Björn Ingi næsti formaður Framsóknarflokksins

Aldrei verð ég sakaður um að vera hallur undir Framsókn, en úrslit kosninganna, þar sem Framsóknarflokkurinn beið afhroð, eru mér ekki að skapi og þá skiptir ríkisstjórnarþátttaka þeirra ekki máli.

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, fékk erfitt hlutverk. Að byggja upp flokk, sem logaði í innanflokksdeilum. Félagar Jóns gerðu verkefnið í raun óvinnandi. Á síðari árum hafa ekki komið fram á leiksvið sjórnmálanna margir sem eru traustari stjórnmálamenn en Jón Sigurðsson og fáir hafa meiri þekkingu og skilning á efnahagslífinu og hann. Það er miður að Jón skyldi ekki ná kjöri á Alþingi.

Jón Sigurðsson er ef til vill ekki draumur ímyndarfræðinganna eða spunameistaranna. Hann tók að sér að brúa bilið á milli kynslóða í Framsóknarflokknum og sigla flokknum í gegnum erfiðar kosningar. Mótbyrinn var hins vegar meiri, en flestir áttu von á. Hann svaraði kalli félaga sinna í flokknum, yfirgaf gott embætti seðlabankastjóra og henti sér út í laugina. Það eru ekki margir sem eru tilbúnir til að setja einkahagsmuni til hliðar þegar gamlir flokksfélgar kalla á hjálp.

Allir hafa gert sér grein fyrir, og þó ekki síst Jón Sigurðsson sjálfur, að formennska hans í Framsóknarflokknum er tímabundin. Hann tók að sér brúarsmíðina og að henni lokinni mun hann víkja.

Þrátt fyrir útreiðina á laugardag er hins vegar ljóst að Framsóknarflokkurinn hefur á að skipa nokkrum ungum og efnilegum mönnum. Birgir Jón Jónsson hefur þegar getið sér gott orð á Alþingi og tekist vel upp sem formaður fjárlaganefndar. Höskuldur Þór Þórhallsson, sem kemur inn sem nýr þingmaður Framsóknar, kann að vera óskrifað blað, en í viðtölum á kosninganótt gaf hann af sér góðan þokka.

En sterkasti maður Framsóknarflokksins til framtíðar er Björn Ingi Hrafnsson, leiðtogi flokksins í Reykjavík og borgarfulltrúi. Björn Ingi hefur komið fram af yfirvegun, er málefnalegur en um leið fastur yfir og fylginn sér.

Verkefni Framsóknarflokksins á næstu árum er að byggja upp fylgi á höfuðborgarsvæðinu. Enginn er betur til þess fallinn en Björn Ingi. Þeir ráðherrar flokksins sem héldu velli, Guðni Ágústsson, Valgerður Sverrisdóttir og Siv Friðleifsdóttir, eru öll fulltrúar eldri tíma innan flokksins og þau tvö fyrrnefndu eru að líkindum sitja sitt síðasta kjörtímabil.

Björn Ingi virðist hafa hæfileika til þess að ná til fólks á höfuðborgarsvæðinu en einnig á landsbyggðinni. Það er eftir slíku sem framsóknarmenn hljóta að leita að.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eins og oft áður felst sannleikskorn í því sem þú segir, Óli minn Björn. En varðandi Höskuld prestsson frá Akureyri; hitti hann í fyrsta sinn norður á Akureyri um helgina og ég er sammála því að hann bjóði af sér góðan þokka. Jafnvel svo, að ég stórlega efast um að hann plummi sig í pólitík; ég hygg að hann sé alltof hrekklaus og góður drengur fyrir slíkan hráskinnaleik.

En varðandi að þú sért ekki hallur undir Framsókn, þá hefur þessi fjöldahreyfing meintra félagshyggju- og samvinnumanna færst svo skuggalega langt til hægri á stundum að eðlilegra er að segja hún hafi nálgast frjálshyggjumenn eins og þig. 

Kveðja, Sigurður Bogi

Sigurður Bogi Sævarsson (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 00:05

2 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Saell vertu Oli,ja thu spekulerar um framtid framsoknar eg var lengi vel framsoknarmadur og trur thvi ad vera slikur,en thegar halldor for med dabba sinum i strid og rest af framsoknarmonnum gerdu ekki baun i bala ne motmaeltu tha sa eg ad tharna fer duglaus flokkur og thar med gaf eg skit i flokkinn og mun aldrei kjosa framar enda se eg engan verdugan hugsjonamann tharna a ferd heldur mest skitapakk sem vill vold og ekki sleppa theim heldur en thetta er bara min syn a malid eg vill theim svo sem ekkert illt sem personum en sem flokk vil eg thurka hann ut Ulli.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 15.5.2007 kl. 11:19

3 identicon

Sæll Óli Björn.

Athyglisvert sem þú segir um Björn Inga Hrafnsson.  Hann er vissulega mælskur, en ekki er nú allt til fyrirmyndar sem hann segir.  Tökum sem dæmi þá skoðun hans, að forysta Sjálfstæðisflokksins geti ekki annað en gert Björn Bjarnason að ráðherra þrátt fyrir að ca. 20% kjósenda flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður hafi hafnað honum með því að strika yfir nafn hans á kjörseðlinum.  Annars yrði litið svo á, að inngrip Jóhannesar í Bónus hafi vegið þungt og við það geti forystan í Valhöll ekki unað!  Þó að Jóhannes hafi hvatt til yfirstrikana á nafni Björns verður ekki litið framhjá þessum fjölda flokksmanna, sem ekki vilja sjá Björn á listanum.  Þeir eru ábyrgir gerða sinna og gildir einu hvort auglýsing Jóhannesar hefur haft áhrif.  Þetta er einfaldlega afstaða kjósenda flokksins í kjördæminu til mannsins og embættisverka hans.  Hafa ber í huga, að Björn hafði áður beðið lægri hlut fyrir Guðlaugi Þór í prófkjöri flokksins og þar áður verið hafnað af kjósendum í Reykjavík sem borgarstjóra.  Hann hefur lifað sína frægðartíð en virðist ekki skynja það sjálfur.  Kjósendur Sjálfstæðisflokksins taka því af skarið með þessum hætti.  Þeir hafa lýst áliti sínu og forystan hlýtur að taka mið af vilja þeirra.  Þetta er réttur þeirra sem varasamt er að hunsa eins og Björn Ingi leggur til.  Afstaða hans er í senn ólýðræðisleg og hrokafull gagnvart kjósendum.  Ég veit ekki um Framsóknarflokkinn, en svona afstöðu vilja vonandi sem fæstir hafa hjá forystumönnum þjóðarinnar. 

Kveðja,

Hreinn Loftsson.

Hreinn Loftsson (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 22:43

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Athyglisverð pæling. Ég veit ekki hvort það er af ásettu ráði sem þú lýsir Framsóknarflokknum sem flokki karlmanna og sérð enga á sviðinu nema unga karlmenn. Miðjuflokkar eins og Framsókn höfða til eldri kjósenda og þeir höfða líka til kvenna. Það gleymist oft að konur eru helmingur kjósenda.  Ég hugsa að flokkur sem rær á sömu mið og Framsókn hefur gert núna í borgarstjórnar- og alþingiskosningum haldi áfram að vera 6 % flokkurinn hér í höfuðborginni. Það getur verið að Sjálfstæðismenn séu ákaflega ánægðir með margt hjá Framsókn og áherslur þar en þeir bara kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Kjósendur Framsóknarflokksins og sóknarfæri Framsóknarflokksins eru þau sem ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 17.5.2007 kl. 21:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband