Þriðjudagur, 29. janúar 2008
Reiðilestur klerks um fjölmiðla
Séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur við Akureyrarkirkju, vandar fjölmiðlum ekki kveðjurnar í pistli á bloggsíðu sinni. Þar heldur hann því fram að fjölmiðlar hafi aðallega áhuga á sér sjálfum, yfirborðsmennskan sé allsráðandi og veruleiki fjölmiðlafólks sé sýndarveruleiki.
Séra Svavar Alfreð telur að fjölmiðlar séu að breyta þjóðfélaginu í aulaþjóðfélag.
Tilefni skrifa séra Svavars Alfreðs er umdeildur þáttur Spaugsstofunnar síðasta laugardag, en grínistarnir hafa haldið því fram að ekki hafi verið gert grín að veikindum borgarstjóra heldur var hæðst að fjölmiðlaumfjöllun um veikindin. (Það háð fór framhjá mér eins og fleirum).
"Fjölmiðlafólk landsins er á fullu við að gera okkur grein fyrir því hvernig fjölmiðlafólk fjallar um veruleikann," segir sóknarprestur þeirra Akureyringa.
Dómur séra Svavars Alfreðs um íslenska fjölmiðla er harður og óvæginn: "Umfjöllun sem ber vott um góða þekkingu blaðamanns á viðfangsefni sínu er alltof sjaldgæf í íslenskum fjölmiðlum." Yfirborðsmennskan er allsráðandi og skortur á faglegri fjölmiðlagagnrýni nær algjör.
Ekki get ég tekið undir allt sem sóknarprestur þeirra Akureyringa skrifar, en það er rétt að sjálfhverfa fjölmiðla eykst með hverju ári. Og þeim fjölgar sem eru sama sinnis og séra Svavar Alfreð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hverju hafa prestar og þjóðkirkjan áhuga á?
DoctorE (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 11:30
Ég tek undir hvert orð sem prestur minn skrifar.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 16:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.