Háir skattar hvetja til skattsvika

Frjálslyndir hagfræðingar og stjórnmálamenn hafa á stundum haldið því fram að skattsvik séu nauðvörn einstaklingsins gegn ofbeldi ríkisvaldsins. Eins og oft þegar of sterkt er tekið til orða leynist sannleikur í þeim. skattframtalið

Alþjóðavæðingin hefur haft það í för með sér að samkeppni milli landa hefur aukist. Hreyfanleiki fjármagns og vinnuafls hefur gert það að verkum að ekkert land er eyland þegar kemur að launum eða skattheimtu. Gegn þessari þróun hafa ofsköttunarlöndin, með Norðurlöndin í fararbroddi, brugðist með því að efla skatteftirlit hvers konar.

Því miður er líklegt að við Íslendingar dögum sömu ályktanir af meintum skattsvikum og frændur okkar sem glíma við skattaáþján. Við munum eyða milljónum í að "ná" þeim sem hafa flutt fjármuni í svokallaðar skattaparadísir, hvort heldur er í Lichtenstein eða í öðrum löndum. Fáum mun koma til hugar að best væri að efla samkeppnishæfni Íslands og í stað þess að hrekja efnamenn til að flýja land með fjármuni sína sé skynsamlegt og eftirsóknarvert að laða að efnamenn til landsins með lágum sköttum.

Hér er ekki tekin afstaða til þess hvort lögbrot hafi verið framin, enda upplýsingar ekki fyrir hendi til að dæma um slíkt. En í stað þess að hafa of miklar áhyggjur af því hvort einhverjum hafi tekist að koma undan einhverjum fjármunum ættum við að huga að því hvort skattkerfið hér á landi sé með þeim hætti að það takmarki fremur en hámarki skatttekjur ríkissjóðs og dragi þar með úr möguleikum samfélagsins að standa undir því velferðarkerfi sem flestir eru sammála um að skuli vera sem öflugast. Við eigum að velta því fyrir okkur hvort skattkerfið hveti menn til undanskots á skatti.

Ragnar Árnason prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands er sannfærður um að við verðum að huga meira að samkeppnishæfni Íslands í skattamálum. Viðskiptablaðið hefur eftir Ragnari í dag:

"Fyrirtæki og jafnvel einstaklingar færa skattfang sitt milli landa með tilliti til skattaumhverfis. Þetta hefur færst í aukana og mun örugglega aukast enn meira í framtíðinni. Og allt tengist þetta skattasamkeppni milli landa."

Tilefni þessara orða Ragnar er útgáfa bókarinnar, Cutting Taxes to Increase Prossperity (Skattalækkanir til kjarabóta). Það er Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál, RSE, sem gefur bókina út.

Viðskiptablaðið hefur einnig eftir Ragnari:

"Ríkið fengi meiri tekjur til lengri tíma litið með mun lægri skattheimtu á alla, ekki aðeins fyrirtæki. Það er óheppilegt að hafa mismunandi tekjuskatta fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Ég er sannfærður um það að heildartekjur af tekjuskatti myndu aukast ef hlutfallið til ríkisins yrði fært niður úr rúmum 24% í 10-15%."

 


mbl.is Fylgst með skattsvikamáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Hér er eins vant.

Allt í lagi að telja skatta of háa og berjast fyrir lækkun þeirra EN það eru ekki allir sammála þér að aurarnir sem þarna er átt við séu í raun ,,þeirra"  sem þa´flytja.

Svo er annað;  Á meðan lög eru ákveðin eru þau LÖG þar til þaeim verður breytt.  Þannig að skattsvikarar eða ,,skattundanfærslumenn" eru að svíkja og þannig að brjóta lög.  Við því er ekki aflátsbréf, --aðeins fangelsi eða sektir.

Annars þurfa íslenskir undanviks menn engu að kvíða, ef þeir eru að víkja undan einhverju meira en nokkrum bílaviðgeraðreikningum.  Skattmagetur ekkert fundið fyrr en allt er fyrnt eða vísað frá dómi.

Miðbæjaríhaldið

skilur ekkert í Skattaeftirlitinu hérlendis, sem virðist beinast nær eingöngu að einyrkjum og Kleinusteikingarkonum.

Bjarni Kjartansson, 26.2.2008 kl. 14:45

2 Smámynd: Óli Björn Kárason

Bjarni: Við erum oftar sammála en ósammála. Það sem ég er að reyna að segja krefst kannski lengri útskýringar og við ættum að fá okkur kaffi saman við tækifæri.

