Aðeins tveir kostir í ríkisstjórnarmyndum eftir yfirlýsingu Valgerðar

Yfirlýsing Valgerðar Sverrisdóttur um að Framsóknarflokkurinn taki ekki þátt í ríkisstjórn, verði úrslit kosninga svipuð og kannanir benda til, er annað hvort pólitískt óskynsamleg eða merkingarlaus yfirlýsing sem ekki verður fylgt eftir þegar á reynir.

Nýjasta könnun Gallup bendir til að Framsóknarflokkurinn fái fimm þingmenn á laugardag - missi sjö menn af þingi. Hins vegar bætir Sjálfstæðisflokkurinn stöðu sína verulega og fær 27 þingmenn.

Ef tölur úr kjörkössunum verða í samræmi við Gallup-könnunina, þá heldur ríkisstjórnin naumum eins manns meirihluta. Slíkt taldi þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins vera veika stjórn og því var ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mynduð fyrir 12 árum - Alþýðuflokkurinn og Jón Baldvin sátu eftir með sárt ennið.

Ef framsóknarmenn ætla að standa við yfirlýsingu Valgerðar (og hún er ekki eini þingmaður flokksins sem hefur talað á svipuðum nótum), er ljóst að aðeins tveir kostir eru til myndunar nýrrar ríkisstjórnar. Annað hvort semur Geir H. Haarde og Sjálfstæðisflokkurinn við Samfylkinguna eða vinstri græna. Fyrri kosturinn yrði með gríðarlegan sterkan meirihluta eða 43 þingmenn en síðari kosturinn gefur ríkisstjórn með 38 þingmenn, sem verður að teljast ágætur meirihluti.

Tveir aðrir kostir eru auðvitað til staðar, en Valgerður Sverrisdóttir og félagar hennar virðast vera búin að afskrifa þá. Fyrri kosturinn er auðvitað áframhaldandi ríkisstjórn en hinn kosturinn er sameinuð stjórnarandstaða með fulltingi framsóknarmanna. Fjögurra flokka stjórn Samfylkingar, Frjálslynda flokksins, vinstri grænna og Framsóknar. Slík ríkisstjórn yrði versta niðurstaðan fyrir kjósendur.

Ef framsóknarmenn ætla að standa við yfirlýsingu Valgerðar er ljóst að þeir hafa dæmt sig út í horn við myndun nýrrar ríkisstjórnar. Í stjórnmálum hefur það aldrei þótt til eftirbreytni að setjast út í horn og láta öðrum eftir að skipta með sér völdum. Það hefur hingað til ekki verið í eðli framsóknarmanna að sækjast ekki eftir völdum og áhrifum. Spurningin er því einföld; er yfirlýsing utanríkisráðherra merkingarlaus eða pólitíkur afleikur.


mbl.is Valgerður: Framsóknarflokkur ekki í ríkisstjórn með svona lítið fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að þetta sé pólitískur leikur - hvort það er afleikur á eftir að koma í ljós. Svona yfirlýsingar eru að ég held hugsaðar til að reyna að fá framsóknarmennina sem langar inn við beinið til að refsa flokknum  til að skipta um skoðun. Hvort það tekst veit ég ekki.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 01:14

2 identicon

Er yfirleitt nokkur sem trúir yfirlýsingum forustumanna framsóknar? Ef niðurstaða kosninganna verður svipuð og kannanir benda til núna verður skásti kosturinn fyrir okkur umhverfissinna að fá  samstjórn íhalds og VG. Þá yrði a.m.k. fjögurra ára hlé á hryðjuverkunum gegn náttúrunni. Það er engin hætta á að VG selji sálu sína og hugsjónir fyrir baunadisk.

Sigurður Sveinsson (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 03:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband