Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Merkingarlaus könnun

Skoðanakönnun Gallups um hvort landsmenn séu hlynntir eða andvígir hertum reglum um heimildir útlendinga til að setjast hér að, er merkingarlaus í besta falli. Túlkun fjölmiðla á niðurstöðum könnunarinnar er jafnframt villandi.

Gallup spurði eftirfarandi: "Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) að settar verði strangari reglur um heimildir útlendinga til að setjast að á Íslandi?"

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru 56,2% landsmanna hlynnt því að reglur verði hertar. Hvað felst í því að herða reglur er hins vegar með öllu óljóst. Könnunin upplýsir ekki hvort meirihluti landsmanna er á því að herða reglur til að takmarka straum erlendra borgara til landsins eða hvort rétt sé að setja kvaðir á útlendinga er varðar t.d. lágmarksþekkingu um land og þjóð, til að auðvelda þeim að aðlagast og taka fullan þátt í þjóðfélaginu.

Könnunin leiðir heldur ekki í ljós hvort landsmenn eru á því að setja skorður við búsetu allra útlendinga. Eitthvað segir mér að ef spurt hefði verið: Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) því að setja strangari reglur um heimildir annarra Norðurlandabúa til að setjast að á Íslandi?, - þá hefði niðurstaðan orðið allt önnur. Hið sama á við ef spurt hefði verið um íbúa á Evrópska efnahagssvæðinu.

Niðurstaða könnunarinnar hefði einnig orðið önnur ef spurt hefði verið: Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) að settar verði strangari reglur um heimildir útlendinga til að setjast á á Íslandi, óháð því hvort slíkar reglur kunni að hafa áhrif á möguleika Íslendinga til búsetu í öðrum löndum?

Morgunblaðið segir í fyrirsögn í gær að mestur stuðningur við hertar reglur sé meðal framsóknarmanna. Hér er í besta falli verið að draga ályktun sem ekki er hægt að draga. Ríkisútvarpið féll í sömu gryfju.

Viðhorf kjósenda er aðeins sundurgreint eftir fjórum stjórnmálaflokkum. Gallup taldi ekki rétt að greina stuðningsmenn Frjálslyndaflokksins sérstaklega, enda úrtakið of lítið til þess. Þess í stað eru kjósendur frjálslyndra, Íslandshreyfingarinnar og Baráttusamtakanna, settir saman í eitt. Þar var stuðningur við hertar reglur alls 68,6%. Eitthvað segir mér að stuðningur við hertar reglur sé mun minni innan Íslandshreyfingarinnar og því sé hlutfallið mun hærra meðal kjósenda Frjálslyndra. Líkur eru því á að fyrirsögn Morgunblaðsins og ályktun Ríkisútvarpsins, séu hreinlega rangar.

Blaðið birtir síðan könnun í dag, þar sem spurt var um hvort viðkomandi telji að innflytjendur séu vandamál. Niðurstaðan er afgerandi. Yfir 53% segja að vandamálið sé ekkert, liðlega 10% að það sé mjög lítið og tæp 13% að vandinn sé lítill. Með öðrum orðum 76,2% landsmanna segja að innflytjendur séu lítið eða ekkert vandamál hér á landi.

Svarhlutfall í könnun Blaðsins var óvenjulega hátt eða 97,8%.

Ætli niðurstaða könnunar Gallup hefði ekki orðið önnur ef fyrst hefði verið spurt á þeim nótum sem Blaðið gerir og síðan athugað hvort viðkomandi vildi strangari reglur um búsetu erlendra ríkisborgara.


Lærlingur vill hjálpa Hillary

Að líkindum eiga frambjóðendur hér á landi ekki von á því að vera fyrir barðinu á grínistum með sama hætti og Hillary Clinton, sem sækist eftir útnefningu demókrata sem forsetaframbjóðandi.

Myndbandið er í sjálfu sér frekar saklaust en á stundum fyndið. Greinilegt er af viðbrögðum Hillary að hún er öllu vön þegar kemur að því hvernig bregðast skuli við óþægilegum uppákomum.


Blaðið, Mogginn og fjölmiðlalögin

Forráðamenn Árvakurs tilkynntu á föstudag á félagið hefði eignast allt hlutafé í Ár og degi, útgáfufélagi Blaðsins.

Aðdragandi kaupanna hefur verið nokkuð langur en fyrir einu og hálfu ári keypti Árvakur helmings hlut í Blaðinu. Með kaupunum á öllu hlutafé mun vera ætlunin að sameina rekstur Morgunblaðsins og Blaðsins undir merkjum Árvakurs. Merkilegt er að kaup Árvakurs á helmings hlutnum, á sínum tíma, hefðu ekki náð fram að ganga, ef fjölmiðlalögin hefðu öðlast gildi, en Morgunblaðið barðist á sínum tíma mjög fyrir þeim lögum.

"Það er mikilvægt fyrir Árvakur að eiga sterka stöðu á fríblaðamarkaði. Blaðið hefur nú fest sig rækilega í sessi og við ætlum að styrkja rekstur þess enn með þessari sameiningu," hefur mbl.is meðal annars eftir Einari Sigurðssyni forstjóra Árvakurs.

Hefði ósk Morgunblaðsins ræst og fjölmiðlalögin tekið gildi væri Árvakur að líkindum ekki í þeim sporum að yfirtaka Blaðið að fullu. Mér er til efst að helstu hluthafar Árvakurs hefðu verið tilbúnir fyrir 18 mánuðum að kaupa Blaðið, með manni og mús, með það fyrir augum að sameina rekstur blaðanna, eins og nú er stefnt að. (Aðeins með því að yfirtaka og sameina eignarhaldið undir einn hatt, hefði yfirtaka verið möguleg, ef ákvæði fjölmiðalaga um eignarhald gilti).

Og það sem meira er hin upprunalegu fjölmiðlalög hefðu ekki aðeins kallað á uppstokkun í eigendahópi Árvakurs, heldur að líkindum komið í veg fyrir að nýir hluthafar kæmu til liðs við útgáfufélagið með þeim hætti og raun varð á.

Forvitnilegt verður að fylgjast með hvernig staðið verður að verki við samþættingu á rekstri þessara tveggja blaða. Ritstjórnir verða augljóslega aðskildar, en stoðdeildir ýmsar s.s. auglýsingadeildir með einhverjum hætti samtvinnaðar.


Sameining vinstri manna mistókst fyrir löngu

Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar (í fríi), segir í Morgunblaðsgrein í dag, að sameining vinstrimanna hafi mistekist fyrir löngu. Nokkuð sem flestir hafa gert sér grein fyrir þó Morgunblaðið hafi séð ástæðu til að setja frétt á forsíðu á laugardag sem tilvísun í bókardóm Jóns Baldvins Hannibalssonar í Lesbók helgarinnar.

Stefán Jón er greinilega ekki fyllilega sáttur við Jón Baldvin, sinn gamla samherja eða Styrmi Gunnarsson, ritstjóra Morgunblaðsins, sem hann segir með réttu að séu fornir fóstbræður. En borgarfulltrúinn spyr og það að gefnu tilefni: "Herramenn, hvar hafið þið verið?"

Auðvitað er það gömul frétt að ekki hafi tekist að sameina vinstrimenn, en það er hins vegar rangt hjá Stefáni Jóni að sú staðreynd gefi ekki tilefni til umræðu um stöðu Samfylkingarinnar í aðdraganda kosninga. Eftir að hafa hnýtt aðeins í fóstbræðurna lætur Stefán Jón sig dreyma um framtíðina, en miðað við pólitíska stöðu Samfylkingar er ólíklegt að draumurinn fái að rætast.

Grein Stefáns Jóns endurspeglar hug margra Samfylkinga í garð Jóns Baldvins, sem kunna honum litlar þakkir fyrir skrifin sem birtust á sama degi að landsfundur flokksins var á enda. Bókadómur Jóns Baldvins (um bók Steingríms J. Sigfússonar), er eins og salt í sárið hjá mörgum sem sátu fundinn.


Er ekki rétt að spyrja réttra spurninga?

Í aðdraganda kosninga er ekki úr vegi fyrir fjölmiðlunga að huga að réttum spurningum til frambjóðenda og þá ekki síst til formanna stjórnmálaflokkanna. Ég ætla á komandi dögum að draga fram nokkrar spurningar sem rétt væri að fá svar við.

Byrjun á þremur spurningum.

Steingrímur J. Sigfússon.

Fréttablaðið upplýsingir að þú hafir óskað eftir 300 þúsund króna stuðningi við þinn flokk frá Alcan. Látum það liggja á milli hluta að vinstri grænir lögðust mjög eindregið gegn stækkun álversins í Straumsvík, sem forráðamenn fyrirtækisins segja að sé fyrirtækinu nauðsynleg í harðri samkeppni. En hvernig gengur það upp að óska eftir fjárstuðningi frá Alcan eftir að þú hafði uppi stór orð um þá "ósvinnu" að sama fyrirtæki væri kostunaraðili á Kryddsíld Stöðvar 2?

Geir H. Haarde.

Í drögum að landsfundarályktun segir svo meðal annars:

"Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um sjálfstæði bænda á jörðum sínum, þar sem þinglýstar eignaheimildir beri að virða ásamt öllum þeim lögvörðu réttindum, sem jörðunum fylgja."

Hvernig getur landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkt slíka stefnu, eftir harkalega framkomu ríkisvaldsins, með fulltrúum flokksins í fararbroddi, gagnvart bændum í þjóðlendumálum?

Margrét Sverrisdóttir.

Svo virðist sem frambjóðendur Íslandshreyfingarinnar tali ekki sömu tungu í utanríkismálum. Samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins vill Íslandshreyfingin sækja þegar um aðild að Evrópusambandinu. Fyrir tæpum fjórum skrifaði þú eftirfarandi:

"Ég vara við þessum þrýstingi og leyfi mér að kalla það landráð ef menn vilja ganga inn í Evrópusambandið eins og staðan er í dag og afhenda valdaklíku stærstu fimm Evrópuþjóðanna fullveldi og sjálfstæði Íslands."

Hefur þú breytt um skoðun, eða er það einn einlæg trú því að það séu landráð að sækja um aðild að Evrópusambandinu?

Vinir mínir á Vefþjóðviljanum hafa rifjað upp grein Margrétar. Á næstu dögum verður haldið áfram að setja fram spurningar sem ætti að leita svara við hjá stjórnmálamönnum. Þeir Vefþjóðviljamenn hafa í gegnum tíðina verið duglegir að benda á misræmi í orðum og sjálfsagt leita ég í smiðju þeirra sem og annarra.


Kári Stefánsson gagnrýnir ríkisstjórnina harðlega

"Með vini eins og þessa ríkisstjórn þarf maður ekki á neinum óvinum að halda," segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í viðtali við Ólaf Teit Guðnason, blaðamann Viðskiptablaðsins. Óhætt er að fullyrða að fáir eiga von á því að Kári Stefánsson skipti sér í hóp gagnrýnenda ríkisstjórnarinnar.

Í sjálfu sér er ótrúlegt að lesa það sem Kári Stefánsson segir og er ljóst að honum er ekki gefið að líta í eigin barm. Viðtalið birtist í Viðskiptablaðinu í dag og ættu jafnt þeir sem hafa áhuga á viðskiptum sem stjórnmálum að verða sér út um eintak.

En um ríkisstjórnina segir Kári Stefánsson orðrétt:

„Ég get sagt þér það að okkar samskipti við stjórnvöld hafa verið okkur afskaplega dýr. Ef við tökum fyrst miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði, þá studdu líklega 90% fólks í þessu landi þá hugmynd en stjórnvöld báru ekki til þess gæfu að koma í gegn lögum sem hægt væri að hrinda í framkvæmd. Stjórnarflokkarnir töpuðu kjarkinum á síðustu metrunum og breyttu frumvarpinu á þann hátt að það hefur verið gjörsamlega óframkvæmanlegt. Þetta gerðu þeir eftir að við höfðum lagt í mjög mikla fjárfestingu til að undirbúa okkur undir að fara af stað með þetta verkefni. Þannig að þar kostuðu þeir okkur mikinn pening. Ríkisstjórnin lofaði okkur síðan og Alþingi

samþykkti lög sem heimiluðu henni að ábyrgjast breytanleg skuldabréf fyrir fyrirtækið. Við urðum að tilkynna það inn á markað en ríkisstjórnin efndi þetta ekki og olli okkur á þann hátt töluverðum skaða. Þetta dróst bara og dróst og dróst og endaði á því að við fórum og seldum okkar eigin breytanlegu skuldabréf án nokkurrar ríkisábyrgðar og það gekk mjög vel. En þarna var búið að búa til væntingar sem síðan var ekki hægt að standa undir og það olli okkur auðvitað tjóni. Þannig að þessi ríkisstjórn, sem á að hafa mulið undir þetta fyrirtæki, hún hefur valdið okkur erfiðustu áföllum sem fyrirtækið hefur orðið fyrir. Með vini eins og þessa ríkisstjórn þarf maður ekki á neinum óvinum að halda.

Þetta sýnir að það er erfitt og afskaplega óskynsamlegt af fyrirtækjum á Íslandi sem og annars staðar að reiða sig á stuðning hins opinbera. Stuðningur hins opinbera kemur alltaf með mjög háum prís. Og það er mjög erfitt að reiða sig á stjórnmálamenn vegna þess að stjórnmálamenn eru fyrst og fremst í því að ná endurkjöri og hlúa að sinni eigin stöðu í þessu samfélagi. Þannig er það. Við hverju býstu? Þessir menn fá bara fjögurra ára ráðningarsamninga."

 


Forstjóri Norðuráls að hætta

Michael Tanchuk, forstjóri Norðuráls á Grundartanga, er að láta af störfum. Samkvæmt fréttatilkynningu, sem meðal annars er birt á Business Wire í dag, hefur Tanchuk verið ráðinn forstjóri bandaríska álsfyrirtækisins Ormet Corp.

Áður en Tanchuk réðist til Norðuráls var hann framkvæmdastjóri hjá Alcoa. Ormet er með höfuðstöðvar í Ohio í Bandaríkjunum.

Mér er ekki kunnugt um að tilkynnt hafi verið um eftirmann Tanchuks hjá Norðuráli, raunar hefur farið lítið fyrir honum á opinberum vettvangi hér á landi.


Misheppnuð markaðsherferð

Ekki verður betur séð en að hin mikla markaðsherferð sem Framtíðarlandið fór í, til að afla undirskrifta undir það sem kallað var Sáttmáli um framtíð Íslands, hafi mistekist. Þegar ég athugaði nú fyrir skömmu höfðu 8.919 einstaklingar skrifað undir á netinu, sem verður að teljast rýr eftirtekja. Það sem af er þessum mánuði hafa aðeins 394 skrifað undir sáttmálann.

Forráðamenn Framtíðarlandsins reyndu með fremur ósmekklegum hætti að stilla þingmönnum upp við vegg. Þeir sem ekki skrifuðu undir voru sagði gráir en hinir grænir. Gefið var í skyn að þeir sem væru ekki tilbúnir til að samþykkja sáttmálann, svokallaða, væru illgarnir gagnvart náttúrunni, skorti framtíðarsýn, leiðinlegir, gráir og guggnir.

Ég fæ ekki betur séð en að aðeins einn stjórnarliði hafi skrifað undir hjá Framtíðarlandinu; Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra.

Fyrir marga stjórnarandstöðuþingmenn hefur örugglega verið erfitt að standast þrýsing a.m.k. fyrir þingmenn Samfylkingarinnar. Ég tek því ofan fyrir þeim sem ekki hafa látið undan:

Helgi Hjörvar

Lúðvík Bergvinsson

Kristján Möller

Jón Gunnarsson.


Samfylkingin vill að 2+2 verði 3 á næsta kjörtímabili

Ég á erfitt með að átta mig á því hvernig Samfylkingin ætlar annars vegar í stórátak í samgöngumálum, byggja upp þjónustu við aldraða og rétta kjör þeirra, efla menntakerfið o.s.frv. en á sama tíma að draga úr ríkisútgjöldum. Þetta er svona svipað og reyna að fá töluna 3 út þegar glímt er við reiknidæmið 2+2 (sem vefst jafnvel fyrir hinu greindasta fólki.

Í gær kynnti Samfylkingin sérstaka skýrslu sem Jón Sigurðsson, fyrrum ráðherra og seðlabankastjóri, vann að ásamt fleirum. Skýrslan ber heitið Jafnvægi og framfarir - ábyrg efnahagsstefna.

Ég ætla ekki að fara í smáatriðum ofan í skýrslu Jóns Sigurðssonar, en þar er margt athyglisvert þó ekki geti ég skrifað undir allar ályktanir sem þar eru dregnar. Á einum stað segir hins vegar:

"Bætt fjárhagsstaða ríkissjóðs ætti að auðvelda ríkinu að takast á við óvissar efnahagshorfur þegar til lengdar lætur, en um þessar mundir skiptir mestu máli að fjármálastjórn ríkisins miðist við að sporna við verðbólguþrýstingi svo ekki hvíli allt á stýrivöxtum Seðlabankans. Þetta verður aðeins gert með því að draga úr útgjöldum ríkisins og fjárfestingaráformum sem ríkisvaldið getur haft áhrif á. Það hefur ekki verið gert. Þvert á móti hafa ríkisútgjöldin verið aukin verulega á síðustu árum þrátt fyrir ofþenslu í hagkerfinu. Einkum er þetta aðhaldsleysi greinilegt í þróun ríkisútgjalda 2006 og í fjárlögum 2007."

Niðurstaðan er því einföld: Fjármálastjórn ríkisins verður að miðast við að draga úr útgjöldum ríkisins og fjárfestingum. Einfalt og rétt.

Fyrir landsfund Samfylkingarinnar sem hefst á morgun liggja hins vegar allt aðrar tillögur sem ganga þvert á hugmyndafræði Jóns Sigurðsson. Þar er lagt til að fjárfestingar í vegagerð verði stórauknar, að ekki sé minnst á fjárútgjöld er tengjast öldruðum og námsmönnum og raunar felstum öðrum landsmönnum.

Samfylkingin vill samkvæmt drögunum:

"1. Ráðast í stórátak í samgöngumálum í þeim tilgangi að stytta vegalengdir, t.d. með jarðgöngum til að auka öryggi vegfarenda, sameina atvinnusvæði og tryggja íbúum greiðan aðgang að allri helstu þjónustu.

2. Endurvekja strandsiglingar sem hagkvæman kost í flutningum.

3. Lækka flutningskostnað.

4. Tryggja öllum íbúum landsins aðgang að háhraða nettenginum á sömu kjörum og á höfuðborgarsvæðinu.

5. Tryggja öruggt farsímasamband á öllum helstu þjóðvegum landsins

6. Byggja upp net háskólastofnana á landsbyggðinni.

7. Skilgreina þau störf á vegum ríkisins sem eru óháð staðsetningu með það í huga að gera íbúum hvar sem er á landinu mögulegt að sinna þeim. Stefnt verður að því að á næsta kjörtímabili verði 1200 slík störf laus til umsóknar.

8. Endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga með það að markmiði að efla sveitarfélögin og færa til þeirra ný verkefni svo sem framhaldsskólann, málefni fatlaðra og aldraðra og nýja tekjustofna svo sem hlutdeild í fjármagnstekjuskatti.

9. Tryggja öfluga heilsugæslu og góða þjónustu sjúkrahúsa á landsbyggðinni

10. Tengja stærri heilbrigðisstofnanir betur við þjónustusvæði sín með öruggari samgöngum í lofti og á landi.

11. Styrkja menningarstarf á landsbyggðinni og menningartengda ferðaþjónustu

12. Tvöfalda jöfnunarsjóðs til náms.

13. Efla fornleifasjóð til fornleifauppgreftrar m.a. til að efla menningartengda ferðþjónustu á landsbyggðinni.

14. Tryggja bændum athafnafrelsi til vöruþróunar, frekari vinnslu og sölu eigin afurða.

15. Þróa stuðning við búsetu í sveitum t.d. með byggðatengdum greiðslum.

16. Efla íslenskan landbúnað og tryggja honum bætta stöðu með áherslu á fullvinnslu og hreinleika afurðanna.

17. Leita allra leiða til að lækka rekstrarkostnað í landbúnaði svo sem fóður-, flutnings- og raforkukostnað.

18. Beita sér fyrir sérstöku átaksverkefni til næstu ára í atvinnumálum kvenna á landsbyggðinni.

19. Setja af stað staðbundin vaxtarverkefni til að snúa við neikvæðri byggðaþróun.

20. Tryggja að ríkisvaldið gæti meðalhófs í kröfugerð sinni um þjóðlendur og leiti sátta við landeigendur og virði þinglýsta eignarsamninga."

Kannski mér fyrirgefist að koma þessu ekki öllu heim og saman.


Björk í Saturday Night Live

Björk verður gestur í Saturday Night Live, einum vinsælasta skemmti- og grínþætti Bandaríkjanna. Mun Björk flytja lag af nýjustu plötu sinni Volta laugardainn 21. apríl næstkomandi.

Saturday Night Live er einn langlífasti sjónvarpsþátturinn í Bandaríkjunum og þar hafa margir af þekktustu grínleikurum heims fengið sín fyrstu tækifæri. Þetta mun vera í annað sinn sem Björk kemur fram í þættinum.

Scarlett Johansson verður sérstakur gestastjórnandi í sama þætti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband