Tilboð Björgólfs Thors hefur lækkað

Novator - fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar stjórnarformanns Actavis - hefur lagt fram formlegt yfirtökutilboð í félagið. Tilboðið er enn óhagstæðara en þegar óformlegt tilboð var sett fram í maí. Björgólfur býðst til að kaupa þau hlutabréf sem eru ekki í hans eigu eða tengdra félaga á 0,98 evrur á hlut sem er langt undir síðasta viðskiptagengi.

Það vekur furðu að Björgólfur Thor skuli leggja fram formlegt yfirtökutilboð á þessum tíma og miða við evrur, en krónan hefur hækkað töluvert frá 9. maí. Þann dag voru tæpar 87 krónur í einni evru en í dag eru þær "aðeins" tæpar 83 krónur.

Ég hélt því fram að Björgólfur Thor væri að líkindum tilbúinn til að greiða nokkru hærra verð fyrir Actavis, en tilboðið gaf til kynna. Greinilegt er að ég hafði rangt fyrir mér. Björgólfur Thor hefur þvert á móti lækkað verðið töluvert. Miðað við miðgengi evru nú í morgun er tilboðið 4,7% lægra en í maí, þrátt fyrir að gengi bréfa Actavis hafi hækkað.

Í tilkynningu til Kauphallar segir Actavis að tilboðið sé lagt fram í evrum:

"Tilboðið er lagt fram í evrum og hljóðar upp á 0,98 evrur á hlut í reiðufé (sem jafngildir 85,23 krónum á hlut, miðað við opinbert viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands þann 9. maí sl.)."

Þegar þetta er skrifað er hagstæðasta kauptilboðið í bréf Actavis 84 krónur á hlut. Sé miðað við miðgengi Seðlabankans er tilboð Björgólfs Thors 81,25 krónur á hvern hlut.

Það hlýtur að vekja nokkra furðu meðal hluthafa Actavis að Björgólfur Thor skuli leggja fram formlegt yfirtökutilboð á þeim nótum sem gert hefur verið. Varla geta hluthafar verið mjög ánægðir með tilboðið og erfitt er að sjá að þeir telji hag í því að fallast á tilboðið.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að óháður aðili hafi verið tilnefndur til að gera faglegt mat á tilboðinu (en ekki sagt hver það er) og á grundvelli þess muni stjórn félagsins gera tillögu til hluthafa. Því er beint til hluthafa að halda að sér höndum þangað til stjórn gefur út sitt álit eigi síðar en 8. júní næstkomandi. 

Björgólfur Thor og Andri Sveinsson, starfsmaður Novator, sitja í stjórn Actavis en þeir munu ekki taka þátt í umsögn stjórnar. Hins vegar sitja nánir samverkamenn Björgólfs Thors í stjórninni. Sindri Sindrason, Magnús Þorsteinsson stjórnarformaður hf. Eimskipafélags Íslands og Baldur Guðnason forstjóri félagsins. Í ljósi náinna fjárhagslegra tengsla þessara manna við Björgólf Thor væri skynsamlegt að þeir segðu sig einnig frá málinu. 


mbl.is Novator gerir tilboð í allt hlutafé í Actavis Group
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Upprunalega tilboðið var jafn hátt og núna,  0,98 Evrur. Hinsvegar hefur íslenska krónan styrkst.   

Bjarni (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 12:56

2 identicon

Hlægilegt að þessi stjórn eigi að meta þetta tilboð, allir þessir menn hanga í pilsfaldinum hjá Björgólfi.  Ef þessi alþjóðlegi fjárfestingarbanki sem á að meta tilboðið kemur með eitthvað annað svar en að þetta sé aldeilis nice tilboð þá er mér brugðið.  Þessi græðigi Björgólfs hefur engin takmörk, vona að hluthafar actavis hafi vit á að neita þessu tilboði.  

Björn (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 13:03

3 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Það er nú varla hægt að kalla þetta græðgi miðað við hjá yfirgangsmönnum í Vinnslustöðinni sem eru á 4,6 þegar aðrir eru síðan tilbúnir í 8,5. Vonandi að einhver dúkku upp þarna ef menn eru virkilega á því að þetta tilboð sé nánast móðgun við skynsemi hluthafa...

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 1.6.2007 kl. 13:40

4 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Sæll Óli,
Veist þú hvernig hluthafahópurinn er samsettur?  Hvað eiga Björgólfur og aðilar tengdir honum mikið í félaginu?

Telur þú líkur á að önnur félög í þessari grein geri tilboð á móti?

Þorsteinn Sverrisson, 1.6.2007 kl. 15:07

5 Smámynd: Óli Björn Kárason

Þorsteinn: Björgólfur og tengd félög eiga liðlega 38% hlutafjár a.m.k. Þess utan eru hluthafar sem tengjast Björgólfi viðskiptaböndum. Ég tel raunar líklegt að sá hópu eigi samtals um helming hlutafjár. Það eru hins vegar nær engar líkur á því að hluthafar taki sig saman og keppi við Björólf Thor. Spurningin er hvort annað tilboð t.d. frá samkeppnisaðilum Actavis komi fram. Ég raunar fjallaði aðeins um þetta 11. maí sl.

Óli Björn Kárason, 1.6.2007 kl. 17:24

6 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Svo er spurning hvort aðrir hluthafar kjósi að eiga sína hluti áfram þó félagið verði afskráð eins og ég sá í blöðunum að lífeyrissjóðirnir hugleiða. Enda kannski ekki svo vitlaust að leggja traust sitt á Björgólf Thor miðað við hans árangur undanfarið.

Það verður mikill sjónarsviptir af þessu félagi af íslenska markaðnum. Ég keypti í Pharmaco forvera Actavis fyrir löngu og ávöxtunin síðan hefur verið gífurleg, lang yfir 500%.

Það væri gaman ef þú Óli myndir einhverntíman rifja upp þessa merkilegu sögu frá því að apótekarnir Werner Rasmuson og félagar hófu lyfjainnflutning og síðan lyfjaframleiðslu til dagsins í dag.  Hvernig Björgólfur eldri kom á sínum tíma inn í það fyrirtæki, Sana gosdrykkjaframleiðsluna o.s.frv. Lögðu þáverandi eigendur kannski grunnin að viðskiptaveldi Björgólfsfeðga sem núna eru að reyna að taka fyrir tækið yfir (þ.e. Björgólfur yngri)?

Þorsteinn Sverrisson, 2.6.2007 kl. 12:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband