Þriðjudagur, 20. nóvember 2007
Fasteignagjöld hækka um 70%
Árið 2002 námu fasteignaskattar Reykjavíkurborgar 4.513 milljónum króna en á föstu verðlagi miðað við byggingarvísitölu um 6.150 milljónum króna. Vísitala byggingarkostnaðar hefur hækkað um 36%.
Fjárhagsáætlun Dags B. Eggertssonar fyrir komandi ár gerir ráð fyrir að fasteignagjöld skili borgarsjóði um 10.510 milljónum króna. Miðað við fast verðlag munu fasteignagjöld á borgarbúa því verða um 71% hærri á komandi ári en árið 2002. Áætlað er að fasteignagjöld nemir alls 9.014 milljónum á þessu ári þannig að nýr borgarstjóri ætlar sér að auka tekjurnar um 1.500 milljónir króna á ári. Slíkt hefði þótt frétt til næsta bæjar hér áður.
Ég fæ því ekki séð að sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafi verið að flytja tillögu um lækkun skatta heldur miklu fremur voru þeir að reyna að koma í veg fyrir aukna skattheimtu.
Auðvitað skýrast hærri tekjur af fasteignagjöldum frá árinu 2002 að hluta til vegna fjölgunar íbúðar- og atvinnuhúsnæðis á þessum árum, en ekki nema að litlum hluta. Hærra fasteignamat er meginskýringin. Fólk sem býr í sínu sama húsnæði er því að greiða stöðugt hærri gjöld til borgarinnar.
Sé tekið mið af því að 112.490 manns voru skráð til heimilis í Reykjavík 1. desember 2002, þá var meðalgreiðsla fasteignagjalda á hvern borgarbúa tæpar 55 þúsund krónur á föstu verðlagi byggingarvísitölu. Því miður hef ég ekki tölu um íbúafjölda Reykjavíkur nú, en sé reiknað með eðlilegri íbúafjölgun, þá er ekki óvarlega áætlað að halda því fram að meðalgreiðsla hvers borgarbúa á komandi ári verði 88-90 þúsund krónur.
Það er með þessum hætti sem verið er að hækka skatta og nýr meirihluti borgarstjórnar var að samþykkja hækkun opinberra gjalda, en ekki fella tillögu um lækkun.
Tillaga um að lækka fasteignaskatt felld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Raunveruleg verðbólga (rýrnun peninga vegna offramleiðslu þeirra í formi skuldapappíra) síðan árið 2002 er áreiðanlega amk. 50-60% og við bætist veruleg fjölgun íbúða, rosaleg hækkun lóðaverðs osfrv. Þannig að mér sýnist þessi hækkun fasteignagjalda aðeins spegla veruleikann. Hins vegar er það röng stefna og óhagkvæm að reisa ný hverfi uppi við heiðar, gáfulegra væri að rífa úrelta kumbalda svo sem verkamannabústaði sem hafa skilað hlutverki sínu og nýta þær lóðir betur og að sjálfsögðu þarf flugvöllurinn að fara strax þannig að nýta megi það svæði. Þannig getum við á næstu 2-3 áratugum fengið hér í Reykjavík þetta 250-300 þúsund manna borgríki og það getur með góðu skipulagi verið afar hagkvæmt júnit.
Baldur Fjölnisson, 20.11.2007 kl. 20:44
Þín hefur nú verið sárt saknað úr bloggheimum af undirritaðri og svo þegar þú lætur sjá þig fer það framhjá mér, skömm og hneisa það .
Ég las einhverjar svo ævintýralegar tölur um hækkun fasteignaverðs í höfuðborginni í einhverju blaðinu í dag að ég hugsaði með mér: Það er hreinlega óhugsandi að það geti orðið fræðilegur möguleiki að flytja til borgarinnar ef mér skyldi nú einhvern tímann detta í hug að langa til þess.
Þegar ég sé það sem þú skrifar hér þá sé ég að sá póstur er bara eitt púslið í heildarmyndinni, með fylgja jafnævintýralega há fasteignagjöld.
Ætli ég haldi mig ekki bara við sama landshorn og hann tengdapabbi þinn enda ekki leiðinlegur félagsskapur það . Bið margfalt að heilsa í dreifbýli Dalvíkurbyggðar.
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 21.11.2007 kl. 11:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.