Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sá besti er kominn aftur

Besti bloggarinn og einhver besti blaðamaður landsins er byrjaður að blogga aftur. Guðmundur Magnússon, á engann sinn líka.

Þeir sem hafa áhuga á þjóðmálum og þá ekki síst með sögulegum þætti, geta ekki látið skrif Guðmundar fram hjá sér fara.


Skemmtilegt á kosningaskrifstofu á Króknum

Ég fór norður í Skagafjörð síðasta fimmtudag og dvaldi á uppeldisstöðvum á Sauðárkróki. Þar er allt á öðru tempói en hér sunnan heiða, jafnvel í aðdraganda kosninga. Á uppvaxtarárum mínum á Króknum tók ég virkan þátt í kosningum, þó ekki væri ég flokksbundinn á þeim tíma. Harðan var oft mikil, enda návígi. En kosningabaráttan var yfirleitt skemmtileg.

Fyrir þremur áratugum var sagt að kjósendur á Sauðárkróki, sem vildu láta keyra sig á kjörstað hefðu samband við Alþýðubandalagið, vegna þess að allaballar keyrðu um að flottustu bílunum. Einn virðulegur borgari á Króknum lét allaballana alltaf keyra sig á kjörstað, en síðan beint í kaffi og meðlæti til íhaldsins. Þar voru bestu kökurnar og besta kaffið, enda bakarísfjölskyldan svarið íhald og nokkar bestu kökugerðarkonur sveitarinnar sáu um bakkelsið. Hann kaus hins vegar aldrei íhaldið, hvað þá allaballana. Minn gamli vinur var krati, andkommi sem þoldi íhaldið lítt nema í sinni heimabyggð. Framsókn heimsótti hann aldrei og vildi lítið um framsóknarmenn vita.

Síðasta föstudag tók ég hús á íhaldinu á Króknum; fór í kaffi á kosningaskrifstofuna við Aðalgötuna. Þá rifjaðist upp fyrir mér hve skemmtilegt og gaman það getur verið að taka þátt í kosningum. Að sitja yfir kaffi og hlusta á sögur sem einhverjir bestu sagnamenn segja er ævintýri.

Björn Björnsson, fyrrum skólastjóri, situr þar í ríki sínu, þekkir alla og kann sögur af flestum. Allar eru þær til að gleða og fremur upphefja, jafnvel pólitíska andstæðinga. Brynjar Pálsson, gamall bóksali, er vart síðri. Ég hef aldrei hitt hann í vondu skapi. Og í miðri sagnaveislu þeirra Björns og Brynjars kom Bjarni Har., móðurbróðir Einars Kristins Guðfinssonar sjávarútvegsráðherra. Þá byrjar fjörið fyrst. Og sögurnar, þær er ekki hægt að endursegja. Þegar þessir þrír koma saman verður aldrei leiðinlegt og þá er von um árangur.

Allir eru þeir gallharðir sjálfstæðismenn, hafa ákveðnar skoðanir á flestum hlutum, eru gagnrýnir á þjóðfélagið en skynja hvað vel hefur verið gert. En um leið og þeir skipuleggja kosningabáráttuna, gera þeir þá kröfu að hægt sé að hafa gaman - að menn taki lífið ekki of alvarlega. Líklega ættu fleiri að taka þessa og raunar fleiri Skagfirðinga sér til eftirbreytni. "Við skulum berjast en fjandakornið, höfum þá gaman af því," gæti verið þeirra mottó.

Markmiðið er hins vegar skýrt. Skagfirðingar eiga að tryggja kosningu Einars Odds Kristjánssonar á þing. Þetta minnir að nokkru á þegar Siglfirðingar og íhaldið í Skagafirði börðust fyrir Eykon - Eyjólf Konráð Jónsson - enda minnir Einar Oddur í mörgu á Eykon. Báðir eru hreinir og segja það sem þeir hugsa, fremur eað því hvað kjósendur vilja heyra.

Fyrir slíka menn eru félagarnir á Króknum tilbúnir til að berjast.

Skoðanakannanir benda til þess að Einar Oddur nái kjöri, sem er með hreinum ólíkindum. En kannski er það vegna þess að Skagfirðingar og Húnvetningar eru tilbúnir til að berjast fyrir Vestfirðing, vegna þess að honum er treyst.


Syni refsað fyrir dóp

Martröð allra foreldra er að börnin þeirra ánetjist fíkniefnum. Oftar en ekki standa foreldrar ráðþrota og ekki er alltaf hægt að beita hefðbundnum leiðum, með úrtölum og rökum.

Ungur faðir í Bandaríkjunum komst að því að sonur hans hefði misnotað fíkniefni og raunar stundar sölu og hann dó ekki ráðalaus. Ég er hins vegar ekki viss hvort hægt sé að mæla með aðferðinni.


Mogginn með yfirburðastöðu gagnvart Fréttablaðinu

Hægt en örugglega er Morgunblaðið að ná vopnum sínum í harðri samkeppni við Fréttablaðið. Ég vakti athygli á þessu fyrir nokkru og í dag blasir við að vígstaða þeirra í Hádegismóum verður betri með hverri vikunni.

Fasteignaauglýsingar hafa verið gríðarlega mikilvæg tekjulind fyrir Morgunblaðsins í gegnum árin. Fréttablaðið hefur allt frá stofnun herjað á þessa tekjulind og til skamms tíma með ágætum árangri. Samkeppnin um hylli fasteignasala hefur verið hörð en Morgunblaðið hefur vinninginn eftir mikil og kostnaðarsöm átök. Í dag er fasteignablað Moggans 56 síður en fasteignablað Fréttablaðsins er aðeins 16 síður. Munurinn er jafnvel enn meiri þegar litið er til innihalds.

Björn Vignir Sigurpálsson, fréttaritstjóri Morgunblaðsins, sagði í viðtali þegar blaðið flutti úr Kringlunni og upp í Hádegismóa að þeir Moggamenn væru á leið til fjalla líkt og skæruliðar og myndu herja á keppinautana þaðan. Sú herlist virðist vera að takast.

Yfirburðir Morgunblaðsins á sviði fasteigna leiðir hugann að öðrum mikilvægum tekjuþætti. Smáauglýsingar eru gríðarlega mikilvægar fyrir Fréttablaðið, líkt og þær voru fyrir DV á árum áður. Fréttablaðið situr í raun eitt að þessu markaði og samkeppnin verið í kattarlíki frá Blaðinu og Morgunblaðinu. Smáauglýsingar eru forsenda útgáfu Allt-blaðs Fréttablaðsins og varlega áætlað skila þær blaðinu vart undir 200 milljónum á ári.

Með kaupum Árvakurs (útgáfufélags Moggans) á öllu hlutafé Blaðsins hljóta "skæruliðarnir" í Hádegismóum að taka alla útgáfu Blaðsins í endurskoðunar og þá ekki síst tekjugrunninn. Hér skal því spáð að eitt af því sem staldrað verður við er hvort ekki sé rétt að herja á smáauglýsingamarkaðinn með skipulegum og öflugum hætti. Blaðið verður gert að öflugu smáauglýsingablaði og þær auglýsingar samþættar við öflugasta vef landsins, mbl.is.  


Réttar spurningar

Ég held áfram að varpa fram spurningum til frambjóðenda nú þegar kosningar nálgast. Finnst raunar að fjölmiðlungar ættu að huga að því að leita svara við spurningum sem sumar eru kannski léttvægar en aðrar skipta máli og geta varpað ljósi á það hvort samhengi sé á milli stefnu, hugsjóna og framkvæmda.

Fyrir nokkrum dögum varpaði ég fram þremur spurningum en hef ekki orðið var við svör. En ég held áfram og ekki væri úr vegi að fleiri legðu mér lið.

Guðjón Arnar Kristjánsson:

Tillögur frjálslyndra í skattamálum virðast ekki ganga upp. Er það ætlun ykkar að hækka skattleysismörk þannig að þeir sem hafa tekjur undir 250 þúsund krónum njóti 150 þúsund króna skattleysis en þeir sem eru yfir þeirri fjárhæð séu með mörkin við 122 þúsund? Með öðrum orðum sá sem er með 250 þúsund í mánaðartekjur er með lægri ráðstöfunartekjur en sá sem hefur 245 þúsund á mánuði.

Hvað kosta tillögur frjálslynda um hækkun skattleysismarka og hvernig verða þær fjármagnaðar?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir:

Jón Baldvin Hannibalsson hélt því fram í ritdómi í Morgunblaðinu að sameining vinstri manna hefði mistekist. Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi Samfylkingar, tekur undir þetta og segir engin ný tíðindi. Ertu sammála þessum tveimur félögum þínum?

Geir H. Haarde:

Er það skýr stefna Sjálfstæðisflokksins að einkavæða orkufyrirtækin ef flokkurinn heldur áfram í ríkisstjórn á komandi kjörtímabili? Ef svo er hvaða orkufyrirtæki vill Sjálfstæðisflokkurinn selja, hvenær á að selja og hvernig á að standa að sölunni?


Harmleikurinn í Virginíu tækniháskólanum

Myndirnar segja meira en orð um þann hrylling sem átti sér stað í Virginíu tækniháskólanum.


Bændur sækja fram

Á síðustu árum hefur verið ótrúlegt að fylgjast með þeirri umbreytingu sem orðið hefur í íslenskum landbúnaði. Vissulega hefur bændum fækkað og þeim mun örugglega fækka enn frekar á komandi árum. En á móti hafa komið fram á sviðið frjálshuga bændur, fullir sjálfstraust sem hafa trú á framtíðina. Ekki það að alla tíð hafa verið til stíghuga menn í íslenskri bændastétt, - vandinn hefur verið sá að þeim hefur skipulega verið haldið niðri af ótrúlega vitlaustu kerfi opinberra afskipta.

Ein mynd aukins sjálfstraust bænda á Íslandi er útgáfa Bændablaðsins - sem er eithvert besta fréttablað sem gefið er út hér á landi. Nú hefur Bændablaðið opnað nýjan fréttavef, sem ég hvet alla sem hafa áhuga á þjóðmálum - og landbúnaður skiptar þar stóran sess - að kynna sér.

Vert er að óska Bændablaðinu til hamingju með nýja vefinn.


Nú byrja yfirboðin

Yfirboðin fyrir komandi kosningar eru þegar hafin og frjálslyndir eru auðvitað ekki fyrstir. En þegar flokkar byrja að lofa er þá ekki best að hugmyndirnar standist skoðun - látum þá liggja á milli hluta hvað það kostar skattgreiðendur að efna loforðin?

Samkvæmt lauslegum útreikningi mínum er augljóst að fólk sem er með tekjur rétt undir 250 þúsund krónum (og með 150 þúsund króna skattleysismörk), er betur sett með því að afþakka launahækkun þar sem skattleysismörkin lækka um 28 þúsund krónur.

Ef það er hugmynd frjálslyndra að skattleysismörk lækki (fyrir tekjur í heild) þegar 250 þúsund króna tekjum er náð, eru tillögurnar ótrúlega vitlausar - og ekki bara vitlausar heldur ósanngjarnar og ranglátar. Ef tillagan er hins vegar sú að skattleysismörk af tekjum umfram 250 þúsund, lækki er verið að búa til ótrúlega flókið kerfi. Og dýrt verður það.

Vonandi á Frjálslyndi flokkurinn eftir að skýra þessa skattatillögur betur út, en miðað við fréttir er ekki heil brún í þeim. Þannig verða ráðstöfunartekjur manns með 245 þúsund krónur á mánuði um sex þúsund krónum hærri en þess sem er með 250 þúsund.


mbl.is Frjálslyndir vilja 150 þúsund króna skattleysismörk fyrir lágtekjurfólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Boston Now kemur út í dag - Baugur aðalbakhjarlinn

Fyrsta tölublað Boston Now, fríblaðs sem dreift er í Boston í Bandaríkjunum, kom út í dag. Útgefandi er 365 Media USA. Blaðið er eitt útrásarverkefna Gunnars Smára Egilssonar en bakhjarlinn er Baugur.

Gunnar Smári segir í viðtali við Viðskiptablaðið í dag (vb.is) að ætlunin sé að hefja útgáfu fríblaða í tíu borgum Bandaríkjanna á næstu þremur árum. Boston Now verður dreift í 200 þúsund eintökum í dag og þá fyrst og fremst á lestarstöðvum og á götuhornum.


Schwarzenegger verður reiður

Rakst á þetta myndskeið og varð að setja tengil á þetta. Ég hef verið nokkur aðdáandi Arnolds Schwarzeneggers, kannski ekki sem mesta leikara samtímans, heldur sem manns sem braust fram og náði frama í krafti eigin dugnaðar og hugvits. Hann hefur síðan náð að sanna sig sem stjórnmálamaður sem ríkisstjóri Kaliforníu.

Myndskeiðið er úr sjónvarpsþættinum Stræti San Francisco, en ég man ekki hvort þeir lögguþættir hafi verið sýndir hér á landi. Þetta er með hans fyrstu hlutverkum og augljóst að Arnolds er framtíðin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband