Þriðjudagur, 29. maí 2007
KR 1 - hinir 11
Í fjórum fyrstu leikjum sumarsins hefur KR aðeins náð einu stigi en tapað 11. Þetta er hin kalda tölfræði sem blasir við okkur sem styðjum Vesturbæjarstórveldið - Reykjavíkurstoltið eins og KR-ingar vilja á stundum kalla sitt lið.
Tölfræði segir ekki alltaf rétt frá, en að þessu sinni lýgur hún litlu og ýkir ekkert þegar kemur að frammistöðu KR í Landsbankadeild karla í knattspyrnu. Leikurinn í gærkvöldi á móti Víkingi var þar engin undantekning. Andleysi einkennir allt spil liðsins og sá karakter sem gert hefur KR að vinsælasta knattspyrnufélagi landsins er víðsfjarri. Að óbreyttu stefnir í óefni.
Fyrri hálfleikur á móti Víkingi var þokkalega spilaður af hálfu KR og brúnin á stuðningsmönnum var nokkuð létt, enda flestir sannfærðir um sigur. Janfvel ljósmyndarar dagblaðanna áttu von á því að boltinn myndi fyrr eða síðar rata í mark Víkinga og voru við öllu búnir við mark þeirra. Þeir veðjuðu vitlaust. Síðari hluti leiksins var dapur og fór leikur KR í skapið á fleirum en þeim er þetta skrifar.
Stuðningsmenn KR hafa oft þurft að horfa upp á fremur dapurt gengi, þó gleðistundirnar séu miklu fleiri. En eitt hafa stuðningsmennirnir verið þekktir fyrir: Þeir standa með sínum mönnum, sama hvað á gengur. Það var því dapurt að fylgjast með þekktum KR-ingum (sem sumir hverjir gangast upp í því að vera KR-ingar og láta birta myndir af sér í blöðum í fullum skrúða) yfirgefa áhorfendapallana áður en leik var lokið en nokkuð ljóst að víkingarnir úr Fossvogi færu með sigur af hólmi. Slíkir stuðningsmenn gefa "strákunum" ekki aukið sjálftraust eða kalla fram það besta.
Hvað svo sem stuðningsmönnum líður er ljóst að Vesturbæjarstórveldið verður að gera miklar breytingar á leik sínum. Í stjórnmálum hefur á stundum verið haft á orði að "ef kallinn í brúnni fiski ekki" þá eigi að skipta um skipsstjóra. Kannski að KR-ingar eigi að sækja í skóla stjórnmálanna að þessu sinni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Óli minn, þetta er nú einu stigi meira en maður átti von á. Við Valsmenn vitum alveg hverjir eru stolt Reykjavíkur!
Áfram VALUR!
Sveinn (IP-tala skráð) 30.5.2007 kl. 05:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.