Föstudagur, 25. maí 2007
Palladómar: Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins
Geir H. Haarde: Líður greinilega vel sem forsætisráðherra og hefur náð miklum vinsældum meðal þjóðarinnar. Þykir traustur og alþýðlegur í allri framkomu. Hann mun sinna sínum störfum með sama hætti og áður.
Poul Schlüter, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, sagði einhverju sinni að helsta og mikilvægasta verkefni hvers forsætisráðherra væri að standa þétt við bakið á fjármálaráðherranum, sem væri í stöðugri glímu við aðra ráðherra ríkisstjórna um aukið fjármagn. Það mun reyna á Geir H. Haarde í þessum efnum á komandi mánuðum og misserum.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir: Guðmóðir ríkisstjórnarinnar mun halda sínu striki. Engar breytingar en örugglega mun meiri fjármunum verða veitt til lista og menningar.
Björn Bjarnason: Engar breytingar verða í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Hann mun halda áfram með sín verkefni af stefnufestu. Björn er líklega mesti efasemdamaðurinn um ágæti meirihlutasamstarfsins við Samfylkinguna.
Árni M. Mathíesen: Það mun reyna enn meira á fjármálaráðherra á komandi kjörtímabili en áður. Ný ríkisstjórn hefur löngun til þess að koma öllum "góðum málum" fram og loforðalistinn er nokkuð langur. Árni þarf að stíga fast á bremsuna og tryggja að stjórn ríkisfjármála gangi ekki gegn stöðugleika þannig að Seðlabankinn neyðist til að halda fram ofur-vaxtastefnu sinni, sem mun fyrr eða síðar draga allan þrótt úr atvinnulífinu.
Einar K. Guðfinnsson: Bætir við sig landbúnaðarráðuneytinu og þar verða engar kollsteypur. Íhaldssemi mun einkenna störf hans sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Aðilar í sjávarútvegi anda léttar en þó ekki síður flestir í landbúnaði. Því miður verður ekki tekist á við vandann í landbúnaðinum, enda greinilega ekki vilji til þess í nýrri ríkisstjórn.
Guðlaugur Þór Þórðarson: Eini nýi ráðherra sjálfstæðismanna. Verkefnið er erfitt og verður gaman að fylgjast með hvernig hann tekst á við flókin verk. Mun örugglega leggja aukna áherslu á forvarnir og sækir þá ekki síst ráð til eiginkonu sinnar, en mun reyna að opna á frekari einkarekstur innan heilbrigðiskerfisins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég vil leyfa mér að koma með eina athugasemd við annars góða greiningu. Ég held að Björn muni fá sendiherrastöðu í Washington eða hjá Sameinuðu þjóðunum í síðasta lagi um mitt kjörtímabil. Þorgerður mun þá færast yfir í dómsmálaráðuneytið og Guðfinna Bjarnadóttir taka við menntamálunum. Það fer ekkert á milli mála að staða Björns innan Sjálfstæðisflokksins veiktist mikið við útstrikanirnar og það mun koma fram í einhvers konar "vanlíðan" hans í starfi. Það getur líka verið að hann hætti fljótlega af "heilsufarsástæðum".
Marinó G. Njálsson, 25.5.2007 kl. 23:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.