Hvað er svona galið?

Ég hef ekki alltaf verið sammála Árna Páli Árnasyni, þingmanni Samfylkingar, raunar oftar ósammála en sammála. En ég hef þó talið Árna Pál vera í hópi skynsamlegustu þingmanna. Hugsanlega hef ég haft rangt fyrir mér.

Ummæli Árna Páls um skattkerfið og breytingar á því í Silfri Egils í gær benda ekki til þess að hann hafi mikinn skilning á eðli skatta eða efnahagsmálum yfirleitt. Svo virðist að hann hallist fremur að því að auka millifærslukerfið og flækja kerfið þannig að meðalmaðurinn skilji hvorki upp né niður í kerfinu og nái aldrei að átta sig á rétti sínum. Árni Páll virðist ekki skilja að einfalt skattkerfi er besta vörn almenns launamanns gegn aukinni skattheimtu. Flókið kerfi millifærslu, stighækkandi skatta og hærri jaðarskatta, er ekki kerfi launamannsins sem gengur sjálfur frá sinni skattskýrslu, heldur kerfi sérfræðinga og þeirra sem hafa efni á því að kaupa þjónustu endurskoðenda.

Andriki gerir ummæli Árna Páls í Silfri Egils að umræðuefni í dag. Þar segir orðrétt:

"Það er ekki von á góðu frá hinni framfarasinnuðu frjálslyndu umbótastjórn kenndri við Þingvelli þegar einn af þingmönnum stjórnarinnar kallar tillögur í leiðara Viðskiptablaðsins um 2% lækkun á tekjuskatti einstaklinga „gersamlega galnar“. Þetta gerði Árni Páll Árnason þingmaður Samfylkingarinnar í Silfri Egils í Ríkissjónvarpinu í gær og enginn í settinu sá ástæðu til að andmæla honum. Það er kannski ekki við öðru að búast þegar ríkisstarfsmenn sitja og ræða við aðra ríkisstarfsmenn í Ríkissjónvarpinu...

Annars var það lykilatriði í málflutningi Árna Páls um skattamálin að ekki mætti koma með svona skattalækkun „við þessar efnahagslegu aðstæður“. Já hljómar kunnuglega, ekki satt? Þetta er það sem samfylkingarmenn segja við hvaða efnahagslegu aðstæður sem er. Það er sama hvenær minnst er á skattalækkanir alltaf skulu kratarnir (og að því er virðist flestir sjálfstæðismenn, innsk. óbk)koma með eitthvað af þessu:

1. Skattalækkunin er aðeins fyrir þá efnameiri.

2. Skattalækkunin er gerð á röngum tíma.

3. Skattalækkunin er gerð með röngum hætti.

4.  Skattalækkunin veldur þenslu af því óábyrgir einstaklingar ráðstafa fjármunum í stað góðgjarnra stjórnmálamanna.

5. Skattalækkunin veldur verðbólgu og viðskiptahalla.

6. Skattalækkunin vegur að rótum velferðarkerfisins því tekjur ríkisins skerðast.

7. Skattalækkun er skattahækkun því tekjur ríkisins hafa aukist við fyrri skattalækkanir."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

1) Prósentulækkun hefur augljóslega mest áhrif á tekjuháa, gefur þeim flestar krónur í vasann. Er þörf á því ? Kannski það, kannski er þörf á að þeir sem hafi betri menntun og vinni meira beri meira úr býtum en ómenntaðir verkmenn, en þá á bara segja það beint út við kjósendur.

3 og 7) Það að lækka persónuafslátt (að raunvirði) og kalla það skattalækkun er það sem hefur verið gert hingað til. Að lækka persónuafslátt og skattprósentuna samtímis hefur gefið tekjuháum góðan aukapening, en tekjulágum lítið sem ekkert og stundum aukið skattbyrði þeirra. Er það réttlátt ?  Þess vegna treystir enginn núverandi fjármálaráðherra. Ef hann væri heiðarlegur og viðurkenndi hvað hann væri að gera þá gæti maður tekið mark á honum þegar hann talar um "skattalækkanir"

Sigurdsson (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 13:12

2 Smámynd: Calvín

Innilega sammála þessu Óli Björn og andmælum Andríkis við ummælum Árna Páls alþingismanns. Það er alltaf óþolandi að hlusta á stjórnmálamenn tala með vandlætingu um að með skattalækkun þá sé verið að færa fjármuni frá ríkinu til þeirra efnameiri. Þeir virðast gleyma því að skattur er lagður á tekjur launamannsins - tekjur sem hann hefur unnið sér inn sjálfur - og ríkið er að taka af honum! Sæll! Því miður eru allt of margir alþingismenn og þar er enginn flokkur undanskilinn í raun sameignarsinnar sem trúa því að öll góðverk þurfi að koma frá ríkinu. Ég hef ekki haft þessa tröllatrú á Árna Pál eins og þú hafðir og óttast að menn eins og hann eigi eftir að sprengja þessa ríkisstjórn með óábyrgum yfirlýsingum.

Calvín, 14.1.2008 kl. 22:58

3 identicon

Les pistlana þína mér ævinlega til ánægju og finnst þeir málefnalegir og oft uppfræðandi, þótt ekki sé ég þér alltaf sammála.

Ekki tilheyri ég sjálf launalægsta fólki landsins, en er hins vegar eini framfærsluaðili heimilisins. Bý ein með syni mínum. Þá kem ég að þessu: ,,Hverjir eru það í dag og síðustu áratugi sem greiða mesta jaðarskatta?" Það eru jú þau heimili sem hafa tekjur lægri en t.d. 300.000 - 400.000 - Dæmi einstætt foreldri með 1 til 2 börn ellegar hjón með tvö börn t.d. og tekjur 500.000 krónur.

Það þarf ekki spesiallista til þess að sjá að þegar búið er að greiða skatta og skyldur af þeim launum, þá þarf að greiða af húsnæði, ferðakostnaði - bíll eða almenningssamgöngur, fæði, klæði, orkunotkun, símanotkun, fasteignaskatta, skólabækur, heilbrigðisþjónustu, tannlæknakostnað, tómstundastarf fyrir fjölskylduna! og svo mætti áfram telja.

Það segir sig sjálft að viðkomandi framfærsluaðili þarf að vinna fleiri en 1 starf og allar tekjur aukastarfsins skattleggjast að fullu. Það heita jaðarskattar.

En hvað þarf til að viðurkenna það?

Hvað þarf til að lagfæra það?

Verður aldrei framkvæmt því það er ekki lengur hægt að hafa hugsjónir - það kemur alltaf ..sko - en þetta er nú ekki svona einfalt" Og sjá dæmið hér að ofan, það vill engin taka á málunum, hræddir við eigin afkomu. Þannig er það nú bara.

Alma Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 15.1.2008 kl. 02:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband