Auðmenn ásælast fjölmiðla

Warren Buffett, þekktasti fjárfestir heims, heldur því fram að auðmenn hafi vaxandi áhuga á að fjárfesta í fjölmiðlafyrirtækjum og að arðsemissjónarmiðin ráði þar ekki ein ferðinni. Viðskiptablaðið greinir frá þessu í dag og byggir á frásögn Financial Times af ársfundi Berkshire Hathaway, fjárfestingarfélagi Buffetts.

Viðhorf Buffetts hljóta að vekja töluverða athygli, ekki síst hér á landi þar sem íslenskir fjölmiðlar eru að stærstum hluta í eigu eða undir stjórn þekktra íslenskra auðmanna.

Viðskiptablaðið segir svo frá í dag:

"Warren Buffett, stjórnarformaður Berkshire Hathaway, sagði um helgina að tilboð fjölmiðlajöfursins Rupert Murdoch og fjölmiðlasamsteypu hans, News Corp, í Dow Jones væri til marks um aukinn áhuga auðmanna á því að eignast fjölmiðla og að aðrir þættir en hagnaðarvon stýrðu þeim áhuga. Á dögunum bauð Murdoch fimm milljarða Bandaríkjadala í Dow Jones. Bancroftfjölskyldan, sem fer með ráðandi hlut í Dow Jones, hafnaði tilboðinu þrátt fyrir að það sé um sextíu prósentum hærra en markaðsverð fyrirtækisins. Tilboðið þykir það hátt að ekki er útséð með hvort að Murdoch takist að eignast fyrirtækið á endanum.

Buffett lét þessi ummæli falla um helgina á ársfundi Berkshire Hathaway. Hann sagðist viss um að Murdoch væri reiðubúinn að viðurkenna að það væru fleiri þættir en arðsemisvæntingar sem stýrðu áhuga hans á Wall Street Journal, sem er flaggskip útgáfustarfsemi Dow Jones. Einnig kom fram í máli Buffetts að slíkur áhugi einskorðaðist ekki við Murdoch: Hann telur að auðmenn séu í auknum mæli reiðubúnir til þess að fjárfesta í ákveðnum fjölmiðlum vegan áhrifa þeirra, dagskrárvalds og virðingar. Berkshire Hathaway hefur fjárfest í fjölmiðlum og á hluta bæði í Buffalo News og The Washington Post."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband