Vandi Geirs H. Haarde

Fátt virðist geta komið í veg fyrir að Geir H. Haarde myndi nýja ríkisstjórn með Samfylkingunni. Þegar horft er á sögu stjórnmála hér á landi, er það pólitískt afrek að tryggja flokki ríkisstjórnarþátttöku í 20 ár og vera alltaf í forystusætinu, fyrir utan nokkra mánuði.

Sjálfstæðismenn hafa í flestu verið hreiknir af sögunni og fáar ríkisstjórnir sjá þeir í meiri ljóma en samsteypu Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks - Viðreisn. Það var því við hæfi að stjórn sömu flokka undir forsæti Davíðs Oddssonar fengi einnig nafn; Viðeyjarstjórn.

Nú virðist vera búið að gefa væntanlegri ríkisstjórn Sjálfstæðismanna og Samfylkingar nafn. Baugsstjórnin skal hún nefnd og er þá vísað til þess að Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs hvatti til myndun slíkrar stjórnar í blaðagrein í DV fyrir kosningar.

Mér sýnist að þeir framsóknarmenn, sem nú sleikja sárin eftir kosningar, séu einna duglegastir við nafngiftina. Þannig hafði mbl.is eftir Jóni Sigurðssyni, formanni Framsóknarflokksins: "Ég stend við það, að Baugsstjórnin er að verða að veruleika."

Á heimasíðu Framsóknarflokksins tekur Jón raunar enn sterkar til orða og segir:

"Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar er óskabarn eigenda eins stærsta auðfélags landsins, svo sem berlega kom fram í sérblaði DV sem gefið var út í kosningavikunni Framsóknarflokknum til ófrægingar. Ef þessi nýja ríkisstjórn kemst á koppinn verður hún trúlega kennd við foreldri sitt og nefnd Baugsstjórnin."

Jón tekur síðan fram í niðurlagi pistilsins "að Framsóknarmenn hafa vel getað hugsað sér að benda á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til að leiða viðræður við aðra núverandi stjórnarandstæðinga og Framsóknarmenn, ef slíkur stjórnarmyndunarkostur kemur yfirleitt til greina af hálfu Samfylkingarinnar".

Vandi Geirs H. Haarde, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins er því greinilega tvíþættur. Annars vegar er samningsstaða hans ekki jafn sterk og hefði mátt ætla fyrirfram gagnvart Samfylkingunni og hins vegar er erfitt að leggja upp með nýja ríkisstjórn sem þegar hefur fengið nafn sem greinilega á að gera neikvætt.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Egilson

Það er óþarfi á þessari stundu að gera of mikið úr viðbrögðum Jóns, Guðna og Steingríms -þetta eru keppnismenn og svíður auðvitað tapið. Þeir jafna sig.

Það er hins vegar óneitanlegt að með seint fram komnu tilboði xV og xB til ISG (miðað við undangengin brigzlyrði milli xV og xB) hafa þeir styrkt stöðu Samfylkingarinnar í viðræðunum við Sjálfstæðisflokkinn.

Hitt, hvort nafnið færð einhverja merkingu, ræðst af framhaldinu og verkum ríkisstjórnarinnar, komist hún á koppinn. Valdi þetta vandræðum fyrir Geir ætti hann að fá sér aðra vinnu.

Þorsteinn Egilson, 18.5.2007 kl. 17:22

2 identicon

En var það ekki þannig að 365 seldi nýlega DV þ.e. að DV sé ekki í eigu Baugs lengur

Egill Almar (IP-tala skráð) 18.5.2007 kl. 17:29

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Össur og Ingibjörg lofuðu að fyrsta verk þeirra í nýrri ríkisstjórn yrði að taka Ísland af lista yfir viljugar og stríðsfúsar þjóðir.  Þetta er sanngirniskrafa sem sjálfstæðismenn geta ekki staðið gegn.  Ég býst við að Framsóknarflokkurinn myndi hverfaþví menn myndu sjá að Samfylkingin hefði jákvæðari áhrif á Sjálfstæðisflokkinn en Framsókn.

Sigurður Þórðarson, 18.5.2007 kl. 22:51

4 Smámynd: Kallaðu mig Komment

Sigurður: Þeim mun meira spennandi verður að sjá, hver verður næsta utanríkisráðherra.

Kallaðu mig Komment, 19.5.2007 kl. 00:04

5 identicon

Ég held að Geir standi þetta allt af sér. Mér sýnist fátt geta komið honum úr jafnvægi. En Óli Björn - voða varstu karllægur í samkvæmisleiknum í Kastljósinu  Heldurðu virkilega að Sjálfstæðismenn verði svona sparir á konurnar í ráðherrastóla?

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 19.5.2007 kl. 00:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband