Miðvikudagur, 26. desember 2007
Ístöðuleysi í fjármálum hins opinbera
Tekjuafgangur hins opinbera minnkaði á fyrstu níu mánuðum ársins, miðað við sama tíma fyrir ári. Alls nam afgangurinn 41,9 milljarði króna á móti 50,2 milljörðum. Minni tekjuafgangur er ekki vegna lægri tekna - sem hækkuðu um 34 milljarða króna - heldur vegna stóraukinna útgjalda.
Útgjöld hins opinbera sem námu alls 404 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum jukust um 42 milljarða eða um 11-12%. Að meðaltali jukust útgjöld hins opinbera því um nær 4,7 milljarða króna á mánuði. Þessar tölur sýna svart á hvítu hversu lítið aðhald er í opinberum fjármálum - fjármálum ríkis og sveitarfélaga. Opinber fjármálastjórn einkennist öðru fremur af ístöðuleysi.
Viðskiptablaðið benti á það í leiðara í liðinni viku að ríkisútgjöld hafi aukist um 90% frá árinu 2000. Blaðið bendir réttilega á að skýringin á góðri afkomu ríkissjóðs sé ekki aðhald í ríkisfjármálum heldur miklar tekjur. Miklar tekjur ríkissjóðs, sem eru í beinu samhengi við efnahagslegan uppgang, hafa gert það að verkum að lausung gætir í útgjöldum ríkisins. Sú lausung þrýstir síðan enn frekar á Seðlabankann að halda stýrivöxtum óeðlilega háum.
Samkvæmt fjárlögum komandi árs munu útgjöld ríkisins aukast um nær 45 milljarða króna eða 3,7 milljarða á mánuði. Þetta þýðir að hvert einasta mannsbarn á landinu þarf að bera nær 144 þúsund krónum meira í opinber gjöld en ella.
Skipting útgjalda eftir málaflokkum | |||
Rekstrargrunnur, m.kr. | Heimildir | Fjárlög | |
2007 | 2008 | Breyting | |
Almenn opinber þjónusta | 23.808 | 23.857 | 49 |
Löggæsla og öryggismál | 17.417 | 19.635 | 2.218 |
Fræðslumál | 38.191 | 41.608 | 3.417 |
Heilbrigðismál | 97.569 | 102.976 | 5.407 |
Almannatryggingar og velferðarmál | 86.405 | 96.339 | 9.934 |
Húsnæðis-, skipulags- og hreinsunarmál | 4.967 | 5.030 | 63 |
Menningar- og kirkjumál | 14.725 | 15.809 | 1.084 |
Eldsneytis- og orkumál | 2.431 | 2.492 | 61 |
Landbúnaðar- og sjávarútvegsmál | 16.746 | 16.231 | -515 |
Iðnaðarmál | 1.632 | 1.811 | 179 |
Samgöngumál | 25.809 | 42.583 | 16.774 |
Önnur útgjöld vegna atvinnuvega | 5.671 | 7.642 | 1.971 |
Önnur útgjöld ríkissjóðs | 54.003 | 58.219 | 4.216 |
Samtals | 389.374 | 434.232 | 44.858 |
2007 miðast við fjárlög ársins og fjáraukalög. Heimild: Fjármálaráðuneytið. |
Margt af því sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera á komandi ári er góðra gjalda vert og vissulega var kominn tími til þess að ráðist yrði í að bæta hag aldraðra. Um það verður ekki deilt og það veldur mér ekki áhyggjum að átak skuli gert til hagsbóta fyrir þá sem verst eru settir. Áhyggjur mínar beinast fyrst og fremst að ístöðuleysinu sem almennt gætir í opinberum fjármálum - ístöðuleysi sem ráðamenn hafa komist upp með í skjóli almennrar hagsældar og stóraukinna tekna.
Margt bendir til þess að það muni hægja verulega á efnahagslífinu á komandi misserum. Opinberir sjóðir - ríkis- og sveitarsjóðir - munu finna fyrir því. Ekkert bendir til þess að þar hafi menn pólitískt þrek til að mæta væntanlegum tekjusamdrætti.
Mér er til efst að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hafi nokkurn áhuga á að grípa til aðhaldsaðgerða, fremur verður vísað til traustrar stöðu ríkissjóðs og stofnað til skulda til að standa undir síhækkandi útgjöldum, samfara lækkandi eða óbreyttum tekjum. Meirihluti vinstri manna í Reykjavíkurborg mun fylgja sömu fjármálastefnu og R-listinn lagði svo ríka rækt við - skuldasöfnun og hækkandi skattheimta.
Það eru því blikur á lofti í opinberum fjármálum þegar nýtt ár gengur í garð. Og það mun aftur hafa áhrif á afkomu heimilanna og rekstur og efnahag fyrirtækjanna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:47 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.