Óli Björn Kárason, 26.2.2008 kl. 15:47

3 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Frjálslyndir hagfræðingar og stjórnmálamenn hafa á stundum haldið því fram að skattsvik séu nauðvörn einstaklingsins gegn ofbeldi ríkisvaldsins. Eins og oft þegar of sterkt er tekið til orða leynist sannleikur í þeim.

Heill og sæll kappi -

Ég verð eitthvað svo öfugsnúin þegar ég les þennan pistil.  Siðferðisvitund kennir okkur að skilja á milli þess sem er rétt og rangt.  Persónulega finnst mér t.d. kvótakerfið með sínu kvótaframsali alveg út í hött.  Það breytir því samt sem áður ekki að ég veit að ef ég næ mér í fley og ræ til fiskjar, þótt ég veiddi bara 20 fiska, þá væri það lögbrot - ef ekki ætti ég kvóta.

Þegar maður er að ná því að hafa lifað í 50 ár - þá hefur manni lærst að það eru tveir óskyldir hlutir að hafa skoðanir almennt - eða að hafa brostið siðferðisvit.

Þekki dæmi þar sem framkvæmdastjóri í ,,virtu" fjármálafyrirtæki, eignaðist barn á árinu sem leið, fær fullar fæðingarorlofsgreiðslur og hefur ekki tekið orlof frá vinnu, eins og greiðslunum er jú ætlað að covera, með hag barnsins í huga, og fyrirtækið hið virta greiðir mismun á fæðingarorlofslaunum og fullum launum framkvæmdastjóra.

Hverju skyldu slíkir framkvæmdastjórar og stjórnendur mótmæla?  Í hvaða nauðvörn skyldi slíkt fyrirtæki eða stjórnendur vera.  Hvaða ofbeldi skyldi ríkisvaldið hafa valdið því?  Hvernig mætti breyta löggjöf svo þessir ,,pirruðu" einstaklingar þurfi ekki að vera svíkja út opinbert fé - sem eru jú skattpeningar borgaranna.

Þú segir í pistli þínum að við eigum að velta þeim spurningum upp, hvort skattkerfið hvetji menn til undanskots á skatti!

Mín tilfinning er sú að mjög margir launþegar fari þá leið að skrá sig sem fyrirtæki/verktaka.  Þar með er hægt að draga frá þessum verktaka/fyrirtækjalaunum allan kostnað, sem ekki fellur undir frádrag á sköttum einstaklinga.  Þeim hefur fjölgað alveg óheyrilega einstaklingunum sem fyrir stórmerki og undur, breyttust í fyrirtæki - greiða lægri skattþrep auk þess sem allur venjulegur rekstur fjölskyldu eins og farartæki og kostnaður tengdur því, tölvubúnaður, rafmagn, hiti, sími og fl. sem ekki er frádráttarbær á einstaklinga, verður frádráttarbær.

Hagfræði er skemmtilegt fag - sem lítur til margra hluta, t.a.m. hluta eins og free rider einkenni fólks og fleira - sem sagt gerir ráð fyrir því að maðurinn sé breyskur.

Hins vegar held ég að það sé af hinu góða að skoða skattkerfið vel og vandlega, hvað við höfum í höndunum, skilvirkni skattkerfis, sameiginlega gagnagrunna skattayfirvalda - láta reikna út hverjir hafi og hverjir greiði hæstu jaðarskattana o.fl.

Langt síðan ég hafði farið á bloggið og Óli Björn - það gladdi mig að sjá grein eftir þig sem fór svo skelfilega í íhaldstaugina - hárið í hnakka úfið  ....... og tækifæri til að nöldra. 

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 27.2.2008 kl. 01:22

4 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Síðastliðið ár hafa komið virtir fyrirlesarar til Íslands (man eftir þremur rétt í svipan), og haldið því farm að lægri skattprósenta myndi skila meiri tekjum í ríkissjóð.

Við þyrftum að einfalda skattkerfið verulega, setja flatan 15% tekjuskatt á allt atvinnulífið, jafnt fyrirtæki sem einstaklinga. Þá væru skattsvik ekki þess virði að eltast við þau lengur fyrir þá sem það hafa stundað. Við fengjum ekki minni tekjur í ríkissjóð með þessu fyrirkomulagi því mun fleiri væru þá að borga skatta.  Einhverjir endurskoðendur gætu haft minni verkefni ...en hver hefur samúð með endurskoðendum

Marta B Helgadóttir, 27.2.2008 kl. 21:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband