Ingibjörg Sólrún sagði formannskjör hennar aðeins skipta máli ef það leiddi til sigurs

"Og þá og því aðeins skiptir niðurstaðan í þessu formannskjöri máli, að hún leiði okkur til sigurs í þeim kosningum sem framundan eru. Þar liggur okkar sögulega tækifæri," sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir við flokksmenn Samfylkingarinnar þegar hún hafði sigrað svila sinn Össur Skarphéðinsson í formannskjöri í maí 2005.

Nú liggur dómurinn fyrir. Eftir tveggja ára formannstíð Ingibjargar Sólrúnar er staða Samfylkingarinnar veikari en áður. Stjórnarandstaða hefur ekki skilað flokknum neinu og formennska Ingibjargar Sólrúnar hefur leitt til þess að flokkurinn missti 4,2% fylgi frá kosningunum 2003, þegar Össur Skarphéðinsson sat við stýrið.

Athygli fjölmiðla og pólitískra fréttaskýrenda hefur fyrst og fremst verið á fylgishrun Framsóknarflokksins og þá fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu. Kannski er það eðlilegt en útkoma Samfylkingarinnar á höfuðborgarsvæðinu ætti að vera formanninum sérstakt áhyggjuefni.

Fylgi Samfylkingarinnar minnkaði í öllum kjördæmum en mest í Reykjavík norður þar sem fallið var hvorki meira né minna en 7,1%-stig. Slíkt hrun hefði vakið athygli fjölmiðla og stjórnmálafræðinga.

Greinilegt er af úrslitum kosninganna að Samfylkingin hefur átt mjög í vök að verjast á höfuðborgarsvæðinu, sem hlýtur að vekja upp spurningar um stöðu formannsins, ekki síst vegna bakgrunns hans sem borgarstjóra.

Fylgi Samfylkingar 2003 og 2007
20072003breyting
Reykjavík norður29,236,3-7,1
Reykjavík suður29,033,3-4,3
Suðvestur - kraginn28,432,8-4,4
Norðvestur21,223,2-2,0
Norðaustur20,823,4-2,6
Suðurkjördæmi26,829,7-2,9
Samtals26,831,0-4,2

Þegar Ingibjörg Sólrún tók við formennsku í Samfylkingunni sagði hún meðal annars: "Það er alveg ljóst, af þessum fundi, að kominn er fram á sjónarsviðið stór og öflugur flokkur, sem hefur sýnt samkeppnishæfni sína á hinum pólitíska markaði með eftirminnilegum hætti."

Munu einhverjir innan Samfylkingarinnar muna eftir þessum orðum formannsins?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

...skil aldrei þessa prósentuútreikninga ykkar blaðamanna.....SF fékk um 25 % meira fylgi 2003 en 2007 miðað við þessar tölur....af hverju mínusið þið alltaf bara prósentustigin ?

Jón Sigurðsson (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 16:48

2 Smámynd: TómasHa

Það er hlægilegt að heyra Samfylkingarmenn kalla þetta ótta.  Henni tókst ekki það sem hún ætlaði sér og þegar á það er bent er sagt að þetta sé einhver ótti.

TómasHa, 14.5.2007 kl. 17:49

3 identicon

Þegar ég hef verið að lesa skrif Moggans undanfarnar vikur (undanfarna mánuði er líklega nær sanni) sem og bloggfærslur og komment sjálfstæðismanna um Ingibjörgu Sólrúnu hefur orðið þráhyggja æ oftar komið upp í hugann. Færslan þín er þó málefnanlegri en margar aðrar en samt kveður við gamalkunnan tón.

Af hverju eru Sjálfstæðismenn svona mikið með Ingibjörgu á heilanum, umfram aðra flokksleiðtoga? Af hverju ætli Ólafur Stephensen velji það orðfæri á forsíðu Moggans í dag að tala um „hroka“ Ingibjargar Sólrúnar? Af hverju eru Staksteinar daginn eftir kosningaúrslit helgaðir niðurtali um Ingibjörgu Sólrúnu? Af hverju er Ingibjörg Sólrún eini stjórnmálaleiðtoginn í leiðara Moggans, hverra orða er vitnað til og sagt að þau séu „tóm vitleysa“.?

Ég nefni þetta sem dæmi vegna þess að það sama einkennir orðræðu annarra sjálfstæðismanna sem opna munninn um Ingibjörgu Sólrúnu, hvort sem er í bloggi eða skrifum í blöð, viðtölum í ljósvakamiðlum og svona mætti áfram telja. Það er með ólíkindum hvernig hún er „meðhöndluð“ af Sjálfstæðismönnum, þeir bókstalega hamast á henni með endalausu niðurtali.

Í mínum huga er þessi herferð miklu meira persónuleg heldur en að hún snúist um ólíkar pólitískar áherslur. Hún virðist vera svar við einhverri ógn sem þeir sem þetta stunda virðast telja að stafi af Ingibjörgu en um leið er þetta farið að virka eins og einhver þráhyggjusjúkdómur.

Ég er ein af þessum sem fæddist ekki með flokksgen og hef um ævina kosið hina ýmsu flokka, þar á meðal Sjálfstæðisflokkinn. En hann fær ekki atkvæði mitt meðan ekki tekst að „lækna“ þennan sjúkdóm, og þá einkum vegna þess að mér finnst flokkur sem beitir slíkum meðölum í baráttu við pólitíska andstæðinga lítt aðlaðandi kostur. Það getur vel verið að kynferði mitt móti að einhverju leyti þessa afstöðu mína en ég veit þó um minnst þrjá karla í mínu nánasta umhverfi sem finnst þetta vægast sagt ógeðfelld áróðurstækni og vilja meina að Ingibjörg Sólrún hljóti þessa meðhöndlun vegna þess að hún er kona. Mér finnst margt benda til að þeir hafi mikið til síns máls þar.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 18:28

4 Smámynd: Óli Björn Kárason

Anna: Það er engin einföld skýring á því afhverju margir (ekki allir) sjálfstæðismenn leggja fægð á Ingibjörgu Sólrúnu. Að hluta er skýringanna örugglega að leita til borgarstjórnartíðar hennar, en einng má ekki gleyma hvernig hún hefur sjálf talað um forystumenn Sjálfstæðisflokksins. Viðhorf sömu manna til Össurar er síðan allt annað og jákvæðara, þeim finnst hann skemmtilegur og treysta honum í samstarfi - kannski vegna þess að þeir hafa reynslu af samstarfi við Össur en enga af Ingibjörgu, aðra en þá að glíma við hana í minnihluta borgarstjórnar.

Ég er einn þeirra sem les bloggið þig reglulega og er auðvitað ekki alltaf sammála, en það er málefnalegt og oft eru hlutirnir settir í nýtt samhengi. Haltu áfram.

Andrés: Ég satt að segja skil ekki spurninguna. Hún hlýtur að vera grín.

Óli Björn Kárason, 14.5.2007 kl. 18:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband