Fimmtudagur, 27. desember 2007
Björgólfur Thor vill ekki Evrópusambandið
Björgólfur Thor Björgólfsson hefur ekki trú á gildi þess fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið. Hann telur að aðild að sambandinu muni takmarka möguleika Íslendinga. Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali í glæsilegu tímariti Viðskiptablaðsins - Áramót - sem kom út í dag. Viðskiptablaðið hefur valið Björgólf Thor viðskiptamann ársins 2007.
"Ég tel að það myndi takmarka okkur," segir Björgólfur Thor aðspurður um hvort hann hafi ekki trú á inngöngu í Evrópusambandið. "Við eigum að halda í þann sveigjanleika sem við höfum í dag. Við erum með margvíslega fríverslunarsamninga og við höfum möguleika á því að verða fjármálamiðstöð til langs tíma eins og margoft hefur verið talað um. Þannig getum við tekið við af Lúxemborg og Ermasundseyjunum, kjósum við svo. Það gerist hins vegar ekki ef við erum komnir í ESB."
Því hefur verið haldið fram í umræðum að atvinnulífið kalli eftir aðild að Evrópusambandinu. Orð Björgólfs Thors sýna hins vegar að sú staðhæfing á ekki við rök að styðjast. En Björgólfur Thor er fullur efasemda um stöðu íslensku krónunnar og hann telur að leita eigi annarra leiða: "Ég er mótfallinn því að Íslendingar gangi inn í Evrópusambandið, en ég tel að við verðum að taka upp mynt sem er stöðugri og sveigjanlegri til að mæta því alþjóðlega viðskiptaumhverfi sem við störfum nú í."
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það skyldi þó ekki vera að íslenskir athafnamenn teli að leikreglur þeirra verði eitthvað þrengri en það veiðileyfi sem þeir hafa haft undanfarin ár.
Ég held að þessi skoðun Björgólfs tengist eigin hagsmunum en ekki heildarhagsmunum þjóðarinnar.
Jón Ingi Cæsarsson, 27.12.2007 kl. 12:05
Skoðun þín, Jón Ingi, þjónar ekki heildarhagsmunum íslenzku þjóðarinnar. Það mun seint þjóna hagsmunum hennar að verða allt að því áhrifalaus útkjálki í miðstýrðu skriffinskubákni eins og Evrópusambandinu sem mun seint láta hagsmuni Íslands ganga fyrir hagsmunum fjölmennari aðildarríkja sambandsins, þ.e. allra hinna ríkjanna.
Hjörtur J. Guðmundsson, 27.12.2007 kl. 15:58
Björgólfur veit hvað hann syngur
Sigurður Þórðarson, 28.12.2007 kl. 07:59
Hjörtur....þessi framsetning er dæmigerð fyrir þá óupplýstu umræðu sem menn leyfa sér að bera á borð. Engar viðræður eða skoðun á málinu hefur farið fram. Slíkt er nauðsynlegt áður en menn fara í að ákveða hvort þetta er vænlegur kostur eður ei.
Það er skylda íslenskra stjórnvalda að skoða þennan kost á ábyrgan hátt.... komast að niðurstöðu og ef niðurstaðan er að sækja um aðild fer það í þjóðaratkvæði. Skoðun þín Hjörtur er óupplýst og byggir ekki á rökum eða skoðun á málinu í heild sinni....og er ef til vill dæmigerð fyrir sjálfstæðismenn sem hafa hlustað blint á sólkonunginn undir svörtuloftum
Jón Ingi Cæsarsson, 28.12.2007 kl. 08:26
því miður er málflutningur Hjartar að minna meir og meir á persónuníð fremur en málefnarök. Jón Ingi þú hefur nefnilega mikið til þins máls.
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 28.12.2007 kl. 17:17
Heill og sæll, Hjörtur sem aðrir skrifarar !
Velti stundum fyrir mér; hverra hagsmuna Jón Ingi Cæsarsson og ýmsir aðrir krata, eiga að gæta, með þjónkun sinni, við þetta nýja Stór- Þýzka mynstur (Evrópusambandið). Hygg; að Jón Ingi sé hrekklaus maður, og vammlaus, láti samt glepjast af glýju Össurar og ungliðanna.
Anna ! Bendi þér á; að lesa Einokunarverzlun Dana á Íslandi 1602 - 1787, eftir Jón Aðils (1869 - 1920) prófessor og alþm. Bara; við lestur þess rits, kynnir þú, að skilja meiningar okkar Hjartar, sem margra annarra á því, að vilja halda sjálfstæði Íslands, óbreyttu. Sem hægri maður, af gamla skólanum, gef ég ekkert sérstaklega, fyrir álit peningamannsins Björgólfs Thor, sem slíks, fremur en annarra, af hans sauða húsi.
Mbk., sem oftast / Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 28.12.2007 kl. 21:15
Afsakaðu Óli Björn !
Vitanlega; átti ég að ávarpa þig, fyrstan, sem síðuhafa. Bið þig, vel að virða.
Mbk., sem ætíð / Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 28.12.2007 kl. 21:19
Óskar minn....þú ert perla en nútíminn er núna og ég á 4 ára son og vil það besta fyrir hann og íslenska æsku...framtíðin blasir fyrir Evrópu!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 28.12.2007 kl. 21:26
Komið þið sæl, að nýju !
Anna ! Að sjálfsögðu; vil ég 4 ára syni þínum hið bezta, sem og 19 ára dóttur minni. Þrátt fyrir allt, þá er miklu fremur, nauðsynlegt, að við breytum okkar stjórnskipulagi, með góðu eða illu, svo sem brýna nauðsyn ber til, fremur en að gangast undir ofríki gömlu nýlenduveldanna, suður í Evrópu.
Svo mikilvægt er; sjálfstæðið okkur, Anna mín !
Mbk, sem fyrr / Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 00:28
góð athugasemd Óskar...leyfðu mér að hugsa svolitið í rólegheitum? ....?
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 29.12.2007 kl. 00:41
Komið þið sæl, enn !
Anna ! Alveg sjálfsagt, að gefa þér tóm, til þess, að ígrunda mína meiningu.
Mbk., sem ætíð / Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 01:59
Jæja hér er á ferðinni, allavega umræða, um málefni sem þarft er að ræða og langar mig því að skjóta inn nokkrum athugasemdum.
Ég þekki það frá fyrstu hendi hversu mikið og óþjált embættismannabáknið er í Brussel. Ég hef bent á t.d. landbúnaðarstefnu ESB, sem er að mati allra hagfræðinga og fjölmargra stjórnmálamanna sem og stærstum hluta almennings sem kynnir sér málið, alger glapræðisstefna. Þetta og fjölmargt annað, sem t.d. Bjöggi bendir á í umtalaðri grein og Kastljósþætti eru rök fyrir því að varast ætti að líta til inngöngu í ESB.
Ég var á sínum tíma mikill fylgjandi ESB og gat vel hugsað mér að Ísland gerðist aðili en eftir að hafa kynnt mér málið hefur mér snúist hugur.
Ég skil vel hvað Björgúlfur er að segja og hef haldið álíka fram um langt skeið. Ef að við stöndum utan bandalaga og höfum sjálfstæða stefnu í efnahagsmálum, og þá ekki síst varðandi bankamál og skattamál, þá gætum við, sem og heimurinn allur hagnast á því. Við erum eyja í miðju Atlantshafinu, mitt á milli Evrópu og Ameríku. Hvað er að því að hugsa sér höfuðstöðvar stórfyrirtækja hér á landi, bankaumhverfi hér líkt og í Sviss? Ráðstefnu og fundahöld, hátækni og samskipti?
Það eina sem er að koma í veg fyrir þetta er í raun íslenska krónan sem er barn síns tíma og á ekki lengur við í nútímanum.
Óþolandi að það þurfi alltaf einhvern þekktan athafnamann til að fá landann til að hugsa öðruvísi, íslendingar eru svoddan sauðir og vilja bara fylgja forystusauðnum en ekki hugsa sjálfstætt.
Þór Ludwig Stiefel TORA, 29.12.2007 kl. 13:42
"framtíðin blasir fyrir Evrópu" ...sú framtíð sem blasir við evrópu
er að þjóðirnar eldast samsetning fólksins breytist íslamistar verða komnir í meirihluta í frakklandi t.d árið 2050 verða 60% Ítala einstæðingar og eiga hvorki foreldra né systkyni
ég get nú ekki betur séð en að evrópa sé að liða undir lok eins og við höfum þekkt hana.
steini (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 14:42
"Evrópa að líða undir lok" - hvaða brandari er þetta? Þarna er um að ræða rúmlega 400 milljóna manna heimsálfu sem er leiðandi á fjölmörgum sviðum vísinda, tækni, viðskipta, menningar ofl. í heiminum. Það má vel vera að önnur samfélög eins og Kína og Indland muni verða leiðandi á ýmsum sviðum í framtíðinni, en það er eðlilet og óhjákvæmilegt vegna stærðar þeirra og vaxtar. Það gerir ekki lítið úr Evrópu eða USA ef út í það er farið.
Babbitt (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 16:56
Þór skrifar: "Ég hef bent á t.d. landbúnaðarstefnu ESB, sem er að mati allra hagfræðinga og fjölmargra stjórnmálamanna sem og stærstum hluta almennings sem kynnir sér málið, alger glapræðisstefna."
Nú er ég orðlaus! Hvað kallast þá landbúnaðarstefna Íslands? Dýrustu landbúnaðarvörur í heimi auk hæstu niðugreiðslustyrkjanna. Er það kannski það sem Þór vill? Það er frámunaleg staðreynd að enn skuli vera við lýði slíkar takmarkanir á innflutningi landbúnaðarvara sem raun er. Til hvers? Er það til að vernda atvinnustarfsemi eða er það byggðastefna eða eitthvað annað? Ótrúlegur miðaldahugsunarháttur sem er hér á ferðinni. Íslendingar eru háðir öðrum þjóðum um ótal hluti og eru algerlega orðnir hluti af alþjóðavæðingunni. Af hverju þessi haftastefna í landbúnaði? Maður hefði bundið vonir við að núverandi stjórn myndi beita sér fyrir breytingum á þessu sviði og vonandi helst gerbreytingu. Þetta endalausa tal um aðlögun og smábreytingar kosta milljarðatugi um leið og árin líða og sama sem ekkert gerist. Fyrir mitt leyti er ég orðinn hundleiður á að éta annars flokks innlent grænmeti á veturna að því almennilegt erlent grænmeti er tollað út úr kortinu. Sama rugl er í gangi með svína og kjúklingakjöt svo dæmi sé tekið. Af hverju er ekki innflutningur gefinn frjáls og tollar lækkaðir? Þetta er iðnaðarframleiðsla sem aðrir eru miklu betri í en 2-3 innlendir aðilar sem sökum smæðar og óhagræðis geta ekki keppt við. Þetta er staðreyndir sem menn ættu að hafa í huga.
Babbitt (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 21:26
Hjörtur sagði: "Það mun seint þjóna hagsmunum hennar að verða allt að því áhrifalaus útkjálki í miðstýrðu skriffinskubákni eins og Evrópusambandinu sem mun seint láta hagsmuni Íslands ganga fyrir hagsmunum fjölmennari aðildarríkja sambandsins, þ.e. allra hinna ríkjanna."
Mér finnst nokkuð skondið að þú skulir nefna þetta því í að við tökum, og verðum að taka gerðir ESB upp í EES-samninginn án þess að hafa nokkurn kosningarétt til þess. Þetta eru gerðir sem eru samdar og samþykktar af ESB-kerfinu. Það eina sem við höfum er neitunarvald sem EFTA ríki en öll EFTA ríkin verða að vera sammála um að taka gerð upp í EES-samninginn. Verði þau ósammála um að taka upp gerða frestast sá hluti EES-samningsins. Enginn EES-samningur = Kreppa á Íslandi. Ég sé því ekki hvernig við gætum gert hlutina verri með því að ganga í ESB. Það eina sem ég sé er Evran og það þykir mér ekki slæm sjón.
Jón Gunnar Ásbjörnsson (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 17:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.