sem þó fóru fram á landsfundi Samfylkingar".
Borgarfulltrúi Framsóknarflokksins spyr því eðlilega hverjir hafi viljað ritskoða. Spurningin er eðlileg þó að þetta sé langt í frá í fyrsta skipti sem fjölmiðlamenn verða fyrir þrýstingi frá stjórnmálamönnum til að hafa áhrif á fréttir.
Fjölmiðlar hafa ekki lagt það í vanda sinn að greina frá þegar þeir eru beittir þrýsingi frá þeim sem hagsmuna eiga að gæta. Auðvitað kann að vera rétt að gera slíkt opinbert í einhverjum tilfellum, en þá er ekki hægt að vera með hálfkveðnar vísur.
Fyrst Morgunblaðið ákvað að greina frá þeim þrýsingi sem blaðamenn mbl.is urðu fyrir, á blaðið að ganga hreint til verks og nafngreina þann eða þá sem vildu "ritskoðun" líkt og Björn Ingi kallar það. Að öðrum kosti liggja allir félagar Samfylkingarinnar, og þá ekki síst þingmenn flokksins, undir grun. Skrifin í Reykjavíkurbréfi minna á þegar greint var frá því að þjóðþekktur einstaklingur og athafnamaður á fertugsaldri hefði verið handtekinn fyrir fíkniefnamisferli. Þá lágu margir undir grun hjá almenningi og þá ekki síst þeir saklausu.
Nú veit ég ekki hvaða frétt reynt var að sannfæra Moggamenn um að taka út af vefnum en ein frétt vakti hins vegar athygli mína á sínum tíma. Eftirlaunalögin hafa reynst Samfylkingunni erfið, eins og kom fram á landsfundi flokksins, þegar komið var í veg fyrir að tillaga Valgerðar Bjarnadóttur væri tekin til efnislegrar umræðu.
Getur verið að ástæða þess að ekki var hægt að ræða eftirlaunalögin á landsfundi jafnaðarmanna, sé sú að frumkvæði að setningu laganna hafi komið frá forystumönnum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna? Getur verið að Össur Skarphéðinsson og Steingrímur J. Sigfússon, hafi átt hugmyndina um að endurskoða lögin til að bæta eftirlaunakjör stjórnmálamanna og þar með sín eigin kjör? Er það rétt að Ingibjörg Sólrún hafi stutt lagasetninguna, enda tryggt að formenn stjórnmálaflokka, nytu góðra kjara, jafnvel þótt þeir ættu ekki sæti á Alþingi?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Óli Björn, þú getur betur en þetta. Reykjavíkurbréf og Björn Ingi eru að hugsa um sinn hag og reyna að gera aðra ótrúverðuga.
Eggert Hjelm Herbertsson, 30.4.2007 kl. 10:48
Eggert, ég held að þú misskiljir mína athugasemd. Það eina sem ég er að segja, er að menn eigi ekki að vera hálfkveðnar vísur, heldur ganga hreint til verks þannig að ekki sé verið að kasta á þá sem ekkert hafa til sakar unnið.
Óli Björn Kárason, 30.4.2007 kl. 11:22
Já, þetta er eina sem þú segir. Aftur á móti gleymir þú einu sem er hinn endinn á málinu. Hvers vegna eru allir í Samylkingunni undir grun og þú og Björn Ingi horfið ekki í aðra átt? Þar til Mogginn upplýsir ekki málið ætti höfundur Reykjavíkurbréfsins með réttu að vera grunaður um að ljúga sökum uppá Samfylkinguna en ekki öfugt. Eða mótmælir þú að þetta sé hin hliðin á málinu? Ef ekki, játarðu þá að hafa annað hvort gleymt henni eða ekki komið auga á hana?
Pétur Tyrfingsson, 30.4.2007 kl. 14:03
Pétur. Þú kemur yfirleitt auga að aðrar hliðar en við hin. Auðvitað hefur þú rétt fyrir þér, en ég þekki mitt fólk á Mogganum, og tel að "hin hliðin" sé akademísk umræða.
Óli Björn Kárason, 30.4.2007 kl. 15:42
Þú segir: "Að öðrum kosti liggja allir félagar Samfylkingarinnar ... undir grun." Ég ítreka: Nei. Að öðrum kosti liggur Mogginn undir grun um að ljúga.
Þessi hlið málsins er ekki "akademísk" heldur sú hlið málsins sem sem liggur beinna við þeim sem vill vera málefnalegur og sanngjarn. Mér þykir því undarlegt að þér líberalistanum skulir segja að að það sé eðlilegt að graðhvannarnjólinn sem þið Sjálfstæðismenn hangið á í borgarstjórn spyrjir hverjir hafi viljað ritskoða Moggann. Hvað varð um hina gagnrýnu hugsun?
Svo verð ég að hrekkja þig svona uppá grín: Ef rétt reynist er þetta þá ekki bara eftir hefð Bjarna Benediktssonar sem klappaði þér á kollinn í gamla daga? Sá stýrði nú aldeilis hverju mátti hleypa á prent í þessu ágæta blaði og jafnvel um hvað mátti spyrja hann í ríkissjónvarpi. So who cares anyway?
Pétur Tyrfingsson, 1.5.2007 kl. 04:06
...gleymdi einu. Karaktervitnisburður þinn um Moggamenn er ekki gagn í málinu. Eða væru það gild rök ef ég fullyrti: Ég þekki alla í Samfylkingunni af góðu einu og þeir gera ekki svona! - Mundirðu ekki hlæja að svoleiðis vitleysu?
Pétur Tyrfingsson, 1.5.2007 kl. 04:09
Var ekki allgóð samstaða á þingi um eftirlaunafrumvarpið? Það er kannski ástæða þess að engir hreyfa breytingum í alvöru?
Gústaf Níelsson, 2.5.2007 kl. 01:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.