Hvor er trúverðugri: Bjarni eða Sigurjón?

Mál ungrar stúlku og verðandi tengdadóttur Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra, hefur þróast með sérkennilegum hætti. Mörg orð og sum þung hafa verið látin falla, en enginn hefur gengið lengra en Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins. Hann vænir félaga sína á þingi um lygar.

Þegar þingmaður heldur því fram að samstarfsmenn á þingi, jafnvel þótt pólitískir andstæðingar séu, ljúgi - segi ekki satt - er eins gott fyrir viðkomandi að hafa sannanir fyrir máli sínu. Fram til þessa hefur Sigurjón engin gögn lagt fram eða sannanir fyrir ásökunum sínum. Þvert á móti segir hann aðeins að "þetta geti ekki verið satt".

Á heimasíðu sinni skrifaði Sigurjón, undir yfirskriftinni; Bjarni Benediktsson segir ósatt, segir þingmaðurinn eftirfarandi:

"Nú ber svo við að Bjarni Benediktsson fullyrðir að hann hafi ekkert vitað af tengslum umhverfisráðherra við stúlkuna sem um ræðir. Ég trúi þessu ekki enda getur þetta ekki verið satt miðað við hvernig þessi svokallaða undirnefnd allsherjarnefndar hefur sagst starfa í öðrum málum."

Er það með þessum hætti sem við viljum að þingmenn starfi - dylgjur og hálfsannleikur skulu vera þeirra helstu verkfæri? Vonandi ekki.

Spurningin sem stendur eftir er í raun að þessi: Hvor er trúverðugri; Bjarni Benediktsson eða Sigurjón Þórðarson? Varla getur svarið vafist fyrir.


mbl.is Bjarni segist ekki hafa neitað Sigurjóni um gögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrst að alsherjarnefnd talar um að farið sé að lögum hjá nefndinni, þá væri gaman að líta á þessa umfjöllun um nefndina í öðru máli:

http://www.photo.is/bb2/viewtopic.php?t=179

http://www.photo.is/bb2/viewtopic.php?t=181

http://www.photo.is/bb2/viewtopic.php?t=182

íslenskur karlmaður (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 12:46

2 Smámynd: Haukur Nikulásson

Sigurjón er trúverðugri. Hvað finnst þér sjálfum spyrjandi góður?

Haukur Nikulásson, 2.5.2007 kl. 12:46

3 identicon

Sigurjón er trúverðugri.  Miðað við það sem komið hefur fram til þessa.  Ekki spurning

Ra (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 13:12

4 identicon

Eins og þú skrifar réttilega Óli Björn þá vefst svarið ekkert fyrir mönnum:

Sigurjón er nefninlega mun trúverðugri í þessu máli. Bjarni fer undan á flótta.

Stefán

Stefán (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 13:20

5 Smámynd: Óli Björn Kárason

Haukur, Stefán og Ívar: Afhverju skyldi Guðrún Ögmundsdóttir, þingmaður Samfylkingar, tala sama máli og Bjarni Benediktsson?

Óli Björn Kárason, 2.5.2007 kl. 13:25

6 identicon

Af því að hún er samsek um ósannsögli, bara mín skoðun auðvitað.

Stefán

Stefán (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 13:37

7 Smámynd: Auðun Gíslason

Gefum okkur að Alþingi sé svona venjulegur vinnustaður.  Um hvað talar fólk við kunningjana og vinnfélagana í matartímum og yfir kaffibollanum.  Eða bara í almennu spjalli góðra vinnufélaga.  Jú, ég held að fólk svona almennt tali um börnin sín, fjölskylduna og hvernig gengur svona yfirleitt í lífinu fyrir utan vinnuna.  Sé nú fólk orðið náið og hafi unnið lengi saman verða umræðurnar nánari.  Það þarf ekki að segja mér neitt annað en Jónína hafi nú minnst á þetta vandamál fjölskyldu sinnar yfir kaffibolla við einhverja vinnufélaga sína.  Lítið bara á mannlegu hliðina.  Vonandi tala þingmenn ekki saman í greinagerðaformi í matsalnum og á göngunum.  Hver vill ekki gera góðum vinnufélaga smágreiða sem kostar ekki neitt?  Benda honum á vélsög á góðu verði í Mest eða redda tengdardótturinni um passa.

Auðun Gíslason, 2.5.2007 kl. 13:50

8 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég hef annars staðar sagt að sá möguleiki er fyrir hendi að Guðrún hafi verið blekkt, enda er hún að hætta. Kannski er hún að bíða eftir stöðuveitingu eftir að þingferli hennar lýkur? Hver veit það? Var það ekki rétt munað hjá mér að nefndarmenn "mundu" ekkert eftir þessu máli? Síðan er því haldið fram núna að gögnin hafi farið í pappírstætara! Málinu var áður hafnað og það á að vera hlutverk allsherjarnefndar að fara "vel" yfir þessi mál. Hvers vegna eru gögnin þá ekki aðgengileg. Og af hverju eru þau að verða aðgengileg fyrst núna eða seinni partinn í dag?

Vandræðagangurinn stendur upp á Guðjón Ólaf, Guðrúnu Ögmundsdóttur og Bjarna Ben. Jónína Bjartmarz er síðan að bregðast sem fyrirmynd þegnanna í því að fara að lögum og reglum. Að auki er sá málflutningur hennar að hún hafi ekki "haft nein áhrif" á afgreiðsluna tóm lygi. Stjórnmálamenn láta kjósa sig til að hafa áhrif og ef hún hefur beitt sér á allan hátt í ráðleggingum og umgangi um lagaflækjur vegna þessa máls trúir enginn að hún hafi stoppað þar og látið síðan nefndina "eiga sig". Come on,  Óli Björn, hvað þarftu mikið meira?

Haukur Nikulásson, 2.5.2007 kl. 13:59

9 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Sigurjón Þórðarson hefur ekki verið í neinu sérstöku uppáhaldi hjá mér frekar en aðrir frjálslyndaflokksmenn.  Þess vegna segi ég "því miður" trúi ég honum betur en Bjarna, Guðjóni Ólafi og Guðrúnu Ögmunds.  Því miður.  Það er þvílík skítalykt af þessu máli að nauðsynlegt er að lofta rækilega út.  Að feta sannleikans veg fer mönnum best, spyrjið bara Árna Johnsen.

Sveinn Ingi Lýðsson, 2.5.2007 kl. 14:00

10 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Það þarf ekkert að velta því lengi fyrir sér hvor er trúverðugri!

Með reynslu úr allsherjarnefnd átti Jónína auðvitað líka að vita, að ekki þýddi að öllu venjulegu ,með aðeins þessar málsástæður sem voru nefndar hjá stúlkunni,að sækja svo fljótt um ríkisborgararétt öðru vísi en að ætlast til einhverrar sérmeðferðar vegna tengsla ráðherrans!

Kristján H Theódórsson, 2.5.2007 kl. 14:02

11 Smámynd: Þarfagreinir

Bjarni gerist nú sjálfur þarna sekur um dylgjur og hálfsannindi, eins og ég og fleiri höfum bent á. Sigurjón sagði aldrei að hann hafi leitað persónulega til Bjarna, en samt sér Bjarni ástæðu til að nefna það sérstaklega að Sigurjón hafi ekkert komið að máli við sig! Gefur þar með í skyn að Sigurjón hafi verið að ljúga þegar hann sagðist hafa falast eftir gögnunum ... þegar hið rétta er að hann sagðist hafa talað við nefndarritara allsherjarnefndar, Sigrúnu Brynju Einarsdóttur, en verið stoppaður af þar.

Nei, svona eiga þingmenn ekki að starfa.

Mína skoðun á þessu ógeðfellda máli getið þið síðan séð útlistaða rækilega á blogginu mínu, hafið þið áhuga á því.

Þarfagreinir, 2.5.2007 kl. 18:33

12 identicon

Sigurjón er talsvert trúverðugri. Bjarni fer, eins og áður er sagt, undan spurningum í flæmingi og svarar engu hreint út.

Sigurjón má, eins og við hin (þar með talið þú) ákveða hvað honum finnst, og þar til alsherjarnefnd lætur frá sér skjöl um málið, er hverjum sem er frjálst að kalla Bjarna Ben lygara. Ég sjálf myndi kalla þau öll lygara og er ég Guðrúnu sárreið, hún ætti ekki að standa með þessu óheiðarlega hægri pakki. 

Nornin (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 12:26

13 Smámynd: Óli Björn Kárason

Mér hefur verið bent á það ég eigi ekki að leyfa athugasemdir undir dulnefnum - slíkt sé andsætt því sem reynt er að gera með opnum og frjálsum umræðum. Fram til þessa hef ég ekki tekið mark á þessum ábendingum, sem eru þó réttmætar.

Hvernig væri nú að Nornin og Þarfagreinir kæmu úr felum, enda geta varla verið ástæða til þess að fela sig á bakvið dulefni. Meðferð á texta minnir hins vegar á óneitanlega á ákveðna einstaklinga.

Óli Björn Kárason, 5.5.2007 kl. 23:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband