Hæstu launin hjá SPRON en lægstu hjá Exista

Þegar almennir hluthafar koma saman til aðalfundar fyrirtækis er tvennt sem þeim er efst í huga: Hver er hagnaðurinn af rekstrinum og hver er ávöxtunin á hlutabréfunum? Fáir hafa hins vegar áhyggjur af því hvernig stjórn og helstu stjórnendur fyrirtækisins hafa staðið sig í starfi. Það hefur ekki tíðkast hér á landi að leggja mælistiku á árangur þeirra sem standa í brúnni, enda hafa hluthafar verið ánægðir, fram undir það síðasta, þar sem hlutabréf hafa margfaldast í verði.

Í niðursveiflu síðarihluta liðins árs og fyrstu vikur yfirstandandi árs, kann þetta viðhorf að breytast. Kannski að almennir hluthafar setji mælistiku á frammistöðu stjórnenda og þær eru margar til. Ein sú einfaldasta er að reikna laun æðstu manna í hlutfalli við hagnað. Og ekki er óeðlilegt að hluthafar líti til annarra fyrirtækja í sambærilegum rekstri til að fá samanburð.

Í töflunni hér fyrir neðan eru upplýsingar um laun æðstu stjórnenda þeirra banka og fjárfestingafélaga sem skráð eru í kauphöll og hlutfall launa af hagnaði. Upplýsingar fyrir Atorku liggja ekki fyrir en félagið birtir ársreikning sinn næstkomandi föstudag. Vert er að taka fram að ekki er tekið tillit til kaupréttarsamninga.

Dýrustu forstjórarnir á liðnu ári voru hjá FL Group enda skilaði félagið liðlega 67 milljarðs króna tapi og gengi hlutabréfa félagsins lækkaði um 43% frá upphafi til loka árs.

Ef litið er á hlutfall heildarlauna (laun, fríðindi, bónusgreiðslur og lífeyrisgreiðslur) af hagnaði síðasta árs, þá kemur í ljós að hæstu launin fékk Guðmundur Hauksson forstjóri SPRON. Heildarlaun Guðmundar námu 61 milljón króna en hagnaður sparisjóðsins var tæpir 3,3 milljarðar. Launin voru því 1,9% af hagnaði ársins. Hluthafar munu einnig hafa í huga að frá því að hlutabréf SPRON voru skráð á markað í október lækkuðu þau um 45% til loka ársins. Þau hafa haldið áfram að lækka á þessu ári.

Forstjórar Exista eru hlutfallslega með lægstu launin eða töluvert innan við 0,1%. Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings er ágætlega launaður en er þó hlutfallslega með þriðju lægstu launin samkvæmt þessari samantekt. Tveir starfandi stjórnarformenn, Sigurður Einarsson og Lýður Guðmundsson eru með nokkuð svipuð laun í hlutfalli við afkomu.

Vert er að hafa í huga að töluvert stór hluti launa forstjóra og stjórnarformanna er í formi bónusgreiðslna. Bónus sem greiddur var út á liðnu ári er vegna ársins 2006. Heildarlaunagreiðslur eru ekki sundurgreindar hjá öllum fyrirtækjunum og því var ekki hægt að birta þær í töflunni.

Laun stjórnenda vs. hagnaður 2007      
tölur í milljónum króna 
StjórnandiFyrirtækiHeildar-laun 2007Hagnaður (tap) ársinsHlutfall launa af hagnaðiHækkun (lækkun) hlutabréfa 2007
Hreiðar Már SigurðssonKaupþing banki138 71.191 0,194% 5%
Sigurður EinarssonKaupþing banki170 71.191 0,238% 5%
Sigurjón Þ. ÁrnasonLandsbanki164 39.949 0,409% 34%
Halldór J. KristjánssonLandsbanki87 39.949 0,218% 34%
Bjarni ÁrmannssonGlitnir banki190 27.651 0,687% -6%
Lárus WeldingGlitnir banki76 27.651 0,275% -6%
Erlendur HjaltasonExista32 52.340 0,061% -12%
Sigurður ValtýssonExista3852.3400,073%-12%
Lýður GuðmundssonExista144 52.340 0,275% -12%
Hannes SmárasonFL Group140 -67.238  - -43%
Jón SigurðssonFL Group33 -67.238  - -43%
Guðmundur HaukssonSPRON61 3.287 1,865% -45%
William FallStraumur52 14.8660,352%-13%
Friðrik JóhannssonStraumur392      
  
Í launum er átt við reglubundin laun, bónusgreiðslur, fríðindagreiðslur og greiðslur í lífeyrissjóði. Ekki er tekið tillit til kaupréttasamninga og uppgjörs þeirra.
Upplýsingar um launakjör forstjóra Atorku liggja ekki fyrir, en félagið birtir uppgjör á föstudag. 
Bjarni Ármannsson lét af starfi forstjóra Glitnis í maí og Lárus Welding tók við starfinu. 
Lárus Welding fékk greiddar 300 milljónir króna sem ráðningagreiðslu (sign-on fee). 
Tveir stjórnarformenn eru teknir hér með. Sigurður Einarsson og Lýður Guðmundsson eru starfandi stjórnarformenn..
Hannes Smárason lét af störfum forstjóra FL Group í desember og tók Jón Sigurðsson við, en hann var áður aðstoðarforstjóri.
William Fall var ráðinn forstjóri Straums í maí á liðnu ári og lét Friðrik Jóhannsson af störfum.  
Í launum Friðriks Jóhannssonar eru uppgjör á kaupréttum og fleira tengt starfslokum. Laun hans eru því ekki sambærileg við launa annarra.
Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,4% á liðnu ári 
Tvö félög gera upp í evru; Exista og Straumur. Tölur voru umreiknaðar í krónur m.v. miðgildi evrunnar í árslok 2007. Nokkur skekkja er því samfara.
         

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú gleymir þá væntanlega að taka tillit til raunverulegs taps Exista. Ofmat
á eignum að fjárhæð €992,3 millj... Ef Exista hefði beitt samsvarandi
reikningsskilaaðferðum og FL Group þá hefði tapið á félaginu numið €418,4
millj.

IG (IP-tala skráð) 20.2.2008 kl. 19:11

2 identicon

Þetta er hin fróðlegasta tafla hjá þér Óli Björn. Ég veit að ég ætti að skrifa eitthvað gáfulegt um tölur og prósentur og hluthafa o.s.frv. en það kemur ekki neitt ... nema einhver ógleðitilfinning, sérstaklega eftir að ég heyrði einhvern stjórnarformann í banka kalla eftir að lífeyrissjóðir og stjórnvöld kæmu til bjargar. Mér finnst þetta allt saman orðið meira en lítið öfugsnúið.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 20.2.2008 kl. 20:50

3 identicon

Landsbankinn er greinilega eina sterka fjármálafyrirtækið á Íslandi í dag.

Flott samantekt hjá þér Óli Björn!!

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 20.2.2008 kl. 21:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband