Trúverðugleiki að veði

Í ólgusjó fjármálalífsins hafa augu margra beinst að greiningadeildum bankanna og það með réttu. Morgunblaðið er með ágæta úttekt á því í dag, hvernig spár greiningadeildanna um gengi hlutabréfa á þessu ári hefur ræst. Niðurstaðan er sú að ekkert samhengi er á milli raunveruleika og væntinga sérfræðinga bankanna.

Til varnar greiningadeildum má segja að enginn hafi mátt sjá þann óróa sem einkennt hefur alþjóðlega fjármálamarkaði í kjölfar gríðarlegs taps vegna undirmálslána svokölluðu í Bandaríkjunum. En úttekt Morgunblaðsins vekur auðvitað upp spurningar um hvernig staðið er að málum innan greiningadeilda. Ég fæ ekki betur séð en að trúverðugleiki þeirra sé að veði.

Margir fjárfestar eru helsærðir eftir fall á hlutabréfamarkaði síðustu vikur og hugsanlega munu margir ekki ná sér á strik aftur. Við mat á fjárfestingu í hlutabréfum styðjast margir almennir fjárfestar við greiningar frá bönkunum og ráðleggingar sem ráðgjafar veita. Í uppsveiflu, eins og einkennt hefur íslenskan fjármálamarkað síðustu ár, er fremur einfalt að gefa góð ráð - þegar harðnar á dalnum reynir hins vegar á.

Hér fyrir neðan er listi yfir þau hlutabréfa sem hafa lækkað í verði það sem af er þessu ári, samkvæmt yfirliti M5.is.

Flaga Group hf.

-62,6%

365 hf

-58,7%

SPRON hf.

-52,5%

FL Group hf.

-42,8%

Eik Banki P/F

-32,9%

Icelandic Group hf.

-29,5%

Exista hf.

-15,1%

Össur hf.

-14,2%

Straumur-Burðarás

-13,5%

Bakkavör Group hf.

-10,2%

Icelandair Group hf.

-7,4%

Glitnir banki hf.

-6,7%

Føroya Banki P/F

-4,8%

Century Aluminum Company

-2,3%

Atlantic Airways P/F

-1,9%

Ég hef ekki gert sérstaka úttekt á því hvaða verðmat greiningadeildir hafa gefið út á þessu ári, en fyrir tilviljun rakst ég á verðmat greiningadeildar Landsbankans á 365 hf. sem gefið var út 25. júlí síðastliðinn. Þar sagði meðal annars:

"Eftir erfiðleika og tap af rekstrinum undanfarið leggja nýafstaðin sala á Hands Holding-hlutnum, endurfjármögnun og hagræðing í rekstrinum grunn að viðsnúningi. Við teljum þó sýnilegan árangur nauðsynlegan svo almennir fjárfestar öðlist fulla trú á félaginu. Greiningardeild verðmetur félagið á 3,02 krónur á hlut og mælir með að fjárfestar minnki við eign sína og undirvogi bréf félagsins í vel dreifðu eignasafni sem tekur mið af íslenska hlutabréfamarkaðnum."

Við lokun markaðar í gær var gengi 365 hf. 1,98 eftir að hafa hækkað lítillega. Þegar Landsbankinn gaf út verðmat á fjölmiðlafyrirtækinu var gengi hlutabréfanna 3,34 og hafði þá fallið hressilega frá ársbyrjun þegar það var 4,80. Greiningadeild bankans gerði rétt í því að ráðleggja fjárfestum að minna eign sína í 365, þó verðmatið hafi verið langt yfir því sem reyndin er í dag.

Þetta er örugglega ekki eina dæmið á síðustu mánuðum þar sem verðmat fyrirtækja hefur reynst langt frá því sem síðar hefur orðið. En ætli einhverjir hafi litið til verðmats bankans og keypt hlutabréf í 365, þegar gengi hélt áfram að falla? Einnig á velta því fyrir sér hvort bankarnir styðjist við verðmat greiningadeildanna þegar þeir taka ákvörðun um að veita lán til hlutabréfakaupa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef maður ætlaði að greina hæfi íslenskra bankamanna, þar sem helmingurinn eru fyrrum ríkisstarfsmenn og hinn helmingurinn nýgræðingar tiltölulega nýsloppnir úr skóla og hafa lítt sjóast í ólgu alþjóðlegs fjármálamarkaðar, þá er spurning hvað raunverulega er hægt að ætlast til af þeim.   Eitt er víst að þeir hafa hegðað sér um margt mjög ólíkt erlendum kollegum sínum hjá stórþjóðum sem hafa starfað á frjálsum mörkuðum mörgum áratugum lengur.  

Til gamans má kannski nota líkingu við hvar íslenska landsliðið í knattspyrnu stendur í alþjóðlegum samanburði, þó svo að það geti ekki notað sömu afsökun hvað stutta reynslu á frjálsum alþjóðlegum vettvangi varðar.   Þar erum við í ca. 90. sæti.  Er hægt að ætlast til að íslenskir bankamenn sem liðsheild séu mikið betri en það hvað hæfi varðar í alþjóðlegu samhengi? 

Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 20.12.2007 kl. 14:24

2 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Laun heimsins eru víst vanþakklæti og sl. sumar hafði markaðurinn risið um eitthvað 400% á fimm árum - langt umfram bjartsýnustu spár greiningadeilda bankanna. Yfirkeyptari markaður hafði þá vart sést í veraldarsögunni þannig að mjög mikil og langvarandi leiðrétting ætti ekki að koma neinum á óvart.

Baldur Fjölnisson, 20.12.2007 kl. 19:55

3 Smámynd: Jóhannes Snævar Haraldsson

Sammála þeim hér að ofan. Það átti að vera öllum ljóst fyrir um ári að þetta væri framundan. Annars eru menn bara veruleikafyrrtir.

Svo er talað um vandamálið á Bandaríska húsnæðismarkaðinum en enginn þorir að mynnast á að það nákvæmlega sama er uppi hér á landi og í allri Evrópu. Offjárfesting í íbúðar og skrifstofuhúsnæði sem enginn er til að nota næstu ár.

Jóhannes Snævar Haraldsson, 21.12.2007 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband