Þriðjudagur, 22. janúar 2008
Ágúst Ólafur getur andað léttar
Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, er svekktur yfir nýjum meirihluta í borginni og segir að Ólafur F. Magnússon skuldi borgarbúum skýringar.
Á bloggsíðu sinni segir varaformaðurinn:
Augljóst er að Ólafur F. var einungis að hugsa um sinn eigin rass þegar þessi ákvörðun var tekin og tók hana að auki án alls samráðs við sína samstarfsfélaga í borginni.
Þá spyr ég:
Telur varaformaður Samfylkingarinnar að Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, hafi aðeins verið að hugsa um eigin rass þegar hann sleit samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn? Eða skiptir það máli í huga varaformannsins hverjir hlut eiga að máli? Þurfa menn aðeins að skýra út samstarfsslit við Samfylkinguna?
En þó Ágúst Ólafur sé greinilega sár yfir þróun mála í borginni, þá getur hann dregið andann léttar - að minnsta kosti tímabundið. Helsti keppinautur hans (sem er krónprins Ingibjargar Sólrúnar) um embætti varaformanns Samfylkingarinnar, hefur verið vængstýfður.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:45 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Óli Björn
Les pistlana þína nokkuð reglulega og hef oftast gaman að.
En lítur þú á þennan gjörning sem ,,ég vann?" Hvað finnst þér um það að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, sem eflaust er drengur góður, skuli hafa borið það á borð fyrir okkur borgarbúa varðandi samninga, samruna og kaupréttarsamninga við sameiningu Reykjavík Energy Invest og Geysis Green Energy, að pappírsflóðið hafi verið slíkt að engar reiður hafi verið hægt að henda á, auk þess sem þeir hafi nú verið á ensku! - og bara því fór sem fór!
Burtséð frá pólitík - Finnst þér þetta fagleg vinnubrögð? Telur þú okkur Reykvíkinga verðskulda ofangreint?
Alma Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 14:47
Alma:
Ég hef haft það sem reglu að svara aldrei athugasemdum á blogginu, en líklega er það rangt og er það ekki í fyrsta skipti sem ég hef rangt fyrir mér.
Þegar meirihluti íhaldsins og framsóknar sprakk í október hélt ég því fram í Kastljósi að sjálfstæðismenn ættu aðeins að líta í eigin barm í stað þess að vera með svívirðingar í garð Björns Inga. Ég hef ekki breytt um skoðun í þeim efnum.
Ég hef ekki tekið þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins í nær tvo áratugi en enginn getur farið í grafgötur með að ég hef stutt flokkinn, en er um leið verið einn helsti gagnrýnandi hans.
Þegar ég var spurður þessarar sömu spurningar: "En lítur þú á þennan gjörning sem ,,ég vann?"", hef ég aðeins sagt að ég sé heppinn að búa á Seltjarnarnesi.
Þetta snýst ekki um það hver hafi unnið, - enda held ég að nú sé hálfleikur og tæplega það. Það eina sem ég bið um er að menn séu sjálfum sér samkvæmir. Ég hef reynt að vera það - tekst ekki alltaf - en það skiptir kannski minnstu enda er ég ekki fulltrúi eins eða neins.
Ágúst Ólafur er einn þeirra manna sem ég hef haft trú á í íslenskum stjórnmálum, en ekki er hann samkvæmur sjálfum sér í dag.
Óli Björn Kárason, 22.1.2008 kl. 15:11
Sæll Óli Björn og hafðu þökk fyrir svarið.
Verð svo fyllstu samkvæmni sé gætt af minni hálfu og stend við orð mín: Það er alger eðlismunur á myndun borgarstjórnarmeirihluta í okt. s.l., og nú.
Munurinn er að í október var uppi ágreiningur um lýðræðisleg vinnubrögð í þeim meirihluta í málefnum OR og var hverju mannsbarni á landinu ljós, þar sem sú umræða tröllreið öllum fjölmiðlum, fyrir þau slit hjá borgarstjórnarmeirihluta. Nú hefur hvergi komið fram að um einhvern ágreining í fráfarandi meirihluta hafi verið að ræða. Hvergi hefur það komið fram í fréttum í það minnsta.
Sá er munurinn enda er fólk að stórum hluta slegið yfir ástandi mála.
Þú kýst að svara ekki spurningu minni um fagmennsku, ..... þar sem þú búir á Seltjarnarnesi.......
Annars er ég fyllilega sammála þér að trúlegast séum við ekki búin að landa hálfleik í þessum stjórnlausu málum.
Finnst vanta í landann þekkingu á lýðræði og því að kunna að virða það form, sem eru mikilvægustu mannréttindin.
Alma Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 21:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.