Föstudagur, 21. desember 2007
Fjölmiðlamenn fyrir dómstólum
Ég ætla ekki að ræða um niðurstöðu dómsins, sem getur varla komið á óvart enda skrif blaðanna óvenju rætin og ekki til annars en að meiða þann einstakling sem hlut átti að máli. Án þess að hafa gert nokkra vísindalega könnun á því, þá sýnist mér sem dómum gegn útgefendum, ritstjórum og blaðamönnum vegna meiðyrða hafi fjölgað á síðustu misserum. Kannski vegna þess að dómstólar hafa ekki jafnmikið langlundargeð gagnvart skrifum blaðamanna eða þá, sem er líklegra, að skrif nokkurra prentmiðla eru harðari og óvægnari en áður, þar sem jafnvel einkalíf manna er ekki lengur heilagt.
Eftir stutta leit á fann ég eftirfarandi fréttir hér á mbl.is sem allar eru frá þessu ári:
Innlent | fim. 20.12.2007
Fær 1,5 milljónir í bætur fyrir meiðyrði
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 365 miðla til að greiða Magnúsi Ragnarssyni, fyrrum sjónvarpsstjóra Skjás Eins, 1,5 milljónir króna í miskabætur fyrir ummæli sem birtust í DV í september á síðasta ári og Fréttablaðinu í janúar og febrúar á þessu ári. Ummælin voru einnig dæmd dauð og ómerk.
Innlent | mið. 31.10.2007
Dæmdur til að greiða hálfa milljón í bætur fyrir meiðyrði
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Eirík Jónsson, blaðamann á tímaritinu Séð og heyrt, til að greiða Þóru Guðmundsdóttur hálfa milljón króna í miskabætur fyrir ærumeiðandi ummæli um hana í blaðagrein. Hann var einnig dæmdur til að greiða hálfa milljón í málskostnað. Mikael Torfason, fyrrum ritstjóri blaðsins, og viðmælandi blaðsins voru sýknaðir.
Innlent | þri. 5.6.2007
Fyrrum ritstjórar DV dæmdir til að greiða bætur fyrir meiðyrði
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvo fyrrverandi ritstjóra DV til að greiða karlmanni 500 þúsund krónur í miskabætur fyrir ummæli, sem höfð voru um hann í frétt í blaðinu á síðasta ári þar sem hann var bendlaður við umfangsmikla afbrotastarfsemi. Þá eru ummælin einnig dæmd dauð og ómerk.
Innlent | fim. 1.3.2007
Bubba Morthens dæmdar bætur fyrir meiðyrði
Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að fyrrum ritstjóri tímaritsins Hér & nú skuli greiða Bubba Morthens 700 þúsund krónur í miskabætur fyrir fyrirsögn á forsíðu blaðsins þar sem stóð Bubbi fallinn.
Siðanefnd Blaðamannafélagsins
Ég fór einnig stuttlega yfir úrskurði siðanefndar Blaðamannafélags Íslands á þessu ári, en veit ekki hvort málum nefndarinnar hefur fjölgað eða ekki á síðustu misserum. Eftirfarandi mál voru þó talin ámælisverð að mati nefndarinnar og í tveimur tilfellum taldi nefndin að viðkomandi fjölmiðlamenn eða ritstjórnir hefðu brotið alvarlega gegn siðareglum blaðamanna.
DV
Kærandi: Ingjaldur Arnþórsson.
Kærður: Trausti Hafsteinsson, blaðamaður á DV.
Kæruefni: Kærð er umfjöllun DV um persónuleg málefni kæranda og fjölskyldu hans dagana 24. ágúst, 27. ágúst, 30. ágúst og 3. september 2007.
Úrskurður:Kærði hefur brotið gegn 3. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands með umfjöllun sinni um kæranda og fjölskyldu hans í DV 24. ágúst 2007. Brotið er alvarlegt.
Sjónvarpið
Kærandi: Jónína Bjartmarz
Kærð:Ríkisútvarpið ohf., fréttamennirnir Helgi Seljan, Sigmar Guðmundsson og Jóhanna Vilhjálmsdóttir, og fréttastofa Sjónvarps.
Úrskurður: Ríkisútvarpið og Helgi Seljan teljast hafa brotið 3. grein siðareglna. Brotið er alvarlegt.
Blaðið
Kærandi: Orkuveita Reykjavíkur
Kærðu: Blaðið, Sigurjón M. Egilsson, Gunnhildur Anna Gunnarsdóttir og Trausti Hafsteinsson.
Úrskurður: Blaðið telst hafa brotið 3. grein siðareglna. Brotið er ámælisvert.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Langaði bara til að benda síðuskrifara á eftirfarandi töflu hjá Hagstofunni án þess að hafa um það hugmynd vita hvort úrskurðir þeirra hafi fallið blaðamönnum eða kvörtunaraðilum í hag. Sérstaklega er athyglisvert að skoða árið 1993 en þá þurfti Siðanefnd Blaðamanna að greiða úr 12 málum og árið á undan kom tíu mál til kasta Siðanefndarinnar. Einnig er athyglisvert að skoða árið 2004 en þá kom aðeins eitt mál inná borð hjá þeim.
http://www.hagstofa.is/?PageID=808&src=/temp/Dialog/varval.asp?ma=MEN13102%26ti=%DArskur%F0ir+Si%F0anefndar+Bla%F0amannaf%E9lags+%CDslands+eftir+fj%F6lmi%F0lum+1985%2D2006%26path=../Database/menning/sidanefnd/%26lang=3%26units=fjöldi
kv.
Freyr Gígja (IP-tala skráð) 21.12.2007 kl. 13:10
Jæja Óli Björn, við ættum kannski að rifja upp umfjöllun þína um Rafiðnaðarsambandið á sínum tíma
Guðmundur Gunnarsson, 22.12.2007 kl. 09:39
Óli minn Björn!
Þú hlýtur að vera að djóka? Getur niðurstaðan ekki hafa komið á óvart??? Að þú sem fyrrv. blaðamaður skulir vera að verja þennan dóm er mér óskiljanlegt. Af því mér er málið skylt, ákæruliðir númer 3 og 4 snúast um skrif mín, þá hlýt ég að benda þér á að lesa þennan dóm sem er algerlega galinn. Ummæli sem aldrei féllu eru dæmd dauð og ómerk. Hvernig er það hægt? Ég hef aldrei haft neitt á móti Magnúsi, bara alls ekki, og hef hvorki kallað hann "Magga glæp" né "Geðþekkan geðsjúkling". Þannig að Ingveldur Einarsdóttir dæmir það sem aldrei hefur verið sagt dautt og ómerkt! Og dæmir Magnúsi háar upphæðir af því að hann skilur ekki samhengi hlutanna. Með öðrum orðum, það skiptir engu máli hvað sagt er og skrifað heldur dugar að menn í einhverju fári eða noju móðgist til að dómarar hlaupi upp til handa og fóta og dæmi. Common!
Annars vil ég nota tækifærið óska þér gleðilegrar hátíðar.
Kveðja,
Jakob
Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 22.12.2007 kl. 23:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.