Borgið sjálf

Eitthvað segir mér að undirskriftasöfnun til að mótmæla niðurrifi á þessu hrörlega húsi, sem síðustu ár hefur þjónað sem skemmtistaður, sé ekki sú síðasta sem Ólafur F. Magnússon á eftir að fá í hendurnar.

Húsafriðunarmál í Reykjavík eru að snúast upp í sirkus og því er kannski tilefni til að friða þetta furðulega niðurnídda hús við Klapparstíginn.

Yfir 2.000 manns rituðu nöfn sín á skjal í viðleiti sinni að bjarga húsinu, en ég átta mig ekki á því hvort fólki þykir vænt um veitingastaðinn eða húsið. Engum virðist hafa komið til hugar að fara í eigin vasa í stað þess að rjúka á fund borgarstjóra í þeirri von að hann tæki upp tékkhefti borgarsjóðs.

Ef þessum liðlega tvö þúsund áhugamönnum um friðun Klapparstígs 30 er einhver alvara ættu þeir að vera tilbúnir til að standa sjálfir straum af þeim kostnaði. Hlutafélag með tvö þúsund hluthöfum er ekki svo fámennt - gæti raunar orðið öflugt.

Er ekki kominn tími til þess að fólk hætti að leita alltaf undir pilsfald hins opinbera og taki sjálft upp veskið? Er ekki kominn tími til að fámennir hópar fjármagni sín áhugamál sjálfir í stað þess að neyða almenning til að greiða reikninginn? 


mbl.is Niðurrifi mótmælt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð færsla.

Er einmitt að spá sjálfur í að kaupa einn kofa við Laugaveg og láta standa í niðurníðslu í nokkur ár. Aðferðin er vel þekkt og hefur gefist einstaklega vel.

Arðurinn af slíkri fjárfestingu er gríðarlegur þar sem væntanlegur framtíðarkaupandi er með lítið vit á viðskiptum.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 09:41

2 Smámynd: Ólafur Þór Gunnarsson

Orð í tíma töluð Óli Björn. Laugavegurinn er sóðalegur og mörg af þessum húsum sem verið er að friða eru hjallar. Það sama gildir um Sirkus. Við endum með að friða sóðaskapinn og ónýt hús.

 Í Alvöru talaðað !

Ólafur Þór Gunnarsson, 31.1.2008 kl. 09:48

3 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Ég er sammála því að Sirkus má fara, þó er ég eindregið á því að of mörg hús hafa verið rifin og of mörg hús eru í hættu.

Vil þó benda greinarhöfundi á að það er ekki það sama að friða hús og að Reykjarvíkurborg kaupi hús.
Það er t.d. aðal gagnrýni á núverandi borgarstjórnarmeirihluta að hann keypti húsin á Laugavegi áður en þau urðu friðuð. Ef að húsin hefðu verið friðuð hefði, í mesta lagi, fallið einhver skaðabótarsumma á ríkissjóð. Ef að hús er síðan friðuð, áður en farið er í að fá tilskilinn leifi fyrir nýbyggingum (en það vantaði algerlega varðandi Lagaveg 4 - 6) þá fellur enginn kostnaður á almenning, hvorki borgasjóð né ríkissjóð. 

Þór Ludwig Stiefel TORA, 31.1.2008 kl. 10:00

4 Smámynd: Óli Björn Kárason

Þór: Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki það sama að friða hús og að Reykjavíkurborg kaupi. En ef hús er friðað og eigandinn hefur engann áhuga á að gera eitt né neitt við húsið heldur lætur það drabbast niður, hvað þá?

Auðvitað eigum við að halda í söguna og menningarverðmæti, en mér er til efs að Sirkus-húsið sé eitt þeirra húsa sem vert sé að varðveita. Ef einhver hefur áhuga á því á hinn sami að gera það á eigin reikning en ekki annarra.

Vandinn við Laugaveginn er að R-listinn sálugi samþykkti skipulag fyrir Laugaveginn sem gekk gegn hugmyndum manna um að halda í gamla tíma. Á grundvelli samþykks skipulags hafa einstaklingar ráðist í fjárfestingar og ef skipulagi er breytt hljóta þeir að eiga kröfu um skaðabætur. Opinberir aðilar geta ekki sagt eitt í dag og annað á morgun, án þess að bera ábyrgð á ákvörðunum.

Óli Björn Kárason, 31.1.2008 kl. 10:55

5 Smámynd: Karl Ólafsson

Ég skil svo sem sjónarmiðin sem hér koma fram.

Friðun er vandmeðfarin og það virðist eiga eftir að skilgreina betur hér á landi hvernig skuli farið með menningarsöguleg verðmæti.

Í Bretlandi eru til nokkuð skýrar reglur um þessi mál, en þó getur alveg vafist fyrir bæjarfélögum að fylgja þeim eftir. Í bænum þar sem ég bjó var gamall hjalli sem þótti eiga sér merkilega sögu sem fornt verslunarhúsnæði. Kofinn var í algerri niðurníðslu og engu viðhaldi sinnt af eigandanum. Þessi bygging hafði einhvern tímann komist á lista sem 'Listed building' sem þýðir friðun. Lendi bygging á þessum lista leggur það kvöð á eigandann að hann má ekki rífa hana eða breyta nema með samþykki. Það leggst líka sú kvöð á eigandann að hann verður að sjá til þess að byggingin verði ekki fyrir alvarlegum skemmdum. Þar kemur einmitt gráa svæðið. Ef eigandinn lætur friðaða byggingu drabbast niður þar til hún liggur undir verulegum skemmdum er hann áminntur um að hann verði að gera lagfæringar, annars verði lagfæringar gerðar á hans kostnað. Svo er áminnt aftur því enginn vill náttúrulega leggja út í þennan kostnað sem svo þyrfti að innheimta frá eigandanum. Ef enginn vilji eða geta er fyrir hendi að gera upp svona hús þá getur svona mál tekið heila eilífð og húsið glatast hvort eð er. Þetta hús sem ég vitnaði í hér á undan er einmitt enn þann dag í dag, 10 árum síðar, enn að hruni komið og blettur á bænum. Þar er ekki einu sinni pöbb í rekstri eins og á Klapparstígnum.

Karl Ólafsson, 31.1.2008 kl. 12:00

6 Smámynd: Óli Björn Kárason

Karl: Þetta finnst mér fróðlegt innlegg í umræðuna. Spurningin er hvernig best sé að leysa þessi vandamál. Auðvelda svarið er auðvitað að vísa +a sameiginlegan sjóð almennings, en þá lenda menn á villigötum.

Óli Björn Kárason, 31.1.2008 kl. 13:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband