Fjölmiðlar segja ekki alla söguna í umhverfismálum

Fjölmiðlar hafa á síðustu árum verið mjög uppteknir af umhverfismálum, en því miður virðast sem þeir hafi hvorki getu né vilja til að greina frá öllu er skiptir máli. Sumt hentar ekki staðlaðri stefnu fjölmiðlanna.

Fyrir tveimur árum þögðu fjölmiðlar fremur þunnu hljóði þegar íslenskir vísindamenn komust að því að ýmislegt benti til að votlendi sem ræst hefur verið fram spúi margfalt meiri koltvísýringi en allur bílafloti landsmanna.

Ólafur Teitur Guðnason blaðamaður Viðskiptablaðsins vekur athygli á þessari staðreynd í vikulegum pistli sínum um fjölmiðla í blaði sínu í dag. Fyrir þá sem vilja fylgjast með þjóðfélagsumræðu og telja nauðsynlegt að veita fjölmiðlum - ekki síður en stjórnvöldum aðhald - er lestur fjölmiðlapistla Ólafs Teits í Viðskiptablaðinu skyldulesning. (Pistlarnir birtast á hverjum föstudegi).

Rannsóknir íslensku vísindamannanna leiddu í ljós að losun koltvísýrings vegna þess að við höfum ræst fram votlendi geti verið allt að tvisvar sinnum meira en öll önnur losun okkar Íslendinga. Niðurstöðurnar vöktu hins vegar litla athygli, þrátt fyrir hinn mikla áhuga á umhverfismálum og þrátt fyrir að áhyggjur af hlýnun jarðar hafi aldrei verið meiri.

Viðskiptablaðið fjallaði um málið fyrir viku enda ekki margir sem höfðu heyrt af þessum merku niðurstöðum en Ólafur Teitur segir að "umfjöllunin hafi átt vel við á þessum tíma þegar hafin er mjög áberandi herferð sem felst í því að fólk og fyrirtæki kolefnisjafni bíla sína með því að láta fé af hendi rakna til skógræktar".

Síðan segir Ólafur Teitur:

"Allir skógar á Íslandi binda  um það bil 50-60 þúsund tonn af koltvísýringi á ári. Hvers vegna er ekkert um það fjallað að skrúfa megi fyrir ríflega hundrað sinnum meira magn, það er allt að 7 milljónum tonna, og það í eitt skipti fyrir öll, með því að endurheimta votlendi?

Sagt er að það dugi að kaupa fáein tré til að kolefnisjafna fólksbíl í eitt ár en ekki fylgir sögunni að það tekur þessi tré marga áratugi að kolefnisjafna eins árs notkun á bílnum. Sá sem kolefnisjafnar bílinn sinn með þessum hætti núna verður þess vegna í raun ekki búinn að bæta fyrir aksturinn árið 2007 fyrr en eftir fimmtíu, sextíu eða sjötíu ár, þótt vissulega hafi hann gert ráðstafanir núna til þess að svo megi verða. Hvers vegan vekur það enga athygli að hugsanlega megi með einfaldari og ódýrari hætti kolefnisjafna bílanotkun einstaklings út alla ævina með því að moka ofan í nokkra skurði?"

En afhverju vekja jafnmerkilegar rannsóknir ekki meiri athygli en raun ber vitni, ekki síst þegar fjölmiðlar og stjórnmálamenn keppast við að sýna og sanna að þeir sér grænir - séu hliðhollir umhverfinu? Ólaftur Teitur veltir fyrir sér svarinu:

"Getur verið að svörin við þessu tengist því að fjölmiðlum - og hugsanlega öðrum þeim sem duglegastir eru við að vekja athygli á ógninni af hlýnun andrúmsloftsins - sé ekki fyrst og fremst umhugað um að draga úr losun koltvísýrings heldur leggi þeir fyrst og fremst upp úr því að berjast gegn stórfyrirtækjum, iðnaðarsamfélaginu, nútímalegum lífsháttum, „neyslukapphlaupinu" og öðrum helstu meinsemdum mannlegs samfélags? Sú ályktun er í það minnsta nærtæk. Og nóg hafa sumir þessara aðila fjárfest í þeirri kenningu á undanförnum árum með síendurteknum yfirlýsingum að eina leiðin til að bjarga mannkyninu frá glötun sé að „við ríku þjóðirnar" hverfum af braut hömlulausrar neyslu og eftirsóknar eftir vindi."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Takk fyrir að vekja máls á þessu. Það er alveg ótrúlegt hvað margt fer algerlega fram hjá fjölmiðlunum í þessari umhverfisumræðu og svo þegar það kemur úr munni náttúru- og umhverfisverndarsinna að þá er allt dæmt sem öfgakennt. Ég skil ekki að það sé öfgakenndur málflutningur að benda á það að hin svokallaða og rangnefnda "græna orka" er sko alls ekki græn ... málið er bara þannig að almenningur og margir vísindamenn vita enn ekki afleiðingarnar af því að virkja með stórum vatnsaflsvirkjunum sem eru stórmengandi vegna metangass og gasuppgufunar úr lónum því allt undir þeim er að rotna. Þessar gastegundir eru hins vegar ekki mældar ennþá - ekki teknar með í reikninginn, þegar verið er að bera saman rafmagn sem framleiðist á þennan hátt eða einhvern annan hátt og koma þær því vel út í samanburðinum ennþá því tölurnar á þessum mengandi gastegundum eru ekki teknar með í reikninginn.

Einnig virðist það ætla að fá litla umfjöllun sem hefur þó sannast á síðustu árum að fiskistofnar stórminnka við það að jökulár eru virkjaðar... verið er að gera frekari rannsóknir á þessu hérlendis - en hafa verið gerðar erlendis, eins og í Kína þar sem fiskistofnar hrundu í kjölfarið á virkjun risastóru stíflunnar þar. Þetta gerist vegna þess að jökulár bera með sér ýmis steinefni til sjávar sem verða til þess að æti á grunnsævi verður til og er á þeim stöðum þar sem fiskistofnar velja að hrygna. Þegar þeir hætta að finna æti á þessum stöðum vegna þess að flæði steinefna til sjávar hefur verið stöðvað/skert, þá færa þeir sig um set og hætta að hrygna þar sem veldur því að stofnarnir annað hvort hrynja/minnka eða færast annað. Ef allar eða flestar jökulár Íslands verða virkjaðar verður lítið um slík svæði fyrir stofnana og má því áætla að stofnar hér í kringum landið munu hrynja á næstu árum og áratugum. Allar þessar staðreyndir fá litla sem enga umfjöllun þrátt fyrir mikilvægi þeirra í umræðunni. Þær segja okkur líka það að það er sko alls ekki græn orka sem er framleidd hér á landi.  Hún er stórmengandi og hefur gífurlegar afleiðingar á lífríki sjávar sem í framtíðinni mun þekkjast betur og verður að taka með í reikninginn.

Getur þú sett link inn á þessa íslensku rannsókn sem þú ert að nefna hér að ofan? 

Andrea J. Ólafsdóttir, 3.6.2007 kl. 17:18

2 Smámynd: Gústaf Níelsson

Ólafur Teitir hittir hér naglann beint á höfuðið, eins og svo oft áður. Sé raunveruleg náttúruvá fyrir dyrum eru vinstri sósíalistar þeir sem síst ættu að koma að lausn vandans. Þeir hafa aldrei getað leyst neinn vanda, hvorki fyrr né síðar.

Gústaf Níelsson, 3.6.2007 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband