Verkefni nýrrar ríkisstjórnar

Líklega getur fátt komið í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking myndi nýja ríkisstjórn á næstu dögum.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er í samræmi við það sem ég taldi líklegt daginn eftir kosningar:

"Ég fæ ekki annað séð en að í raun séu aðeins tveir möguleikar við myndun nýrrar ríkisstjórnar. Annað hvort myndar Sjálfstæðisflokkurinn ríkisstjórn með Samfylkingu eða að Framsókn taki höndum saman við vinstri græna og Samfylkingu. Tölfræðilega er auðvitað hægt að hugsa sér að vinstri grænir og sjálfstæðismenn gangi til sængur, en slík ríkisstjórn yrði varla möguleg án þess að báðir flokkar gæfu eftir og vinstri grænir í stóðiðjumálum sérstaklega."

Ekki eru allir sjálfstæðismenn á því að hefja samstarf við Samfylkinguna, eins og ég benti á í pistli síðastliðinn mánudag. Enginn þingmaður sjálfstæðismanna mun hins vegar setja sig upp á móti formanni flokksins, þvert á móti muna allir styðja hann við myndun nýrrar ríkisstjórnar, raunar hvaða ríkisstjórnar sem er.

Eins og flestir, bíð ég spenntur eftir því að sjá málefnasamning nýrrar ríkisstjórnar Geirs H. Haarde. Verkefnin sem bíða eru mikilvæg og ef ríkisstjórnin ætlar sér að ná þeim fram, verður hún að hefjast handa á fyrstu 18 mánuðum kjörtímabilsins.

Ég bíð og vona að eftirtalin verkefni verði í málefnaskránni:

1. Landbúnaðarmál. Hafist verði handa við að innleiða samkeppni í landbúnaði og innflutningur gefinn frjáls í ákveðnum skrefum á næstu fjórum árum.

2. Samgöngu- og fjarskiptamál: Gert verði stórátak í samgöngumálum til að tryggja öruggar samgöngur milli landshluta. Allir aðalþjóðvegir landsins verði breikkaðir og allar brýr verði tvíbreiðar. Ný samgönguáætlun kynnt til átta ára þar sem verkinu er hrint í framkvæmt. Fjarskipti verði tryggð á landinu öllu og öll íbúðarhús í sveitum og þéttbýli verði nettengd á næstu fimm árum. Líklega mun fátt efla samkeppnisstöðu landsbyggðarinnar en góðar samgöngur og góð fjarskipti.

3. Uppskurður í heilbrigðiskerfinu: Einkarekstur verði hafinn til vegs og virðingar í heilbrigðiskerfinu með sama glæsilega hætti og gert hefur verið á undanförnum árum í íslenska háskólasamfélaginu.

4. Greiðum skuldina: Gæti verið yfirskrift í átaki til að bæta kjör aldraðra. Stór hluti þeirra sem nú hafa látið af störfum, er án lífeyrisréttinda, (ólíkt þeim kynslóðum sem koma á eftir), þetta tímabundna ástand verður að brúa og tryggja öllum viðunandi ævilífeyri. Með kerfisbreytingu í heilbrigðismálum og í samstarfi við sveitarfélög og einkaaðila er hægt á örskömmum tíma og tryggja öllum öldruðum það húsnæði og þjónustu, sem þeim er nauðsynleg.

5. Álver við Húsavík: Niðurstaða fáist strax hvort álver verði reist við Húsavík.

6. Skattar á fyrirtæki verði lækkaðir í 15% vegna ársins 2008.

7. Tekjuskattur einstaklinga verði lækkaður um 1% á hverju ári út kjörtímabilið.

8. Virðisaukaskattur á matvæli felldur niður fyrir lok árs 2009.

Og að lokum verða Ingibjörg Sólrún og Geir H. Haarde að gefa út eftirfarandi loforð:

Systurnar, Óstjórn og Óráðsía, fá ekki sæti í ríkisstjórninni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óli Björn Kárason

Erlingur: Mér dettur ekki í huga að mótmæla þér.

Óli Björn Kárason, 18.5.2007 kl. 09:41

2 identicon

Varðandi atriði nr. 2. samgöngu og fjarskiptamál.  Það væri nú ekki mikill metnaður fólginn í því að tryggja nettengingar á næstu fimm árum! Þetta er eitt af því sem búið er að koma í framkvæmd og áætlað er að ljúka á næsta ári og engin ástæða til þess að bíða í fimm ár! Ennfremur er að ljúka gsm væðingu á þjóðvegum og útsedingar RUV um gervihnött eru hafnar.  

Það má lesa allt um fjarskiptin hér, http://www.sturla.is/default.asp?sid_id=6495&tid=99&fre_Id=56634&Tre_Rod=002| og svo til gamans má sjá með mjög skýrum hætti helstu áform í samgönguáætlun hér http://samgonguraduneyti.is/media/samgongu-aaetlun/Samgonguaatlun_2007-2010.pdf

 

Kristrún Lind (IP-tala skráð) 19.5.2007 kl. 14:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband