Mánudagur, 19. nóvember 2007
Kjósendur hafðir að fíflum
Ég hef setið á mér að fjallað um eitthvert furðulegasta mál sem upp hefur komið á síðustu árum. Í raun hefur ekki verið hægt að ræða um Orkuveitu Reykjavíkur, REI og Geysir Green Energy, með skynsamlegum hætti og verður ekki í náinni framtíð ef svo fer sem horfir.
Meirihluti borgarstjórnar, undir forystu fyrrum félaga minna í Sjálfstæðisflokkum, sprakk og furðulegur bræðingur vinstri manna undir forystu Dags B. Eggertssonar tók við. (Ég á enn eftir að átta mig á því hvernig Margrét Sverrisdóttir, hafði geð í sér að mynda vinstri stjórn í Reykjavík, eftir allt sem hún hefur sagt og skrifað í gegnum árin).
Eigi ég erfitt með að skilja Margréti Sverrisdóttur þá er útilokað að ég átti mig á borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna. Aldrei fyrr hef ég horft á stærri hóp stjórnmálamanna fremja pólitískt harahírí án ástæðu. Og ekkert er sárara en að horfa upp á góða félaga neita allri skynsemi og ana áfram í misskilningi pólitískrar þoku.En gamlir félagar í Sjálfstæðisflokknum eru ekki þeir einu sem hafa valdið mér vonbrigðum.
Einhver mætasti stjórnmálamaður yngri kynslóðar er Björn Ingi Hrafnsson - jafnvel þó hann sé framsóknarmaður líkt og tengðafaðir minn á Árskógsströnd. Aldrei hefur stjórnmálamaður slitið samstarfi fyrir jafnlítið og Björn Ingi - raunar ekkert. Aldrei hefur stjórnmálamaður slitið meirihlutasamstarfi, myndað nýjan meirihluta og orðið algjörlega áhrifalaus, fyrr en Björn Ingi ákvað að segja skilið við íhaldið í Reykjavík. (Kannski er verst fyrir minn góða vin að íhaldið gleymir engu og það gæti haft áhrif fyrir hann sem sækist eftir því að leiða Framsóknarflokkinn í framtíðinni).
En svo kemur Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi vinstri grænna. Hér skal það fullyrt að engum stjórnmálamanni hefur Morgunblaðið hampað meira í seinni tíð en Svandísi. Ritstjórn Morgunblaðsins taldi hana fulltrúa nýrra tíma - stjórnmálamann nýrra hugmynda og vinnubragða. Sjaldan hefur Morgunbalið haft jafn rangt fyrir sér. Sjaldan hefur sjórnmálamaður þurft að bakka og taka til baka fyrri orð en Svandís. Hinn nýji vinstri meirihluti í Reykjavík, með stuðningi Margrétar Sverrisdóttur, hefur ákveðið að hafa kjósendur í Reykjavík að fíflum.Nú á að gera REi að fjárfestingararmi Orkuveitunnar, selja á eignir félagsns til Geysis Green og um leið að kaupa hlut í félaginu, undir forystu Hannesar Smárasonar og FL Group.
Í liðlega aldarfjórðung hef ég fylgst með og haft það að meginstarfi að skrifa um íslenskt viðskiptalíf. Það skal viðurkennt að ég hef ekki alltaf skilið hvað hinir snjöllu jöfrar eru að gera, en fjandinn: Ég fullyrði að nú er verið að hafa kjósendur í Reykjavík að fíflum.Mikið er ég feginn að búa á Seltjarnarnesi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:54 | Facebook
Athugasemdir
Velkominn á svæðið að nýju. Gleður mig óneitanlega að lesa pistla þína á ný. Ég þakka líka fyrir að búa ekki í Rek. finnst skelfilegt hvernig málin klúðruðust hjá sjálfstæðismönnum ( mínum mönnum) vona að flokkurinn beri gæfi til að viðurkenna mistök sín og taki sig á. Enn og aftur velkominn í bloggheima.
Ásdís Sigurðardóttir, 19.11.2007 kl. 22:16
Takk kærlega.
Við eigum það sameiginlegt að þurfa ekki að borga fyrir furðuleikhúsið í Reikjavík. Að minnsta kosti ekki enn sem komið er. Hættan er hins vegar sú að okkar ágætu stjórnmálamenn missi sig í gleði fjármagnsins og ókeypis G&T. Jafnvel sterkustu einstaklingar hafa átt erfitt að standast glæsiveislur og lifnað hinna ríku.
Óli Björn Kárason, 19.11.2007 kl. 22:48
Kannsi eitthvað sé rétt þarna. Kannsi Bingi sé pólitískur gapuxi. Eða kannski gapuxi 'in general'. Ekki skal ég dæma um það. Er þó ekki svo, að hinn nýstorfnaði meirihluti hafi meira fylgi bak við sig en sá gamli? Hafi ég rangt fyrir mér, þá endilega uppfærið í mér minnið. Voru sjallrnir ekki of uppteknir í rýtingsstungunum í bak Villa að þeit föttuðu ekki að Bingi gæti snúið þá niður?
Hver er gapuxi?
Brjánn Guðjónsson, 19.11.2007 kl. 22:53
Brjánn, minn kæri.
Ég vona að þú standir ekki í þeirri trú að þetta snúist um það hver, hvenær og hvenrig mönnum tekst að reka hníf í bakið á félaganum!
Óli Björn Kárason, 19.11.2007 kl. 23:06
Ég er barasta ekki frá því að nú hafir þú haft rétt fyrir þér Óli Björn.
Árni Gunnarsson, 20.11.2007 kl. 00:17
Nei, ég vona svo sannarlega að málið snúist ekki um um bakstungur. Hvernig er það þó með meirihlutann? hefur hann meirihluta, eða minnihluta kjósenda bak við sig
Brjánn Guðjónsson, 20.11.2007 kl. 01:00
?
Brjánn Guðjónsson, 20.11.2007 kl. 01:00
Þetta mál lýsir vel mannlegu eðli. Það er í raun dæmisaga. Enginn er fullkominn.
Júlíus Valsson, 20.11.2007 kl. 11:51
Guðjón kemur með gagnlega hugmynd. Hvíslari í fréttatíma er eitthvað sem við þurfum. Vöndur sannleikans er kannske rétta orðið. Flenging fyrir gleymskuna er góð áminning.
Þórbergur Torfason, 20.11.2007 kl. 12:04
Velkominn aftur, félagi. Það er þörf á rýni þinni.
Ívar Pálsson, 20.11.2007 kl. 20:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.