Ríkisreknir listamenn

Nær 300 milljónum króna var úthlutað til listamanna, sem opinber nefnd telur að séu þess virði að sinni listsköpun fyrir landsmenn. Færri fengu en vildu. Tæplega þrír af hverjum tíu sem sóttu um opinbera styrki til listsköpunar hlutu náð fyrir augum nefnda. Þannig hafa ríkisreknar nefndir ákveðið hvað skuli gerast í menningarlífi landsmanna á næstu mánuðum og árum.

Í besta falli er hægt að setja fram alvarlegar spurningar um réttmæti þess að ríkisvaldið skuli með þessum hætti flokka listamenn. Og fyrir listamennina sjálfa hljóta að vera blendnar tilfinningar að þiggja opinbera styrki á sama tíma og meirihluti starfssystkina er út í kuldanum og ekki talinn sinna verkum sem er til hagsbóta fyrir þjóðfélagið. Eitt sinn reyndu listamenn að brjótast undan ofurvaldi ríkisvaldsins og valdastétta enda oft nauðsynlegir gagnrýnendur þjóðfélagsins.

Fyrir sjálfstæða listamenn hlýtur það einnig að vera frekar nöturlegt að þurfa að sækja um styrki til opinberra nefnda og bíða síðan milli vonar og ótta vikum eða mánuðum saman eftir niðurstöðu um hvort verk þeirra falli nefndarmönnum í geð eða ekki.

Eftir því sem fram kemur í frétt Ríkisútvarpsins á ruv.is var að þessu sinni úthlutað um 300 milljónum króna og eru alls 1200 mánaðarlaun þar að baki. Þetta þýðir um 250 þúsund krónur að meðaltali á mánuði. Auk þessa samþykkti Alþingi að 28 listamenn fái svokölluð heiðurslaun listamanna á þessu ári samtals 50,4 milljónir króna. Hver listamaður fær 1,8 milljón króna á árinu og var fjárhæðin hækkuð um 200 þúsund frá liðnu ári.

Líklega eru flestir sammála því að með einum eða öðrum hætti eigi að hlúa að menningu og listum. En núverandi fyrirkomulag er niðurlægjandi fyrir listamennina sjálfa. Því er nauðsynlegt að leita annarra leiða. Það má t.d. taka upp opinbera styrki í réttu hlutfalli við sölu rithöfunda á markaði, en með  því er almenningur beint að greiða atkvæði um hvernig styrkjum skuli háttað. (Athyglisvert er að Arnaldur Indriðason, vinsælasti höfundur landsins, er ekki í hópi þeirra listamanna sem fá laun frá ríkinu). Tónlistamenn geta sótt styrki með svipuðum hætti. Myndlistarmenn eru kannski í erfiðari aðstöðu en þó kæmi t.d. til greina að einstaklingar og fyrirtæki sem kaupa verk listamanna geti sótt um ákveðna endurgreiðslu í formi skattaafsláttar, (svipað og var með hlutabréf). Slíkt ætti heldur betur að örva markað fyrir myndlist hér á landi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir ágæta hugleiðingu um efni sem fáir nenna að spekúlera í. Vonandi kemur að því að hlutverki úthlutunar- og skömmtunarnefnda í íslenskri menningarsögu fari að ljúka. Það er búið að skrifa nóg af bókum og gera nóg af kvikmyndum handa úthlutunar- og skömmtunarnefndum á síðustu áratugum og tími til kominn að þjóðin og listamenn eigi bein samskipti án milligöngu nefnda.

Skásta og lýðræðislegasta fyrirkomulag til að styðja við ritlist og kvikmyndagerð er nákvæmlega það sem þú stingur upp á: Að "stækka markaðinn" með því að greiða ríkisframlag í réttu hlutfalli við sölu á bóka- og kvikmyndamarkaði. Ég þekki soldið til í þessum tveimur greinum og er sannfærður um breyting í þessa veru væri til bóta. Ég hef ekki þekkingu eða reynslu til að tjá mig um hvaða fyrirkomulag mundi virka best í öðrum greinum - en jafnvel þótt núverandi fyrirkomulag hafi einhverja kosti hefur það gengið sér til húðar og það er tímabært að breyta skipulaginu.

Bestu kveðjur,

Þráinn Bertelsson

Þráinn Bertelsson (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 17:24

2 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Veistu, ég, sem listamaður, myndi aldrei taka við launum frá ríkisvaldinu.

Mér þætti það lítillækkandi fyrir sjálfan mig...

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 28.1.2008 kl. 18:03

3 identicon

Já það er margt sem þyrfti að endurskoða í sambandi við þessa úthlutun. Það er  undarlegt við þessa dómnefnd þegar einn og sami listamaður fær 8 ár stöðugt og til dæmis er einn rithöfundur  búinn að vera 3 undanfarin ár með þessi laun veit ekki hvort hann fékk laug núna líka . Þetta getur vissulega hjálpað ungu listafólki að fá smá tíma  til að sinna list sinni í næði í smá tíma.Kannski þarf að fá nýja nefnd en svona held ég að þetta geti ekki gengið. Ég á eftir að skoða þetta betur hverjir fengu þetta í ár og hvernig því er  skiptist. kveðja Áslaug

Áslaug Ásmundsdóttir (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 20:07

4 Smámynd: Pjetur Hafstein Lárusson

Heill og sæll Óli Björn.

Þakka þér fyrir þörf skrif. Það er gott að að einhver skuli velta þessum málum fyrir sér. Hins vega mætti huga að upphaflegum tilgangi með opinberum fjárframlögum til listamanna. Hann var nefnilega sá, að styrkja listamenn til starfa, í ljósi þess að fæstir þeirra höfðu fjárhagslegt bolmagn til að sinna listum eingöngu, ekki frekar en Jónas Hallgrímsson forðum. Í þessari hugmynd fólst t.d. að rithöfundar sem lifað gætu af forlagstekjum skyldu ekki fá opinbera styrki. Það er augljóst mál, að laun rithöfunda eru að mestu leyti, háð því fjármagni, sem útgefendur leggja fram í auglýsingar á verkum þeirra. Þetta er e.t.v. ekki eins augljóst varðandi aðra listamenn, þótt mig gruni, að munurinn sé ekki mikill. Sú breyting sem orðið hefur varðandi möguleika rithöfunda á opinberum greiðsum fyrir störf sín er, að áður þurftu menn með einum eða öðrum hætti að lafa utan í Alþýðubandalaginu, en nú hefur Stalínisk sjálfsritskoðun úthlutunarnefnda, hvort heldur er til hægri eða vinstri tekið við. Og rithöfundarnir sjálfir margir hverjir, skrifa eftir pöntunum (glæpasögur eitt árið, klámsögur það næsta), þannig að ekki er lengur hægt að greina þá frá heildsölu sem afgreiða hverja aðra vörupöntun.

En þetta er allt í stakasta lagi; listin hefur það nefnilega fram yfir stjórnmálaflokkana sem reyna að stýra henni, að hún er eilíf en þeir dauðlegir.

Bestu kveðjur, 

Pjetur Hafstein Lárusson, 28.1.2008 kl. 20:58

5 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Ég er nú ekki sammála að laun eigi að veita til þeirra sem selja mest, ef ég skil þetta blogg rétt. Þeir sem selja mest hljóta að hafa best ofaní sig með sölu og þurfa því ekki endilega á styrk að halda. Dæmi: Arnaldur.

Svo þekki ég skúlptúrista sem býr til ísverk sem bráðnar yfir sýningartímann og smátt og smátt hverfur. Einhver kunningi spurði mig hvernig í ósköpunum hann færi að því að selja verk sín. Þá kemur að því að ekki er öll list föl og ekki er öll list sem selst vel góð list. Og ekki er öll list sem passar fyrir aftan sófasettið.

Hitt er annað mál að svo virðist að ákveðinn frekar þröngur hópur listamanna virðist sitja að kökunni þegar kemur að listapeningum frá fyrirtækjunum. Og ég kalla það líka sell-out þegar verið er að blanda auglýsingamennsku inn í listaferlin.

En auðvitað eiga listamannalaun frá hinu opinbera að vera í einhverju samræmi við listrænt output. Bæði hvað gæði varðar og magn. Og það er í góðu lagi að gagnrýna ferlið við val og slíkt en það er ágætt meðan hið opinbera styrkir listina beint og með mánaðarlaunum.

Ólafur Þórðarson, 28.1.2008 kl. 22:19

6 identicon

Þakkir fyrir þessa umræðu og held reyndar að það séu mjög margir sem sýna þessu máli áhuga.

Ég hef verið og er algerlega fylgjandi því að ,,við" fólkið í landinu skulum styðja við listsköpun í landinu.  Listsköpun er tími.  Það er alltof algengt viðhorf að litið sé á listsköpun sem hobbý hvers listamanns.  Þannig að iðulegast eru listamenn í fullu starfi á almennum vinnumarkaði, til þess að sjá sér og sínum farborða og að greiða af námslánum oft eftir langt nám í listgrein sinni.  Ef listsköðun væri hobbý væri þar um afar dýrt hobbý að ræða.  Það er jú þannig að ,,list" í sinni víðustu skilgreiningu fellur ekki alltaf svo auðveldlega að hinum dýrðlegu markaðslögmálum.  Hversu margir t.d. kæmu Sólfari Jóns Gunnars heitins, sem stendur við Sæbrautina, inn á heimili sitt?  Hversu margir kaupa ,,myndlistarinnsetningar" inn á heimili sín.  Hversu stór markaður er fyrir íslenska nútímatónlist?  Hversu stór markaður er fyrir listdanssýningar?  (Utan eina leikhúss landsins sem sýnir slíkar sýningar), hversu margir myndu kaupa sig inn á viðburði á Menningarnótt - sem listamenn meira en minna gefa í dag?Hvað verður um rithöfunda þá sem skrifa bækur en eru ekki svo lánssamir að skrifa bækur sem fallnar eru til þess að lenda á topp 10 listum og bókaútgáfur auglýsa grimmt helstu markaðshátíð þeirrar listsköpunar?

Hvernig liti sú list út sem eingöngu liti að markaðslögmálunum?  Gæti verið að hún yrði dulítið einsleit?

Hversu margir listamenn hafa hins vegar gefið almenningi okkur þjóðinni, listaverk sín? 

Þetta eru ekki styrkir þetta eru laun! 

Alma Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 23:50

7 Smámynd: Óli Björn Kárason

Alma: Það má einnig spyrja: Hvað verður um þá mörgu listamenn sem hljóta ekki náð fyrir augum opinberrar úthlutunarnefndar? Hvers eiga þeir að gjalda?

Ég fæ heldur ekki betur séð en að úthlutunarnefndir hins opinbera séu hallar undir eldri listamenn og forðist að hjálpa ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref á braut listanna. Með öðrum orðum opinberir styrkir eða laun gera ungu fólki, með nýjar hugmyndir, nýjar aðferðir og ný vinnubrögð, erfiðara en ella að hasla sér völl í sinni listgrein. Afleiðingin er einhæfari menning og litlausari listamenn. Í heimi viðskipta væri slíkt kallað samkeppnishindrun og dæmd ólög.

Ég neita því að ríkisskipuð úthlutunarnefnd geti af sér fjölbreytileika. Ekki á sviði lista frekar en á öðrum sviðum hins mannlega lífs.

Bendi þér síðan á athugasemd sem Þráinn Bertelsson skrifar hér að ofan.

Óli Björn Kárason, 29.1.2008 kl. 00:22

8 Smámynd: Júlíus Valsson

Komið hefur til tals, að Ríkið styrki skottulækningar með svipuðum hætti og lélega listamenn. Mörgum finnst það sjálfsagt.

Júlíus Valsson, 29.1.2008 kl. 00:40

9 identicon

Góður listamaður þarf ekk styrki; hann er sjálfbær og oft miklu meira en það.   Spurning hvort almenningur ætti að kosta af sínu takmarkaða fé list sem enginn vill sjá.   Í lagi væri að athuga fyrirkomulag sem kæmi efnilegum listamönnum í gang, með það að markmiði að þeir verði sjálfbærir.

Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 01:53

10 Smámynd: Ásta María H Jensen

Ekki fannst mér þessi styrkur eitthvað til að lifa á. Ég er frístunda hugsjóna listamaður og þarf ekkert styrk við það sem ég geri ekki. Mér finnst margir af þessum listamönnum sem tilnefndir voru, mega allveg fá þessar krónur, þó að fleiri hefðu mátt fá annað eins. Ég tel að það sé nauðsynlegt að leggja eitthvað til listir og menningarmála af okkar almannafé, það er okkur nauðsynlegt að geta hallast að einhverri bók eða hlusta á músík ef ekki til annars en að draga okkur frá þessu rugli sem er verið að sóa í hjá borgarstjóraskiptum sem er orðið langloka sem er orðin leiðinleg. Ég gæti þá frekar hlustað á þá sem fengu styrkina.

Ásta María H Jensen, 29.1.2008 kl. 02:35

11 identicon

Hver ákveður hvað er list og hvað ekki?  Enginn. List er smekksatriði hvers og eins. Þeir sem eru svo lánsamir að finnast þeir hafa listræna hæfileika, að því gefnu að fólki almennt finnist það líka, ættu ekki að eiga í vandræðum með að sjá sjálfum sér farboða. Nú ef ekki, þá finnst mér réttast að þeir fengju sér aðra vinnu.

Forgangsröðun á almanna fé finnst mér oft með ólíkindum.

Hvað með þá sem veikjast og geta ekki unnið? Þeir neyðast til að “þiggja bætur” (eins og það er oft smekklega orðað af ráðamönnum þjóðarinnar) sem geta aldrei verið hærri en tæp 200.000 að meðtöldum greiðslum úr lífeyrissjóði, fyrir skatt. Mörgum þætti það nú  ansi niðurlægjandi. Ef ég ætti að velja, myndi ég frekar vilja þiggja 250.000 krónur í listamanna bætur og vera full hraust í þokkabót.

300 milljónir af almannafé í listamanna bætur??? Ég get hugsað um margt þarfara til að eyða skattpeningum okkar í. Til dæmis gæti heilbrigðiskerfið nýtt þetta fé til kaupa á lyfjum sem við virðumst ekki hafa efni á, t.d. þessu nýja MS lyfi sem aðeins næst að krúnka saman fyrir handa 50 af 300 manns sem eru með sjúkdóminn í landinu. Einnig gætum við eytt 10% af þessum 300 milljónum í að hafa lækna tiltæka í sjúkrabílum, ef einhver skyldi vera svo óheppinn að þurfa á sjúkrabíl að halda.

María Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 07:43

12 identicon

Ég tek undir með þeim sem segja hér  að það sé þarft og gott að ræða þetta mál. Úthlutanir svona nefnda eru áreiðanlega alltaf umdeilanlegar.

Það sem mér finnst hins vegar vafasamt og reyndar varasamt er að fara að setja eitthvert samasemmerki milli þess sem selst best og þess sem ER best. Það er ekki endilega sami handleggurinn. Fyrir utan það að það sem selst best þarf ekki að styrkja. Höfundar hafa væntanlega ágætis tekjur af góðri sölu. Frekar ætti að styrkja það sem er líklegt til að koma listinni lengra áleiðis - opna hugina og hjörtun - og formúlu-bækur og verk sem passa vel við sófasettið eru kannski ekki það sem skilar mestu í því tilliti.  Mér fannst t.d. athyglisvert að lesa það í e-u blaðinu fyrir jólin að bækur Gyrðis Elíassonar seljist yfirleitt ekki nema í ca 300 eintökum. Ekki lifir hann lengi á tekjunum af því en líkast til vilja margir að hann haldi áfram að skrifa. Sama gildir um fleiri listamenn hvort sem þeir eru rithöfundar, myndlistarmenn eða annað, margir eru að gera ágætis hluti þótt þeir selji ekki afurðir sínar í bílförmum. Ég minni á að Van Gogh seldi eina mynd á sínum ferli og það var bróðir hans sem keypti hana í laumi.Í ævisögu Rembrandts er sagt frá því að fólk vildi frekar fá nemendur hans heldur en hann sjálfan til að mála af sér portrettin. Sjálfsagt hafa þeir gert liðið sætara og myndirnar skærari en lærifaðirinn. Hann var fastur á sínu og honum var að lokum holað niður á kostnað bæjarins og fáir ef nokkur sá ástæðu til að fylgja honum til grafar. Mér finnst gott að hafa þetta í huga þegar talað er um vinsældir og að þær beri að styrkja – í dag þekkja allir Rembrandt en hver veit hverjir þessir nemendur hans voru?Það er líka rétt sem kemur fram hér í kommenti að ofan að listamenn inna í rauninni af hendi ákveðna samfélagslega þjónustu því hver vill vera án lista og menningar?  

Sonja B. Jónsdóttir (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 11:52

13 identicon

Sæll Óli Björn

Hvurslags endemis vitleysa er þetta!!!

Listsköpun heyrir til almanna gæða og getur því illa eða alls ekki flokkast undir hið guðdómlega hugtak markaðslögmálin - eðli málsins samkvæmt

Þú bendir á orð Þráins Bertelssonar, sem þú ert sammála. Hér koma nokkur: ,,Skásta og lýðræðislegasta fyrirkomulag til að styðja við ritlist og kvikmyndagerð er nákvæmlega það sem þú stingur upp á: Að "stækka markaðinn" með því að greiða ríkisframlag í réttu hlutfalli við sölu á bóka- og kvikmyndamarkaði. " (Þráinn Bertelsson)

Jæja, ef við tökum ritlistina fyrir, þá er ég algerlega ósammála ykkur félögum, þótt margt sem þið látið frá ykkur, falli mér vel í geð er ég ykkur sem sagt algerlega ósammála í þessu máli.

Að greiða ríkisframlag í réttu hlutfalli við sölu bóka- og á kvikmyndamarkaði. Í fyrsta lagi hver er það sem ræður fjölda seldra bóka? Jú, það eru bókaútgefendur sem leggja mat á það hvaða bækur komi til með að vera söluvænlegastar og auglýsa svo í samræmi við það! Fór á marga upplestra fyrir jól, þ.á.m. Þráins og fl. Einn var sá upplestur og þar fóru rithöfundar algerlega frábærra bóka, annars vegar Einar Már Guðmundsson með Rimla hugans og svo Óttar Guðmundsson með 100 ára sögu Kleppsspítala. Báðar bækurnar frábærar og var það mat allra sem hlustuðu. Rithöfundar hjá sama útgáfuforlagi. Önnur bókin auglýst algerlega út í hörgul en hin ekki. Sú sem auglýst var, fór fljótlega inn á topp 10 lista og endaði ofarlega þar. Örugglega voru þær bækur flestar vel að því komnar, en því ætti sú bók - rithöfundur þá eitthvað frekar að fá framlag frá ríkissjóði en saga spítalans?

Þá fyrst yrði listin einhæf ef styðjast ætti við sölulista-sölutölur. Þar eru það auglýsendur sem láta vita af sumum listaverkum en ekki öðrum. Búa til væntingar sem ekki ætti að vanmeta, þar sem við erum m.a.s. farin að hafa sérstaka væntingarvísitölu.

Mér finnst eins og verið sé að rugla saman forsendum umræðu. Eiga að vera ríkisstyrkir til framleiðslu fjölbreyttrar listar eða erum við að fjalla um smekk og sölutölur.

Það hefur verið algert söksess hjá Ikea, að bjóða upp á varning, ramma þar sem búið er að strekkja efni á, textíll sem er svo massaframleiddur á Taívan í þúsundum kílómetra, og svo púðar við. Örugglega mest seldu myndverkin í ár!

Hvers konar þjóðar- og menningararfur sem það svo er.

List á að vera aðgengileg öllum almenningi burtséð frá tekjum fólks - neytenda. Við vitum að mörg stórfyrirtæki hafa verið að styðja við listsköpun og sýningar víða og er það mjög gott, ásamt ríkisstyrkjum. En það væri gloppótt menningarsaga ef við sem þjóð, þyrftum að vera háð þeim aðilum, fyrirtækjum, því það þyrfti ekki nema vanhugsuð íbúðalán í N-Ameríku til þess að sá markaður hér hryndi.

Hvað varðar unga fólkið og nýsköpun, þá er það allt annað mál. Úthlutunarreglur og smekkur þeirra sem þar eru. Svo sannarlega er ég endilega ekkert sammála þeim. Stundum þarf ekki meira til en að mér finnist einhver alveg hrikalega tilgerðarlegur og þröngur. Vil reyndar taka hér fram að ég er afskaplega sátt við hlut okkar landsmanna til Einars Más Guðmundssonar, hann hefur fært okkur gull í sálina, sem reyndar svo margur annar listamaðurinn, þótt ekki hafi hann hlotið styrk.

Ríkisstyrkt listastarfsemi er eitt. Smekkur okkar annað. Þar ku engin einn smekkur vera réttur.

Alma Gudmundsdottir (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 18:07

14 Smámynd: Óli Björn Kárason

Alma:

Niðurlag þitt segir í raun allt sem segja þarf: "Ríkisstyrkt listastarfsemi er eitt. Smekkur okkar annað. Þar ku engin einn smekkur vera réttur."

Það er nákvæmlega þetta sem málið snýst um. Ríkisrekin nefnd getur ekki ákveðið fyrir mig eða þig hvaða listamaður eða listgrein eigi að fá að lifa og vonandi dafna. Þeir myndlistarmenn sem eru í mestum metum hjá mér eru ekki á listamannalaunum - kannski hafa þeir ekki hlotið náð fyrir augum úthlutunarnefndarinnar. Ég skil heldur ekki hvernig nokkrir einstaklingar geta tekið að sér að ákveða að þau verkefni sem sá góði rithöfundur Einar Már Guðmundsson, séu merkilegri en það sem nafni hans Kárason vinnur að. Einar Már fær laun til þriggja ára en Einar Kárason fær sex mánaða laun.

Er ekki betra að hver og einn hafi eitthvað um það að segja hvernig skattpeningum þeirra er varið?

Óli Björn Kárason, 29.1.2008 kl. 19:10

15 identicon

"Að "stækka markaðinn" með því að greiða ríkisframlag í réttu hlutfalli við sölu á bóka- og kvikmyndamarkaði." Er Þráinn kannski að tala um að stækka markaðinn með því að taka ákveðið hlutfall af veltunni af menningartengdri starfsemi, sem er víst bara nokkuð mikil, skv. rannsóknum Ágústs Einarssonar. Og stækka þannig sjóðinn? Fremur en að hann sé að segja að það eigi að greiða þeim sem mest selur mest úr sjóðnum?

Mér finnst þetta soldið óskiljanlegt, því eins og ég sagði hér að ofan þá þurfa þeir sem rokselja varla að fá styrki. Styrkirnir hljóta að vera hugsaðir til þess að þeir sem eru í kröggum geti haldið áfram að vinna að listinni.

Við hljótum að vilja sjá listina þróast og verða betri, ná nýjum og áður óþekktum hæðum. Til þess þarf áreiðanlega stuðning því listir og menning lúta öðrum lögmálum en framleiðsla á smjörlíki. Enda studdi Ragnar í Smára listamenn til góðra verka fyrir gróðann af smjörlíkinu. Er ekki skárra að hafa opinbera sjóði heldur en að einstakir auðmenn styðji sína uppáhaldsmenn og aðrir eigi engan séns?

Ekki veit ég hvernig nefndin er skipuð en það er alltaf hætt við að svona nefndir eigi sín uppáhöld. Best þætti mér að nefndirnar væru skipaðar fagfólki og að skipt væri um fólk í nefndinni á hverju ári. Svo klíkur setjist ekki að og úthluti bara sínu fólki eins og ég man eftir að stundum var talað um hér á árum áður þegar úthlutað var úr kvikmyndasjóði. Ég veit ekkert hverjir sitja í þessari umræddu nefnd núna eða hvernig þeir eru valdir, tek það fram. En ég veit ekki betur en að fólk þurfi að leggja fram upplýsingar um hvað það hyggist gera fyrir peningana.

Og hvað svo með t.d. kvikmyndasjóð, vilja menn líka leggja hann niður eða er það bara þessi úthlutun til annarra listgreina sem fer fyrir brjóstið á fólki?

Bestu kveðjur.

Sonja B. Jónsdóttir (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 21:15

16 identicon

Ég kaupi líka smjör af því að mér finnst það gott og bók eftir Kristínu Marju af því að mér finnst hún skemmtileg. Ég kaupi hins vegar oftar smjör enda er munurinn á neyslunni á matvöru og menningu kannski helstur sá að við látum kaup á matvöru ganga fyrir kaupum á menningarafurðum, í það minnsta ef við höfum fyrir börnum að sjá. Þess vegna gat Ragnar í Smára stutt listamennina fyrir smjörlíkisgróðann, vænti ég. Svo er smjörlíkið náttúrlega framleitt á færibandi í massavís en listaverkin eru einstök hvert fyrir sig og taka tíma í vinnslu.

Það yrði hins vegar ansi snautlegt lífið held ég ef við gætum ekki gengið í þá sjóði sem góðar bækur, tónlist og önnur listaverk eru. Auðvitað kaupum við það sem okkur finnst skemmtilegast en það er ekki þar með sagt að það sem okkur "finnst" best sé best, að þeim sem hér að ofan voru nefnd ólöstuðum. Ef við ættum engar bókmenntir aðrar en þær sem eru efstar á sölulistunum værum við frekar fátæk held ég, var ekki Matreiðslubók Hagkaupa vinsælasta og mest selda bókin í jólabókaflóðinu?

Við getum lært það af sögunni að það sem selst best þessa og hina stundina er kannski ekki alltaf það sem lifir af, kemst inn í listasöguna sem merkileg list og gleður mannkynið kynslóð eftir kynslóð, öld eftir öld.

Þess vegna nefndi ég það hér í fyrri athugasemd að Van Gogh seldi bara eina mynd um ævina og það var bróðir hans sem keypti hana en þóttist hafa selt hana einhverjum öðrum, til að gleðja bróður sinn væntanlega sem var náttúrlega snillingur sem enginn vildi kaupa mynd af. Sama gilti um Rembrandt, hann varð að láta í minnipokann á vinsældalistunum fyrir nemendum sínum en hver man eftir þeim í dag? Allir þekkja Rembrandt.

Kannski er Gyrðir þinn Rembrandt.

Bestu kveðjur.

Sonja B. Jónsdóttir (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 15:13

17 Smámynd: Óli Björn Kárason

Sonja: Við erum sammála um eitt: Öflug lista- og menningarlíf er hverju þjóðfélagi nauðsynlegt og litlu þjóðfélagi lífsnauðsynlegt. Ríkisrekin listastarfsemi er hins vegar ekki til þess fallin að örva sköpun, allra síst þegar fámenn nefnd ríkiins tekur að sér alræðisvald.

Við erum á villigötum og kannski er ég ekki að benda á hina réttu leið. En hin beiða gata ríkisins er leið glötunar.

Óli Björn Kárason, 31.1.2008 kl. 15:44

18 identicon

Já, það er alla vega á hreinu. En ég sé ekki að þú sért að benda á neina leið. Bara leggja niður listamannalaun og ekkert annað í staðinn.

Ég get ekki séð að listastarfsemin sé "ríkisrekin" þótt einhverju broti af veltu menningartengdrar starfsemi sé veitt aftur til þeirra sem hrinda öllu ferlinu af stað, þ.e. listamannanna sjálfra.

Úthlutunarnefndirnar eru skipaðar af menntamálaráðherra samkvæmt tilnefningum fagfélaganna. Val svona nefnda verður sjálfsagt alltaf umdeilanlegt en með því að skifta nefndarmönnum út árlega ætti að skapast nægileg fjölbreytni til að tryggja að "smekkur" og "klíkur" verði ekki ráðandi.

Þið sem viljið leggja listamannalaunin niður og láta markaðinn ráða ferðinni hneykslist mikið á því að þeir sem selja mest fái ekki úthlutun en hafið þið spurt þá hvort þeir hafi sótt um?

Ég er alls ekki viss um að þeir söluhæstu sæki um, kannski finnst þeim nóg að fá ágóðann af góðri sölu og svo heiðurinn af því að vera tilnefndir til verðlauna eins og t.d. besti spennusagnahöfundur Norðurlanda og þótt víðar væri leitað.

"Ríkisreknar" úthlutunarnefndir eru ekkert sáluhjálparatriði fyrir mig en á meðan enginn kemur með aðra lausn en markaðslögmálin er eins gott að þær séu látnar í friði því að við getum fullyrt það, í ljósi sögunnar, að markaðurinn er bara ósköp einfaldlega ekki nógu góður mælikvarði á gæði listarinnar.

Bestu kveðjur.

Sonja B. Jónsdóttir (IP-tala skráð) 3.2.2008 kl. 03:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband