Fimmtudagur, 3. maí 2007
Ævisaga forseta: Ólafur Ragnar og Björgólfur
Morgunblaðið staðfesti í gær, fréttir netverja, að Guðjón Friðriksson sagnfræðingur sé að vinna að ævisögu Ólafs Ragnars Grímssonar í forsetastóli. Ævisagnaritarinn segist meðal annars vera að fjalla um þátt Ólafs Ragnars í útrás íslenskra fyrirtækja.
Ég ætla að láta liggja á milli hluta, hve sérkennilegt það er að skrifa sögu manns sem ekki hefur lokið sínu verki, en eins og sagt er í frétt Morgunblaðsins er ekki um "eiginlega ævisögu að ræða heldur verður kastljósinu beint að tíð Ólafs í forsetaembætti".
Guðjón Friðriksson segist vera að skrifa bók sem segi meira og minna frá forsetatíð Ólafs Ragnars: "Þar verður lögð sérstök áhersla á þessi erlendu samskipti hans og um leið er ég í raun að fjalla um útrásina og viðskiptalífið og þátt hans í því," segir Guðjón í viðtali við Morgunblaðið. Með þessu er gefið til kynna að útrásin og forsetinn verði ekki skilin að.
Vonandi verður sagan ekki skrifuð út frá einum sjónarhóli og fátt annað dregið með. Fyrir sagnaritarann verður auðvitað nauðsynlegt að líta til forsögu Ólafs Ragnars og kortleggja viðhorf hans til viðskiptalífsins. Þar verður auðvitað sagt frá því þegar Ólafur Ragnar, sem fjármálaráðherra, lét ráðast inn í Hagvirki en ekki verður síður dregið fram með hvaða hætti forsetinn kom fram í Hafsskipsmálinu. Og auðvitað mun Guðjón Friðriksson leitast við að svara þeirri spurningu hvernig það geti verið að Björgólfur Guðmundsson, aðaleigandi Landsbankans, hafi tekið Ólaf Ragnar í sátt. Björgólfur, ásamt syni sínum Björgólfi Thor, hefur verið í fararbroddi í útrásinni, sem svo mjög á að beina kastljósinu að og gera hlut Ólafs Ragnars mikinn.
Björn Jón Bragason sagnfræðingur skrifar merkilega grein í Þjóðmál - besta tímarit sem gefið er út hér á landi - undir heitinu Pólitískar afleiðingar Hafskipsmálsins. Þar rifjar hann upp ummæli og framgöngu stjórnmálamanna í þessu umdeilda máli, en meðal aðalleikara voru Ólafur Ragnar Grímsson og Björgólfur Guðmundsson. Björgólfur var forstjóri Hafskips en Ólafur var á þeim tíma varaþingmaður, sem tók sæti á Alþingi og réðist með harkalegum hætti á Björgólf persónulega og íslenskt viðskitpalíf einnig.
Björn Jón segir meðal annars í grein sinni:
"Þá sló Ólafur Ragnar því föstu að stjórnendurnir hefðu dregið að sér stórfé sem þeir hefðu notað til að greiða fyrir einkalúxus erlendis og hérlendis".15 Einnig fann hann að því að Hafskip hefði staðið í skilum við Reykvíska endurtryggingu hf., þar sem þeir Ragnar Kjartansson stjórnarformaður Hafskips og Björgólfur Guðmundsson forstjóri sama félags væru meðal helstu eigenda tryggingafyrirtækisins. Óx honum mjög í augum að þetta fyrirtæki hefði fest kaup á húsi á horni Sóleyjargötu og Skothúsvegar, en fyrirtækið Staðarstaður hf. var skráð eigandi þess. Varaþingmaðurinn hélt áfram:
"Hverjir eiga Staðarstað hf.? Jú, Björgólfur Guðmundsson og Ragnar Kjartansson. Það er ekki nóg að mjólka úr Hafskipi yfir í annað fyrirtæki heldur er mjólkað úr því fyrirtæki og yfir í þriðja fyrirtækið til að tryggja að hringrásin geti haldið áfram og peningar almennings, sem fengnir voru í Útvegsbankanunum séu nægilega vel faldir ... þeir hafa sérstaklega séð til þess, eigendur byggingarinnar, Björgólfur Guðmundsson og Ragnar Kjartansson, af óskammfeilni sinni að það sé flóðlýst á hverju kvöldi svo dýrðin fari ekki fram hjá neinum og allir geti skoðað, sérstaklega kjósendur Framsóknarflokks og flokksmenn Sjálfstæðisflokks allt í kringum landið, hvert peningarnir úr Útvegsbankanum fóru og hvers konar höll það er sem þeir eiga náttúrlega á hreinu í dag, Ragnar Kjartansson og Björgólfur Guðmundsson, þegar upp er staðið.""
Allir ættu að lesa þessa fróðlegu samantekt Björns Jóns í Þjóðmálum. En gríðarlega verður það fróðlegt fyrir menn eins og mig, sem hafa haft það að lifibrauði í nær aldarfjórðung að fjalla um íslenskt viðskiptalíf, að lesa hvernig Guðjón Friiðriksson skýrir út sinnaskipti Ólafs Ragnars gagnvart atvinnulífi og einnig verður eftirtektarvert að fá upplýst hvernig þau sár sem Ólafur Ragnar risti í fjölskyldu Björgólfs Guðmundssonar hafa náð að gróna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Er þetta hús, sem nefnt er ekki einmitt húsið þar sem Ólafur Ragnar situr nú dægrin löng við embættisstörf? Og formaður þingflokks Samfylkingarinnar þar áður við störf að tryggingamálum?
Gústaf Níelsson, 4.5.2007 kl. 01:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.