Björgólfur er að líkindum tilbúinn til að greiða hærra verð

Yfirtökutilboð Björgólfs Thors Björgólfssonar, í gegnum fjárfestingarfélag sitt Novator (sem er staðsett í Bretlandi), á öllu hlutafé í Actavis hefur vakið blendin viðbrögð á markaðinum. Flest bendir til þess að tilboðið sé lægra en hluthafar eiga að sætta sig við.

Það sem af er ári hafa hlutabréf Actavis hækkað um 35,7% samkvæmt yfirliti á M5.is og var lokagengi bréfanna í gær 87,50 krónur á hvern hlut. Tilboð Novators jafngildir 85,23 krónum. Eignarhlutur Björgólfs Thors og tengdra félaga er 38,5%. Markaðsvirði félagsins er nú nær 295 milljarðar króna sem þýðir að verðmæti hluta Björgólfs er um 113 milljarðar króna. Björgólfur Thor er stjórnarformaður félagsins.

Björgólfur Thor hefur bent á að tilboð hans sé 21% hærra en meðaltalsgengi síðustu sex mánaða og það var 9% hærra en lokagengi bréfanna áður en tilboðið var lagt fram. Þetta kann að vera rétt en ólíklegt er að Björgólfur Thor hafi talið að hann næði að kaupa öll hlutabréf, sem ekki eru þegar í hans eigu, á verði sem var aðeins 9% yfir markaðsverði. Hann vissi eða mátti vita að um leið og tilboð kæmi fram myndi verð bréfanna hækka. Því bendir flest til að Björgólfur Thor sé tilbúinn til að greiða hærra verð en felst í hinu upprunalega tilboði. Annað gengur hreinlega ekki upp.

Á liðnu ári hækkuðu bréf Actavis um liðlega 27% en frá ársbyrjun 2005 til loka liðins árs hækkuðu hlutabréfin um nær 82% í verði. Frá ársbyrjun 2005 til loka dagsins í gær 2,3-faldaðist verðmæti bréfanna og hluthafar hafa notið ágætra arðgreiðslna.

Þegar fortíðin er höfð í huga og eins sú staðreynd að stjórnarformaður félagsins hefur mikla trú að framtíð félagsins, er fátt sem mælir með því að hluthafar sætti sig við það verð sem Björgólfur Thor hefur gert í gegnum Novator.

Vill ekki annað tilboð

Hagsmunum Björgólfs Thors er ekki best borgið með því að hærra tilboð frá öðrum aðila berist í allt hlutafé Actavis. Hann hefur þegar lýst því yfir að hann muni ekki selja sinn hlut og með því gefið til kynna að þýðingarlaust sé fyrir aðra aðila að etja við hann kappi um fullkomin yfirráð yfir Actavis.  

Yfirlýsing þessi er í nokkru undarleg fyrir aðra hluthafa í félagi þegar haft er í huga að ef kæmi fram tilboð upp á 95 krónur á hlut (líkt og greiningardeild Glitnis telur að sé yfirtökuverð í lægri kantinum), þá myndi Björgólfur Thor græða nær 10 milljarða króna á hækkuninni og leysa nær 123 milljarða króna, sem að stórum hluta er hreinn hagnaður. Aðrir hluthafar fengju yfir 15 milljörðum króna meira í sinn hlut en tilboð Björgólfs Thors gerir ráð fyrir.  Ef yfirtökuverðið væri 100 krónur, líkt og Merril Lynch telur að sé rétt, yrði hagnaðurinn enn meiri.

Að því gefnu að greiningardeild Glitnis og Merril Lynch hafi rétt fyrir sér er augljóst að hagsmunum Björgólfs Thors er betur borgið með því að ekki komi fram annað tilboð. Ekki síst ef hugmyndin er síðan að selja félagið í heild sinni aftur eða sameina öðru félagi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég er tilbúinn, að íhuga með sölu minna bréfa í Actavis, ef fram hemur tilboð upp á kr.150 á hlut. Ég bíð eftir tilboði frá Björgúlfi.

Loftur Altice Þorsteinsson, 11.5.2007 kl. 09:45

2 identicon

Þetta tilboð hans er nú í lægri kantinum miðað við þær kennitölur sem eru í gangi í sambærilegum yfirtökum.  Það sem mig grunar með actavis og Björgólfur án efa veit upp á hár er að mikils sé að vænta í ameríku.  Actavis hefur hingað til verið að selja lítil lyf þar og þau stóru lyf sem þeir hafa farið með á markað eru lyf sem nánast allir aðrir eru einnig að selja.  Það mun án efa koma að því að þeir fara að ná 180 daga exclusivity period á einh stór lyf og mun það kýla upp hagnaðinn og framlegðina það hálfa ár sem það á sér stað.  Svo er nú einn útidúr í þessu, actavis á fyrirtæki í Danmörku sem að mig minnir heitir Coletech og er með fyrirbyggjandi ristilkrabbameinslyf í þriðja fasa, það væri áhugavert að fá að vita hvar sú vinna stendur áður en menn fara að skrifa undir eitthvað gengi.

Björn (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 12:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband