VG vill í stjórn með Sjálfstæðisflokknum

"Ef Vinstrihreyfingin - grænt framboð fær ekki 20% fylgi mun hún ekki eiga auðvelt með að semja við Sjálfstæðisflokkinn og hann mun ekki telja sig þurfa að semja um neitt. Þá mun hann halla sér að Samfylkingunni," segir Ármann Jakobsson í pistli á murinn.is í dag. Ármann er áhrifamaður innan vinstri grænna og bróðir Katrínar Jakobsdóttur, varaformanns flokksins og frambjóða í Reykjavík norður.

Þessi yfirlýsing Jakobs er merkileg og greinilegt að innan vinstri grænna er mikill áhugi á að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Vinstri grænir virðast hafa áttað sig á að mestar líkur, miðað við skoðanakannanir, eru á því að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking myndi næstu ríkisstjórn og til þess mega þeir ekki hugsa.

Kaffibandalagið er og var aldrei annað en kaffiklúbbur í aðdraganda kosninga, þar sem enginn hefur hug á að sitja lengur við borðið en nauðsyn krefur, enda líkar borðfélögunum ekki sérstaklega við hvern annan.

Ármann segir orðrétt í pistli sínum:

"Eina von vinstrisinnaðra kjósenda er að hið mikla fylgi Sjálfstæðisflokksins komi ekki upp úr kössunum því að eitt er alveg öruggt: Ef Sjálfstæðisflokkurinn nær 40% fylgi verður hann alfa og omega í næstu ríkisstjórn. Annað er líka alveg öruggt: Ef Vinstrihreyfingin - grænt framboð fær ekki 20% fylgi mun hún ekki eiga auðvelt með að semja við Sjálfstæðisflokkinn og hann mun ekki telja sig þurfa að semja um neitt. Þá mun hann halla sér að Samfylkingunni. Sem mun fá að launum nokkur sýndar „skref" fyrir velferðarkerfið og í staðinn fær Sjálfstæðisflokkurinn fleiri tilraunir með einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu (Össur og Ágúst hafa þegar talað fyrir því)

Álversvæðingin heldur auðvitað áfram, ef ekki strax, þá eftir tvö ár eða svo. Mun eitthvað verða eftir af friðarhjali Samfylkingarinnar úr Íraksstríðinu? Auðvitað ekki, hún styður vígvæðingarstefnu NATO og NATO-her á Íslandi. Verður eitthvað gert í skattamálum? Ja, hættan er ansi mikil á að Geir muni hafa vinninginn, enda vill Samfylkingin ekki fá viðskiptalífið á móti sér. Fær Samfylkingin í staðinn að vinna að ESB-aðild? Nei, auðvitað ekki því hún hefur ekkert að bjóða Sjálfstæðisflokknum annað en að vera eftirgefanlegri en VG. Og Sjálfstæðisflokkur með 40% fylgi þarf ekkert að semja um slík mál.

Kjósendur verða að hafa eitt í huga: Það er ekki aðeins nokkur hætta á nýrri Viðeyjarstjórn. Hún er því miður beinlínis langlíklegasti kosturinn miðað við kannanir seinustu daga. Það eina sem kjósendur sem ekki vilja svona stjórn geta gert er að kjósa öðruvísi en þeir segjast ætla að gera þessa dagana. Sjálfstæðisflokkurinn má ekki fá 40% fylgi og hann þarf sterkara aðhald frá vinstri. Þegar hægrið og miðjan renna saman, þá verður nefnilega niðurstaðan sú að blái liturinn heldur sér býsna vel."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórir Hrafn Gunnarsson

"Þessi yfirlýsing Jakobs er merkileg og greinilegt að innan vinstri grænna er mikill áhugi á að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum."

Hver er Jakob?

Kveðjur :)

Þórir Hrafn Gunnarsson, 9.5.2007 kl. 17:17

2 identicon

Er þetta ekki bara misheppnuð tilraun Ármanns til að reyna að stöðva flæði kjósenda frá vinstri grænum yfir á Samfylkinguna. Ekki gat hann verið málefnalegur í þetta skiptið alla vega.

Hlynur Bárðarson (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 21:20

3 identicon

Sýnir og sannar að þeir sem lengst eru til vinstri fyrirlíta ekkert meira en krata.

Björgvin Valur (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 21:38

4 identicon

Þetta er ótrúlega frjálslegur lestur á þessari grein, eins og vant er fyrir kosningar. Í greininni er hvergi sagt að a) að VG ætli eða ætti að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum frekar en öðrum stjórnarandstöðuflokum ef ríkisstjórnin fellur, og b) að nokkur annar stjórnarandstöðuflokkur hafi það í hyggju.

Auðvitað myndar stjórnarandstaðan stjórn ef ríkisstjórnin fellur, það hélt ég að allir vissu enda ekki hægt að túlka kosningarnar öðruvísi en að það sé vilji kjósenda. Í greininni er lagt út frá könnunum (sem einu sinni voru nýjar en eru strax orðnar gamlar) þar sem ríkisstjórnin heldur velli og Sjálfstæðisflokkurinn er með yfir 40% fylgi (sem hefur nú blessunarlega dalað). Undir slíkum kringumstæðum blasir við að hann verður í stjórn og enginn flokkur hefur útilokað slíkt samstarf, ekki heldur VG. Ekki vissi ég að það væru fréttir. Eina framlag mitt í þessari grein er að vara við þeirri tálsýn að slíkt samstarf sé mögulegt miðað við þessar áðurnefndu kannanir (eins og kemur raunar vel fram í tilvitnuninni þinni). Heldur segi ég að líklegasta niðurstaðan yrði þá annars konar stjórn, mér lítt hugnanleg. Er raunar ekki fyrstur til að lýsa þeirri skoðun.

Þannig að bæði lestur þinn og þessar undarlegu seinni athugasemdir tvær (ég gef mér að þeir sem þær skrifa hafi alls ekki lesið greinina) eru til marks um það eitt að í kosningabaráttu hættir annars skynsamt fólk að geta lesið fyrir kosningahita.

Annars óska ég þér alls góðs, miðað við pólitískt blogg og það heiðblátt er þetta hin ágætasta síða.

Ármann (IP-tala skráð) 10.5.2007 kl. 00:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband