Laugardagur, 26. maí 2007
Palladómar: Ráðherrar Samfylkingarinnar
Ráðherralisti Samfylkingarinnar kom einhverjum á óvart ekki síst þegar horft er til þess að meirihluti ráðherranna eru þingmenn sem studdu Össur Skarphéðinsson í slagnum gegn Ingibjörgu Sólrúnu um formennsku í flokknum.
Aðeins tveir ráðherrar Samfylkingarinnar hafa áður gengt ráðherraembættum; Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson. Í mörgu eru því ráðherrarnir óskrifað blað, a.m.k. í samburði við kollegana úr Sjálfstæðisflokknum.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: Mun ekki taka Ísland af lista henna viljugu þjóða, líkt og Samfylkingin barðist fyrir. Hún mun heldur ekki leiða Ísland inn í Evrópusambandið eða undirbúa jarðveginn fyrir slíkar viðræður. Ráðherraembættið tryggir hins vegar pólitíska stöðu Ingibjargar Sólrúnar innan flokks sem utan.
Össur Skarphéðinsson: Var umhverfisráðherra og verður nú iðnaðarráðherra. Það mun koma til hans kasta þegar sótt verður á um byggingu álvera, hvort heldur í Helguvík eða á Bakka við Húsavík. Erfitt að átta sig á hvernig hann ætlar að sinna verkum iðnaðarráðherra.
Kristján Möller: Verður öflugur samgönguráðherra og mun beita sér fyrir stórátaki í samgöngumálum. Vonandi gleymir hann ekki fjarskiptamálum, né samgöngum á suðvesturhorni.
Björgvin G. Sigurðsson: Óskrifað blað sem viðskiptaráðherra. Hefur lítið sem ekkert fjallað um þennan málaflokk, en uppgangur íslenskra fjármálafyrirtækja á síðustu árum hefur stóraukið vægi þessa ráðuneytis, sem áður var sameiginlegt með iðnaðarráðuneytinu. Skipan hans kom mörgum á óvart ekki síst í viðskiptaráðuneytið. Aðilar í fjármálaheiminum bíða með dóma.
Þórunn Sveinbarnardóttir: Einn besti þingmaður Samfylkingarinnar og verður forvitnilegt að fylgjast með henni í embætti umhverfisráðherra. Spurning hverning henni tekst að sigla milli skers og báru í náttúruvernd og stóriðju og þá verður einnig gaman að fylgjast með hvernig henni og Össuri tekst að stilla saman strengi sína. Það er hins vegar ljóst af orðum Þórunnar að hún vill ganga lengra í verndun og friðlýsingu einstakra svæða en stefnt hefur verið að.
Jóhanna Sigurðardóttir: Reynsluboltinn í liði Samfylkingarinnar og sest nú aftur í félagsmálaráðuneytið. Jóhanna var félagsmálaráðherra frá 1987 til júní 1994, þegar hún sagði af sér ráðherraembætti. Hún átti í hörðum deilum við Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi formann Alþýðuflokksins og skömmu síðar stofnaði hún Þjóðvaka, sem síðar rann inn í Samfylkinguna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er mjög sátt með skiptin á samgönguráðherra, vona að Kristján standi sig.
Ásdís Sigurðardóttir, 26.5.2007 kl. 20:25
Er ekki og á ekki tími kjördæmapólitíkusa eð vera liðinn!!??
Viðar Eggertsson, 26.5.2007 kl. 23:09
Tek undir með Viðari - þessu kjördæmapoti ráðherra verður að linna. Oftar en ekki hafa svokölluð „bjargráð“ sem þingmenn kjördæma lofa í kosningabaráttu bara tekið sköpunarkraft og sjálfsbjargarviðleitni frá fólkinu sjálfu úti í kjördæmunum, það situr með hendur í skauti og bíður eftir allsherjarlausninni sem lofað var. Það má finna mörg sorgleg dæmi um slíkt. Nú er eitt slíkt í gangi á Húsavík, svipað ástand varði að mig minnir í 10 ár á Austulandi.
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 26.5.2007 kl. 23:48
Tómas, Viðar og Anna. Ég ætla nú að vona að það verði nóg af göngum í norð-vestur sem annarsstaðar á komandi árum enda ekki vanþörf á þegar ekki eru einu sinni heilsárssamgöngur á milli svæða þar. Þeir besservissarar sem halda að það sé kjördæmapot ættuð kannski að kynna sér að Kristján er reyndar kjörinn í norð-austur! - Kristján mun standa sig vel, það er ég viss um.
Björn Davíðsson, 28.5.2007 kl. 18:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.