Mánudagur, 21. janúar 2008
15-faldur verðmunur á Sigló og Seltjarnarnesi
Allt að 15-faldur verðmunur er á fermetraverði íbúðarhúsnæðis á Siglufirði og á Seltjarnarnesi.
DB fasteignir auglýsa í Morgunblaðinu í dag 2ja hæða steinhús við Eyrargötu á Siglufirði. Húsið er nær 202 fermetrar að stærð og sagt er að hægt sé að skipta húsinu í tvær íbúðir. Ásett verð er 6,9 milljónir króna eða liðlega 34 þúsund krónur að meðaltali á fermetra. Í lýsingu með húsinu segir meðal annars:
"Efri hæðinn skiptist í þrjú svefnherbergi, eldhús, baðherbergi og stóra stofu. Neðri hæðin skiptist í þrjú svefnherbergi, gang, geymslu og þvottahús. Á undanförnum árum hafa staðið yfir endubætur á húsinu að innan sem ekki er lokið og selst húsið í því ástandi sem það er í dag."
Á Seltjarnarnesi eru Íslenskir aðalverktakar að reisa fjölbýlishús við Hrólfsskálamel. Ekki er ég sérfræðingur í fasteignamarkaðinum, en mér sýnist að íbúðirnar séu með þeim dýrustu. Tæplega 94 fermetra 2ja herbergja íbúð (þar af 11,5 fm. bílageymsla) kostar 48 milljónir króna og er íbúðin fullbúin. Meðalverð á fermetra er því tæpar 513 þúsund krónur eða 15-falt það sem sett er á húsið við Eyrargötuna.
Auðvitað er langt í frá um sambærilegar eignir sé að ræða, - annars vegar er um nýbyggingu að ræða og hins vegar hús á Siglufirði, sem byggt var 1931. En þessar tölur sýna hins vegar hve gríðarlegur munur er á fasteignaverði á höfuðborgarsvæðinu og dreifbýli.
Vert er að benda á að nokkrar eignir eru til sölu á Siglufirði og tæplega 400 fermetra einbýlishús, sem byggt var árið 1979, er sett á 32 milljónir eða 82 þúsund krónur á fermetra. En það er einnig hægt að kaupa litla íbúð í bænum fyrir 32 þúsund krónur á fermetra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Óli Björn.
það er alveg ljóst og hefur verið lengi að fasteignaverð í dreifbýli er mun lægra en á höfuðborgarsvæðinu, þannig háttar til að á Sigló þá átti íbúðalánasjóður ansi margar íbúðir fyrir svona ca. 4-5 árum þá voru þeir nánast að gefa þessar eignir sínar og drógu þar af leiðandi niður verðið en það hefur sem betur fer verið á uppleið síðan og er skemmst að minnast frétta frá FMR þar sem að fram kom að matsverð íbúðarhúsa og íbúðarlóða hækkaði mest á landinu eða um 20%. En svo hefur það gerst á Siglufirði að mikið hefur verið keypt af litlum húsum og íbúðum og notast sem sumar og vetrarhús (skíðasvæðið) það er nú svo að eftirspurn er meiri en framboð í þeim geiranum.
Í allri þeirri umræðu sem hefur verið í þjóðfélaginu varðandi hátt fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu þá spyr maður sig hversvegna fólk sem er að koma úr háskólanámi og kvartar undan því að það hafi ekki efni að kaupa sér íbúð á höfuðborgarsvæðinu af hverju það flytji ekki út á land?
Víðsvegar um landið er verið að auglýsa eftir allskonar sérfræðingum og þá með langskólamenntun, en ekkert gerist ég lít svo á að þarna væri tækifæri fyrir ungt fólk sem er með lítil börn að taka sitt fyrsta skref út á vinnumarkaðinn.
Eins og við vitum er á mörgum stöðum nóg pláss á leiksskólum og flestir eru sammála að það sé mun betra að ala börn upp í dreifbýli frekar en í borgarumhverfi.
Hermann Einarsson (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 13:38
Af því landsbyggðin hefur ekkert að bjóða þessu fólki, frekar en landsbyggðir í öðrum löndum.
Fólk vill heldur búa í slum í borg en í stóru húsi út á landi, þessi saga endurtekur sig um allan heim.
Sjá stuttan en athyglisverðan fyrirlestur hér :
http://www.ted.com/index.php/talks/view/id/123
Kári Harðarson, 21.1.2008 kl. 13:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.