FL Group: Afhverju kom rekstrarkostnaðurinn á óvart?

Júlíus Þorfinnsson, forstöðumaður samskiptasviðs FL Group, gerir nokkrar athugasemdir við skrif mín um félagið síðasta þriðjudag. Vert er að halda þeim athugasemdum til haga og benda lesendum á þær. Júlíus leiðréttir þar þá röngu staðhæfingu mína að Jón Ásgeir Jóhannesson hafi tekið við formennsku stjórnar FL Group í desember síðastliðnum. Hið rétta er að Jón Ásgeir tók við stjórnartaumum í júní. Júlíus svarar hins vegar í engu spurningum mínum um það hvort upplýsingum hafi verið haldið leyndum varðandi ótrúlega háan rekstrarkostnað félagsins.

Tilefni skrifa minna voru ummæli Jón Ásgeirs Jóhannessonar í hádegisviðtali á Stöð 2 um að 6,2 milljarða króna rekstrarkostnaður hefði komið á óvart. Ekki er hægt að skilja orð stjórnarformannsins með öðrum hætti en að upplýsingum hafi verið haldið leyndum, annars hefði rekstrarkostnaður ekki komið á óvart.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í dag er augljóst að Pálmi Haraldsson, aðaleigandi Fons og varaformaður stjórnar FL Group, er langt í frá sáttur við rekstrarkostnaðinn á liðnu ári. Pálmi svarar spurningu blaðamanns svo:

"Við þessum tölum er mjög einfalt svar: Þarna voru gerð mistök og þau verða ekki gerð aftur. Það er engin leið að réttlæta þennan rekstrarkostnað með neinum hætti." 

Athugasemdir Júlíusar við skrifum um FL er rétt að birta hér en þær eru gerðar fyrir hönd félagsins: 

"1. Rekstarkostnaður Tryggingamiðstöðvarinnar kemur inn í reikninga FL Group á fjórða ársfjórðungi 2007. Þessi kostnaður var 841 m.kr., eins og upplýst hefur verið í reikningum félagsins.

2. Sértækur kostnaður FL Group við tilgreind fjárfestingaverkefni á árinu 2007 var 1.325 m.kr., en megnið af þessum kostnaði féll til á fjórða ársfjórðungi. Hér er um aðkeypta sérfræðivinnu að ræða. Stærsta verkefnið á síðari hluta 2007 var fyrirhuguð yfirtaka á Inspired Gaming Group. Samhliða ákvörðun í desember sl. um að hætta við yfirtökuna vegna markaðsaðstæðna var þessi kostnaður gjaldfærður í bókhaldi félagsins. Meðal annarra verkefna af þessum toga má nefna AMR.

3. Skrifstofu félagsins í Kaupmannahöfn var lokað í desember og samið við starfsmenn um starfslok. Einnig var gerður starfslokasamningur við Hannes Smárason í desember.

4. Jón Ásgeir Jóhannesson hefur verið stjórnarformaður FL Group síðan í júní 2007, ekki desember eins og sagt er hér að ofan.

Júlíus Þorfinnsson, forstöðumaður samskiptaviðs FL Group."

Eftir stendur að enn er ósvarað hvort upplýsingum hafi verið haldið leyndum líkt og Jón Ásgeir gefur til kynna í áðurnefndu viðtali. Afhverju kom hár rekstrarkostnaður á óvart ef upplýsingar lágu fyrir?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Keep up the good work !

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 21.2.2008 kl. 09:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband