5%-reglan er skynsamleg

Talsmenn Íslandshreyfingarinnar hafa farið mikinn frá því að niðurstöður alþingskosninganna lágu fyrir og gagnrýnt harðlega kosningalögin og þá sérstaklega ákvæðið um 5% lágmarks fylgi til að tryggja framboði þingmann.

Gildandi kosningalög eru í grunninn frá árinu 2000, með breytingum frá 2003 og 2006. Reglurnar hafa því öllum verið skýrar, þó flókinn útreikningur jöfnunarsæta sé ofar skilningi okkar flestra.

Það er því merkilegt hvernig Ómar Ragnarsson og félagar hans í Íslandshreyfingunni tala nú eftir kosningar, en ekki varð ég var við umræður um "ólýðræðisleg kosningalög" fyrir kosningar. Var það kannski vegna þess að talsmenn Íslandshreyfingarinnar voru sannfærðir um að þeim tækist að ná vel yfir 5% í kosningum? Hefði svo orðið, myndi Ómar Ragnarsson að líkindum tala með öðrum hætti en nú.

Á bloggi sínu segir Ómar meðal annars:

"Ólýðræðisleg kosningalög rændu þjóðinni því að hún gæti fellt stóriðjustjórnina. Íslandshreyfingin fékk fylgi sem hefði nægt til að koma tveimur mönnum á þing og þar með væri Geir Haarde nú að undirbúa afsögn."

Og nokkru síðar bætir Ómar við:

"Upp úr stendur því að með þeim ákvæðum sem sett voru á vegum stóru flokkanna inn í kosningalögin um 5% prósent lágmarksfylgi á landsvísu var þjóðin rænd því að meirihluti hennar réði, - komið var í veg fyrir að lýðræðið fengi framgang."

Þetta eru stór orð hjá formanni stjórnmálaflokks sem segist ætla að byggja upp sitt starf og halda áfram pólitískri baráttu.

Staðreyndin er auðvitað sú að 5%-reglan er skynsamleg fyrir flesta hluta sakir (þó auðvitað megi deilda um hvort prósentan eigi að vera lægri eða hærri). Ekki veit ég hvort Ómar Ragnarsson vill enga þröskulda eða lækka þann sem fyrir er. Til að vera sjálfum sér samkvæmur hlýtur hann að berjast fyrir fyrrnefndu leiðinni.

Með því að setja þröskuld af þessu tagi er einmitt verið að draga úr möguleikum þess að fram komi ýmis smáframboð og að flokkakerfið splundrist upp í marga smáflokka. Niðurstaðan verður sú að mynda þarf ríkisstjórnir með þátttöku margra flokka, með tilheyrandi eftirgjöf í öllum málaflokkum. Enginn nær sínu fram og úr verður eitthvert moð sem enginn kjósandi vill styðja.

Hitt er síðan rétt að kosningakerfið er langt frá því að vera gallalaust og verst er hve ógegnsætt og tilviljanakennt það er, eins og glögglega kom í ljós nú á laugardaginn. Þá vankanta þarf auðvitað að sníða af um leið og enn ein tilraunin verður gerð til að tryggja jafnvægi milli kjördæma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er sammála því að í örvæntingu hrakfaranna hættir mönnum til að grípa til stórra orða, því stærri sem tapið er meira.  Það er verið að misbjóða lýðræðinu út og suður að þeirra mati.  Rök þeirra eru oftar en ekki þess eðlis að þau virka bara á annan veginn þannig að þeir sem hæst hrópa um svik við lýðræðið, dytti ekki til hugar að láta í sér heyra væru þeir eða þeirra menn í öndverðri stöðu.  Rökin eru því einnota og þar með handónýt. 

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 09:32

2 identicon

Góður pistill og margt sem ég er þér sammála.  Það kemur mér samt töluvert á óvart hvað kerfið virðist gallað og það þarf að laga.  Þótt ég sé Sjálfstæðismaður þá skil ég vel þau sjónarmið að ósanngjarnt er hversu mismikið hver flokkur er að fá á bak við hvern þingmann.  X-F 3300atkvæði pr.mann og xD 2600atkvæði pr.mann ef ég man tölurnar rétt.  Þarna er greinileg skekkja í kerfinu.

Svavar Friðriksson (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 10:28

3 Smámynd: Benedikt Halldórsson

...það er rétt að halda 5% reglunni og ætti alls ekki að lækka þröskuldinn annars hellast yfir okkur grínframboð og framboð fólks sem hefur í raun ekkert fram að færa og framkalla lítið meira en aulahroll eins og nokkur "framboð" til forsetakosninga undanfarinna ára...

Benedikt Halldórsson, 16.5.2007 kl. 11:19

4 identicon

Auðvita á almenningur ekki að ráða hverjir komast á þing. Þessi aðferð er góð: Kjósandi kemur á kjörstað fær athvæðaseðil í lokuðu umslagi og setur umslagið í kjörkassan óopnað, ef að hann spyr um ástæðuna á svarið að vera "Þetta er leynileg kosning"Td. eiga útstrikanir af annarlegum hvötum ekki heldur að hafa áhrif.

Kristján Sig. Kristjánsson (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 11:34

5 Smámynd: Lárus Vilhjálmsson

Blessaður Óli Björn, 

Hvað er skynsamlegt við 5% regluna? Þú talar um að hún dragi úr þeim möguleika að smáframboð komi fram og að flokkakerfið splundrist upp í marga flokka. Er það reyndin þar sem 5% reglan er ekki eins og í flestum löndum Evrópu? Er það til vansa lýðræðinu að á þjóðþinginu heyrist sem flestar raddir? Ef það er svona skynsamlegt að hafa sem fæsta flokka, hversvegna ekki að lögbinda að hafa bara  tvo flokka. Þá er aldrei neitt vandamál við stjórnarmyndun.

Svo er nú nýtt framboð ekkert grín, þótt að ykkur sjálfstæðismönnum finnist það. Það kostar bæði peninga og gríðarlega vinnu. Nýtt framboð fær ekkert forskot eða stuðning eins og þingflokkarnir sem skömmtuðu sér hundruði milljóna fyrr í vetur. Auðvitað ætti engin heilvita maður að fylgja hugsjónum sínum og reyna að hafa áhrif á sitt samfélag. Það er bara óskynsamlegt. 

Lárus Vilhjálmsson, 16.5.2007 kl. 12:31

6 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Sæll Óli Björn,

Ég er ekki hlynntur 5% reglunni því hún þjónar engum tilgangi öðrum en að tryggja stöðu gömlu flokkanna á Alþingi. Að ekki sé talað um aðstöðumun þeirra flokka, sem fá úthlutaðan framboðsstyrk vegna sitjandi þingmanna.

Einnig er ómögulegt að sjá hvers vegna það getur verið slæmt að hrófla við flokkakerfi, eins og því sem við búum við nú, þar sem smáflokkur getur krafið ráðandi flokk um völd langt umfram umboð kjósenda, eins og ríkisstjórn D/B hefur verið og stefnir í að verði áfram.

Ekki óttast ég skæðadrífu framboða, sem illa gætu sætt sín málefni. Það er ekki eins auðvelt og margir halda að komast á þing, þótt 5% reglan verði afnumin.

Ef bjóða á fram á landsvísu þarf 126 manns á framboðslista, 2000 stuðningsyfirlýsingar, tíma og peninga til að standa í kosningabaráttu og uþb 3000 atkvæði til að fá eitt jöfnunarþingsæti.

Ef bjóða á fram í einu kjördæmi þarf 18 til 24 á framboðslista eftir því í hvaða kjördæmi framboðið er, 600 til 800 stuðningsyfirlýsingar, tíma og peninga til að standa í kosningabaráttu og uþb 2000 til 4000 atkvæði til að fá kjördæmakjörið þingsæti.

Eins og staðan er nú, þá geta 4,99% kjósenda greitt atkvæði án þess að þau skili sér til þingsætis vegna eins framboðs á landsvísu. Fái framboðið, hins vegar, 5% atkvæða, þá fær það þrjú þingsæti.

Ef 5% reglan er afnumin þarf minnst fjögur framboð á landsvísu með innan við 1,5% atkvæða til að jafn mörg atkvæði skili sér ekki til þingsætis. Fái einhver af þessum framboðum 1,6% atkvæða, þá skilar það sér í einu þingsæti fyrir hvert.

Ég tók saman nokkur orð um niðurstöður kosninganna í eftirfarandi pistli, "D'Hondt kerfið, 5% reglan og jöfnunarsætin", til að skoða niðurstöður nýliðinna kosninga eftir mismunandi úthlutunarreglum, með og án 5% reglunnar.

Kveðja,

Sigurður Ingi Jónsson, 16.5.2007 kl. 13:18

7 identicon

Þessi 5% regla endurspeglar fátt annað en þá skoðun að það þurfi að hafa vit fyrir fólki, enda sé því ekki treystandi til fulls. Ef það eru raunveruleg rök í málinu að þetta sé gert til að hindra grínframboð, já eða að forða flokkakerfinu frá því að tvístrast upp í smáflokka, er útilokað annað en að gera að ráð fyrir því að fólk vilji hafa það þannig og það beri að koma í veg fyrir. Er vit í því út frá sjónarmiðum lýðræðis?

Ólafur Eiríksson (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 14:47

8 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Mér skilst á þér Óli Björn að prinsippið sé að hafa einhver mörk en ekki í sjálfu sér hver þau eru. Þá er að finna einhverja reglu sem hægt er að hafa þannig að geðþóttinn einn ráði því ekki eins og 5-prósentunum. það eru nefnilega engin sérstök rök fyrir því að hafa 5%, mörkin gætu alveg eins verið 10% ef almennu rök þín fyrir mörkum eru gild. - Nú eru þingmenn 63. Liggur þá ekki beint við að fái flokkur 1/63 atkvæða þá beri honum a.m.k. eitt þingsæti? Það er lógík í því.

Pétur Tyrfingsson, 16.5.2007 kl. 15:09

9 identicon

Gallinn við 5% regluna er sú að hún er sett til að komast hjá huglægu (eða heimspekilegu) vandamáli áður en það verður að raunverulegu vandamáli. Forræðishyggja.

Jósep Húnfjörð (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 18:31

10 Smámynd: Báran

Nú er þessi regla svo til nýkomin, ekki bjó Frjálslyndi flokkurinn við þessa reglu, manni gæti dottið í hug að þeir flokkar sem nú ríkja hafi séð ógnanir í hugsanlegum framboðum sem gætu litið dagsins ljós.  Tek undir forræðishyggju, skrýtna við það er að hún virðist koma úr öfugri átt!  Nú eru prósentureglur á Norðurlöndum hvergi svona háar, hvers vegna er verið að miða sig við Þýskaland? Svo er ekki rétt að Íslandshreyfingin hafi ekki bent á óréttlæti reglunnar fyrir kosningar. 

Báran, 16.5.2007 kl. 18:51

11 identicon

Þegar Frjálslyndir buðu fram í fyrsta sinn var sú regla að flokkar þurftu að fá kjördæmakjörinn mann til að eiga rétt á uppbótarmönnum eins og þessir menn hétu þá. Það tókst þeim á Vestfjörðum þar sem persónufylgi Guðjóns Arnar dróg Sverri Hermannsson inn á þing.

Baldur (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 19:29

12 Smámynd: Sigurpáll Ingibergsson

Á Alþingi ekki að endurspegla þjóðina. Ef við viljum það, þá verður að fjarlægja alla þröskulda. Oft þarf lítil framboð til að koma málum af stað. Gott dæmi er Kvennalistinn.

Svo má benda á það að smáframboð koma ekki alltaf mönnum að. Nýtt afl hefði ekki komið manni að í síðustu kosningum með rúmt prósenta fylgi. 

Síðasta kosninganótt var farsakennd. Skemmtileg en við eigum ekki að þurfa að leika okkur að lýðræðinu. Nóg er til af íþróttakappleikjum til þess arna.

Ísland eitt kjördæmi. 

Sigurpáll Ingibergsson, 16.5.2007 kl. 19:44

13 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Það er í raun ekkert sem bendir til þess að tveggja flokka kerfi séu árangursríkari en fjölflokkakerfi eða fárra flokka kerfi sé árangursríkara en margra flokka kerfi. T.d. er engu meiri hagsæld eða hagvöxtur í Bretlandi en Danmörku, hvorki yfir lengri eð skemmri tíma, þar er heldur ekki meira félagslegt réllæti, betra heilbrigðiskerfi eða meira lýðræði - nema síður sé.

Það hinsvegar einfaldar ríkjandi valdahópum lífið ef nýjum röddum er gert erfitt um vik eins og reyndar fákkeppni á markaði gerir - annað ekki. Háir þröskulda þjóna engum öðrum tilgangi en að hindra að "óviðkomandi" trufli valdherrana og stöðu þeirra á kjósendamarkaði, þeir skerða lýðræði og tryggja valdhafa betur í sessi - en hindra nýjar raddir og aðhald nýjunganna sem í það minnsta á markaði eru talin mikilvægustu öflin til framfara.

Helgi Jóhann Hauksson, 16.5.2007 kl. 21:07

14 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Ég verð nú bara að varpa fram þeirri skoðun minni að útreikningur jöfnunarsæta er í sjálfu sér tiltölulega einfaldur ef menn nenna að skoða reikniregluna á bakvið það. Held hins vegar að afar fáir nenni því og þess vegna komi setningar eins og "flókinn útreikningur jöfnunarsæta sem er ofar skilningi okkar flestra".

Ragnar Bjarnason, 16.5.2007 kl. 21:34

15 identicon

Ekki skrítið að Sjálfstæðismaðurinn er ánægður með hlutina.. það var jú þinn flokkur sem græddi mest. EN... ef farið verður í áframhaldandi ríkisstjórn með Framsókn þá er komið nóg. Þá eru þið farnir að misbjóða lýðræðinu svo allsvakalega að ekki verður fram hjá því horfið. Allt stefnir í að svo verði og því munu raddir um breytta kosningalöggjöf - Einn maður - Eitt atkvæði og færum 5% niður í 2% eins og þekkist víða erlendis.

Björg F (IP-tala skráð) 17.5.2007 kl. 01:33

16 identicon

...verða háværari (Framhald frá síðustu athugasemd )

Björg F (IP-tala skráð) 17.5.2007 kl. 01:34

17 Smámynd: Kallaðu mig Komment

Það er gott að sjá talað af skynsemi um 5% regluna. Það gleymist nefnilega stundum að lýðræði er fyrst og fremst aðferð til að mynda starfhæfan meirihluta.

Kallaðu mig Komment, 17.5.2007 kl. 01:35

18 Smámynd: Ingi Björn Sigurðsson

Ég er  á því að þessi 5% regla sé langt frá því að vera skynsamleg, hún er of há. Mig minnir að rökin fyrir henni hafi verið til þess að draga úr staðbundum framboðum. Þar að segja að flokkur Vestfirðinga ætti ekki möguleika að sölsa undir sig flestum þingsætum í Norðvesturkjördæmi án þess að bjóða fram í öðrum kjördæmum og fá samtals 5% á landsvísu. Í öðru lagi þá var þessi þröskuldur komin á vegna stærðar höfuðborgarkjördæmanna. Erlendis hefur þetta verið tekið upp til að fækka flokkum á þingi. Ég tel að þau rök eigi ekki við hér vegna þess að það hafa nú ekki verið sérstaklega margir flokkar á þingi miðað við annars staðar.

Þó það sé hægt að færa rök fyrir því að koma í veg fyrir áhrif staðbundina framboða þá held ég að 5% mörkin séu of há. Einfaldlega vegna þess að við erum með frekar fá þingmenn miðað við annars staðar sem slíkum þröskuldi er notast við. Ef landið væri eittkjördæmi og allir með jafnan kosningarétt þá ætti vera 1,6% atkvæða á bakvið hvern þingmann. Án þröskulda þá þyrfti 1,6% atkvæða til að koma manni inn á þing. Það væri einnig hægt að fækka þingmönnum til að hækka atkvæðamagn á bakvið hvern þingmann. Þannig væri hægt að fækka þingmönnum niður í 33 til að hafa 3% þröskuld og 21 til að hafa um það bil 5% þröskuld. Reyndar finnst mér það alveg skoðandi að fækka þingmönnum og í leiðinni aðskilja framkvæmdarvald frá löggjafarvaldinu. Ráðherrar kalla inn varamenn þegar þeir setjast inn á þing. 

Það verður einnig skoða þennan 5% reglu út frá þeirri staðreynd að sitjandi stjórnmálaflokkar eru orðnir ríkisreknir. Fjármagnaðir af ríkinu. Í rauninni ætti það að vera nóg til að skekkja samkeppni nýrra framboða. Ríkisstyrkt kosningabarátta á meðan ný framboð þurfa að lúta mjög ströngum fjármögnunar reglum. Hvernig í ósköpunum tókst Íslandshryfingunni að fjármagna allar þessar auglýsingar? 

Þessi þröskuldur hefur fælinga áhrif fyrir kjósendur. Það hvarlaði ekki að mér persónulega að kjósa íslandshreyfinguna, þrátt fyrir að vera kannski mest sammála stefnu hennar, vegna þessa þröskuldar. Það var ljóst við fyrstu skoðana könnun að hún væri andvana fædd vegna þessa þröskuldar.

Það getur ekki verið jákvædd að takmarka mjög aðgang nýrra flokka að löggjafarsamkomunni. Annars verður ekki heilbrigð endurnýjun. Þvílíka fífldirfsku þarf fyrir næstu kosningar að bjóða fram nýjan flokk. Nánast eins og að kasta penningum útum gluggan. 

Ég legg til að mörgin verði færð í 3% eða þingmönnum fækkað niður í 33. Ef þröskuldurinn verður færður niður í 3% þá verða flokkar að fá að minnsta kosti tvo kjörna þingmenn. Eða fækka þingmönnum niður í 33 og ráðherrar segi af sér þingmennsku. 3% mörkin eru geranleg fyrir ný framboð og tryggir nýliðun.

Þar fyrir utan þá þarf að gera landið að einu kjördæmi. 

Ingi Björn Sigurðsson, 17.5.2007 kl. 07:13

19 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Á tímabili á dögunum voru Frjálslyndi flokkurinn og Íslandshreyfingin að dansa í kringum 5% línuna í skoðanakönnunum. Frjálslyndi flokkurinn fór einu sinni niður fyrir hana en komst upp fyrir hana aftur og slapp því við þann vítahring sem felst í því að fólk fari að óttast um dauð atkvæði sín þegar fylgið fer oftar en einu sinni niður fyrir 5%.

5% reglan getur þannig augljóslega skapað þá hættu að tvö framboð með tæplega 5% fylgi hvort um sig detti út en það myndi þýða að fylgi sem samanlagt væri álíka mikið og hjá VG í kosningunum 2003 dytti út.

Það getur varla talist lýðræðislegt að allt að 15 þúsund atkvæði með fylgi upp á allt að fimm þingmenn geti dottið út. Jafnvel fleiri ef þessir litlu flokkar eru fleiri.

Þegar 5% reglan var sett var minna ójafnræði milli nýrra og gamalla framboða en nú er. Nú eru flokkarnir sem sitja á þingi búnir að úthluta sér 360 milljónum króna úr sameiginlegum sjóðum landsmanna og þar að auki settu þeir 300 þúsund króna þak á fjárframlög fyrirtækja til flokkanna.

Þetta þak bitnaði á Íslandshreyfingunni vegna þess að fyrirtækin settu sér þetta mark líka gagnvart henni þótt hún fengi ekki krónu frá hinu opinbera.

Hér að framan talaði einn bloggara um "grínframboð" sem allt myndi fyllast ef prósentutalan yrði færð niður. Ekki virðast hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa áhyggjur af þessu og ef menn halda að það sé hægt að fá 126 manns í öllum kjördæmum til að skrifa undir yfirlýsingu um það að setjast á framboðslista bara upp á grín þá er því alveg öfugt farið.

Fólk tekur slíkt mjög alvarlega og er tregt til að láta bendla sig við pólitík. Það leiðir hugann að því hve miklu óorði er búið að koma á pólitíkina.

Slíkt gerir enginn upp á grín né heldur að gangast í milljóna króna ábyrgðir til að hrinda lágmarksframboði af stað. Það gerist heldur ekki upp á grín að safna hátt á þriðja þúsund meðmælendum fyrir framboði á landsvísu.

Allt þetta máttu baráttusamtökin reyna og þrátt fyrir margra mánaða undirbúning og fjölmenna fundi gáfust þau upp. Þar á bæ vissu menn líka að útilokað er að fara af stað með framboð við ríkjandi aðstæður með minni fjárreiður en 20 milljónir króna en þar af fer minnst helmingurinn bara í það allra nauðsynlegasta án þess að neitt sé auglýst.

Ómar Ragnarsson, 18.5.2007 kl. 14:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband